Svar
Ef hægt er að tala um sérstaka hugmyndafræði Evrópusambandsins þá er hún varla byggð á einni tiltekinni stjórnmálastefnu því að helstu áhrifavaldar hennar eru ríkisstjórnir sem skipaðar eru flokkum með mismunandi hugmyndafræði. Ekki má heldur gleyma sérstökum hagsmunum aðildarríkja sem þau beita sér fyrir óháð ríkjandi pólitískum viðhorfum.
***
Í ýmsum ríkjum Evrópusambandsins hafa hægriflokkar verið þaulsetnari á valdastólum heldur en vinstriflokkar og má þar til dæmis nefna öll stærstu ríkin, Þýskaland, Frakkland, Stóra-Bretland og Ítalíu, og einnig Spán og Pólland eftir að þessi lönd gerðust aðilar að Evrópusambandinu. Svipað er uppi á teningnum ef fylgi flokkanna á Evrópuþinginu er skoðað, sjá til dæmis svar við spurningunni
Hversu margir þingmenn sitja á þingi Evrópusambandsins? Því mætti ætla að áhrif hægrimanna á stefnu ESB hafi verið heldur meiri en vinstrimanna. Réttast er þó að lýsa pólitískri stefnu ESB sem málamiðlun ólíkra sjónarmiða, þar sem tilhneiging til miðsækni er áberandi. Skýrast sést þetta í þriðju grein ESB-sáttmálans (skv. Lissabon-sáttmálanum) þar sem meðal markmiða sambandsins eru bæði markaðshagkerfi og félagslegt réttlæti, en meðal annarra fyrirheita eru full atvinna og sjálfbær þróun í Evrópu.
Eitt af helstu stefnumálum sósíalista í Evrópu og víðar er að vinna að bættum kjörum, aðbúnaði og réttindum verkafólks og launþega. Því er rétt að skoða hvernig þessum málum er háttað í Evrópusambandinu.
Í Rómarsáttmálanum frá 1957 kemur fram að stefnt sé að því að efla kjör og aðbúnað vinnandi fólks og samræma félagsleg kerfi aðildarlandanna. Þá var stofnaður Félagsmálasjóður Evrópu (
European Social Fund, ESF) sem einkum aðstoðaði verkamenn á Suður-Ítalíu. Það var ekki fyrr en 1986 að félagsleg málefni urðu eitt af meginverkefnum Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, þegar
Frakkinn Jacques Delors var tekinn við formennsku framkvæmdastjórnarinnar (sjá mynd).
Árið 1989 var samþykktur Félagsmálasáttmáli Evrópusambandsins (The Social Charter), sem síðan hefur verið fyrirmynd Evrópulöggjafar. Í honum voru sett fram 30 grundvallarviðmið, um réttlát laun, aðbúnað og öryggi á vinnustöðum, rétt til starfsnáms og rétt aldraðra og öryrkja. Mætti nefna þetta lágmarksviðmið um rétt verkafólks, en jafnframt var ítrekað að þessi viðmið mættu ekki vega að tilverugrundvelli lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Eitt af 12 aðildarríkjum sambandsins, Stóra-Bretland (í stjórnartíð Margaretar Thatcher), hafnaði staðfestingu Félagsmálasáttmálans sem hluta af aðalsáttmálanum og samrunaferli Evrópu.
Í Maastrichtsáttmálanum 1992 var viðauki um félagsmál sem vegna andstöðu Breta taldist ekki hluti af samkomulaginu. Í honum var þó ekki tryggður réttur fólks til verkfalla eða til að mynda verkalýðsfélög. Í Amsterdamsamkomulaginu frá 1997 var þessi viðauki felldur inn í löggjöf Evrópusambandsins, enda höfðu Bretar þá fallið frá andstöðu sinni við hann eftir að stjórn Verkamannaflokksins tók við völdum.
Árið 2006 var settur á stofn Aðlögunarsjóður Evrópu vegna hnattvæðingar (
European Globalisation Adjustment Fund, EGF) og gegnir hann vissu velferðarhlutverki þar sem markmið hans er að vinna bug á atvinnuleysi með ýmsum aðgerðum, svo sem starfsþjálfun og aðstoð við flutninga á milli landa.
Eins og kemur fram í þessari upptalningu tryggja lög Evrópusambandsins ýmis réttindi verkafólks sem hafa meðal annars náðst vegna baráttu sósíalista í aðildarríkjum þess. Ekki er þó hægt að fullyrða að þau gangi almennt lengra á því sviði en lög sem eru þegar í gildi í flestum aðildarríkjunum. Miðað við skipan Evrópuþingsins undanfarin ár er ekki að sjá að sósíalísk viðhorf séu í sókn innan Evrópusambandsins um þessar mundir.
Heimild og mynd: