Spurning

Var Ísland að undirgangast einhverjar lagalegar skyldur með því að sækja um aðild að ESB?

Spyrjandi

Jón Baldur Lorange

Svar

Ekki verður séð að Ísland hafi tekið á sig nýjar lagalegar skuldbindingar með því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Aðildarviðræðurnar fara fram í samræmi við ákveðinn samningsramma (e. negotiating framework) þar sem vísað er sérstaklega í 49. grein sáttmálans um Evrópusambandið (e. Treaty on the European Union) sem fjallar um aðildarumsóknir að sambandinu. Í þessum tveimur gögnum sem vísað er í hér á eftir er að finna ákvæði um aðildarferlið, sem og þau skilyrði sem Ísland þarf að uppfylla til að geta lokið samningaviðræðum og orðið aðildarríki. Í þeim felst hins vegar ekki að Ísland sé skuldbundið með einhverjum hætti.

***

Til að aðildarumsókn Íslands geti skapað einhvers konar skyldu að þjóðarétti, sem ríkið verði talið bundið af, þyrfti hún að byggjast á alþjóðasamningum, þjóðréttarvenjum eða almennum meginreglum, en þetta eru hinar viðurkenndu réttarheimildir þjóðaréttar. Þessir flokkar þeirra eru taldir upp í 1. málsgrein 38. greinar samþykktar Alþjóðadómstólsins í Haag, sem segir einnig að líta megi til fordæma og skrifa virtra fræðimanna við að ákvarða inntak reglna.



Ísland gekkst ekki undir nýjar lagalegar skuldbindingar með aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Um aðildarumsóknir og meðferð þeirra gildir 49. grein sáttmálans um Evrópusambandið, sem segir:
Sérhvert Evrópuríki, sem virðir þau gildi sem um getur í 2. grein og einsetur sér að stuðla að þeim, getur sótt um að gerast aðili að Sambandinu. Tilkynna skal Evrópuþinginu og þjóðþingunum um slíka umsókn. Umsóknarríkið skal senda umsókn sína til ráðsins, en það skal taka einróma ákvörðun, að höfðu samráði við framkvæmdastjórnina og að fengnu samþykki Evrópuþingsins með stuðningi meirihluta allra þingmanna. Taka skal tillit til skilyrða sem leiðtogaráðið hefur samþykkt að þurfi að uppfylla vegna aðildar.

Skilmálar aðildar og sú aðlögun á sáttmálunum, sem Sambandið byggir á, sem slík aðild felur í sér, skulu byggjast á samningi milli aðildarríkjanna og umsóknarríkisins. Þann samning skal leggja fyrir öll samningsríkin til fullgildingar í samræmi við stjórnskipunarreglur sínar.

Þessi ákvæði lýsa ákveðnu ferli sem lýkur með aðildarsamningi sem Ísland og öll aðildarríki Evrópusambandsins þurfa að samþykkja. Að því loknu myndast gagnkvæm skuldbinding að þjóðarétti. Af greininni verður hins vegar ekki ráðið að umsóknarríki undirgangist neinar alþjóðlegar skuldbindingar með því einu að sækja um aðild.

Ísland sótti formlega um aðild að Evrópusambandinu með bréfi dagsettu 16. júlí 2009. Umsóknin er einhliða aðgerð af hálfu íslenska ríkisins. Slíkar aðgerðir geta í sumum tilvikum falið í sér skuldbindingar. Svo er hins vegar ekki hér því að umsóknin vísar eingöngu til fyrrnefndrar 49. greinar.

Eftir að meðferð umsóknarinnar hafði farið fram í samræmi við þetta ákvæði samþykkti leiðtogaráð Evrópusambandsins þann 17. júní 2010 að hefja aðildarviðræður við Ísland. Framkvæmd aðildarviðræðna stýrist af svokölluðum samningsramma (e. negotiating framework), sem aðildarríki ESB hafa samþykkt á grunni tillagna framkvæmdastjórnar ESB. Rammi þessi lýsir því hvernig viðræðum skuli háttað sem og þeim skilyrðum sem Ísland þarf að uppfylla svo að hægt sé að ljúka viðræðum og gera samning um aðild.

Í samningsrammanum stendur að samningaviðræðurnar skuli byggjast á fyrrnefndri 49. grein að virtum ákveðnum ákvörðunum leiðtogaráðs Evrópusambandsins. Þó að samningsramminn mæli fyrir um þau skilyrði sem Ísland þarf að uppfylla til að verða aðildarríki, þá þýðir það ekki að Íslandi beri skylda til að ljúka viðræðunum. Í 9. málsgrein samningsrammans stendur að „eðli málsins samkvæmt séu samningaviðræðurnar opið ferli þar sem engin niðurstaða sé tryggð fyrirfram.“ Þá getur framkvæmdastjórn ESB eða þriðjungur aðildarríkja sambandsins farið fram á að viðræður verði stöðvaðar við ákveðnar aðstæður, samanber 17. málsgrein. Þó það sé ekki nefnt sérstaklega í samningsrammanum þá getur Ísland jafnframt stöðvað viðræðurnarnar.

Það verður því ekki séð að sáttmálinn um Evrópusambandið eða aðrir alþjóðasamningar leggi skyldur á herðar Íslandi. Aðrar réttarheimildir sem skoða þarf eru þjóðréttarvenjur og almennar meginreglur. Þessar réttarheimildir hafa ekki að geyma reglur sem leggja skyldur á herðar Íslandi vegna sjálfrar umsóknarinnar.

Samningsfrelsi er ein af grunnreglum þjóðaréttar, samanber aðfararorð Vínarsamningsins um alþjóðasamninga. Í allri samningagerð hafa aðilar fullt forræði viðræðna og frelsi til að semja sín á milli á þann veg sem þeir kjósa. Þar af leiðir að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu er enn á pólitísku stigi. Það breytist ekki fyrr en aðildarsamningur hefur verið undirritaður. Þó að ákveðnar reglur gildi um framkvæmd samningaviðræðanna, þá fylgja þeim engar lagalegar skuldbindingar. Niðurstaðan er því sú að með umsókn sinni að Evrópusambandinu hafi Ísland ekki undirgengist nýjar lagalegar skuldbindingar.

Það skal tekið fram að í þessu svari er eingöngu verið að kanna hvort Ísland beri einhverjar skyldur í kjölfar aðildarumsóknar. Ekki er farið út í það hvort Evrópusambandið sjálft eða aðildarríki þess beri einhverjar skyldur gagnvart Íslandi.

Heimildir og mynd:

Upphafleg spurning var svona:
Hvað fólst nákvæmlega í umsókn Íslands að aðild að Evrópusambandinu? Var Ísland að undirgangast einhverjar skyldur eða samþykkja lög og reglur Evrópusambandsins með því að senda inn formlega umsókn að sambandinu?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur15.11.2011

Tilvísun

Eggert Ólafsson. „Var Ísland að undirgangast einhverjar lagalegar skyldur með því að sækja um aðild að ESB?“. Evrópuvefurinn 15.11.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60209. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Eggert Ólafssonlögfræðingur, LLM í þjóðarétti

Við þetta svar er engin athugasemd Fela