Svar
Með
meirihlutaáliti utanríkismálanefndar Alþingis um aðildarumsókn að Evrópusambandinu frá júlí 2009 fylgir kostnaðaráætlun utanríkisráðuneytisins fyrir ESB-umsóknarferlið. Er þá átt við þann kostnað sem fellur til vegna þeirrar ákvörðunar Alþingis að sækja um aðild að ESB, hefja samningaviðræður og ljúka þeim. Í áætluninni er gert ráð fyrir að beinn kostnaður geti numið alls 990 milljónum króna á tímabilinu 2009–2012. Þar af er beinn kostnaður utanríkisráðuneytisins vegna ferða, ráðgjafar, starfsmanna og annarra þátta áætlaður 300 milljónir, annarra ráðuneyta 100 milljónir og loks er gert ráð fyrir þýðingarkostnaði uppá 590 milljónir.
Það er mat fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að kostnaðaráætlun utanríkisráðuneytisins sé mjög gróf og með víðum skekkjumörkum. Að mati skrifstofunnar þyrfti mjög mikinn fjárhagsaga til að kostnaðarmatið gæti staðist. Í skýrslu til Alþingis í maí 2011 metur utanríkisráðherra það svo að ekki sé útlit fyrir annað en að kostnaður við umsóknarferlið verði innan áætlunar.
***
Samandregið áætlar utanríkisráðuneytið að þessi kostnaður dreifist þannig á einstök ár í milljónum króna:
Ár |
2009 |
2010 |
2011 |
2012 |
Samtals |
Kostnaður hjá utanríkisráðuneyti |
0 |
200 |
100 |
0 |
300 |
Kostnaður hjá öðrum ráðuneytum |
0 |
50 |
50 |
0 |
100 |
Þýðingarkostnaður |
50 |
180 |
180 |
180 |
590 |
Samkvæmt
skýrslu utanríkisráðherra sem var lögð fyrir Alþingi í maí 2011 er áætlaður kostnaður nú 953 milljónir króna að teknu tilliti til niðurskurðar á framlögum til þýðinga. Að sögn utanríkisráðherra er umsóknarferlinu þannig háttað að erfitt er að sjá nákvæmlega fyrir heildarkostnað vegna einstakra þátta; það muni velta á því hvernig viðræður þróast, hve langan tíma þær taka og hve flóknar þær kunna að verða. Kostnaðaráætlanir vegna umsóknarferlisins hafi staðist fram til þessa (maí 2011) en þó hafi útgjöld fallið til heldur síðar en gert var ráð fyrir í fyrstu. Að mati utanríkisráðherra er ekki útlit fyrir annað en að kostnaður við umsóknarferlið verði innan áætlunar. Kostnaðareftirlit utanríkisráðuneytisins með umsóknarferlinu verði strangt og Alþingi verði gert viðvart ef útlit er fyrir að kostnaður verði meiri en gert var ráð fyrir.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, János Martonyi utanríkisráðherra Ungverjalands og Stefan Füle stækkunarstjóri Evrópusambandsins.
Meirihlutaáliti utanríkismálanefndar fylgir einnig minnisblað fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins til utanríkismálanefndar um kostnaðarmat utanríkisráðuneytisins vegna aðildarumsóknar að ESB. Það er mat fjárlagaskrifstofu að kostnaðaráætlun utanríkisráðuneytisins sé mjög gróf og með mjög miklum skekkjumörkum. Þetta komi einna helst til vegna þess að utanríkisráðuneytið hafi ekki lagt fram neina skiptingu á helstu kostnaðarþáttum (vegna starfsmannakostnaðar, ferðakostnaðar, og aðkeyptrar sérfræðiþjónustu), né sérstaka sundurgreiningu á kostnaði sem gæti fallið til hjá öðrum ráðuneytum, en talið er að það sé fyrst og fremst ferðakostnaður. Þá sé einn helsti óvissuþátturinn hvernig eigi að skipuleggja og nálgast aðildarviðræðurnar – líklegt þyki að verði settur mikill þungi í undirbúning og framgang aðildarviðræðna verði kostnaður meiri.
Hvað varðar þýðingakostnað vísar fjárlagaskrifstofa til þess að utanríkisráðuneytið hafi ekki getað bent á neinar almennar reglur hjá ESB um að það verði að vera búið að þýða allt fyrir inngöngu. Það er mat skrifstofunnar að þýðingakostnaður virðist því snúa fremur að inngöngu í ESB en að aðildarumsókn – ef Íslendingar ákveði að ganga í ESB verði að fara í þessa þýðingarvinnu en ef aðild væri hafnað að afloknum viðræðum yrði ekki tilefni til þess. Þá er vakin athygli á að gengisþróun geti haft töluverð áhrif á kostnaðinn og eykur það á óvissuna, sérstaklega í ferðakostnaði og erlendri sérfræðiþjónustu.
Að mati fjárlagaskrifstofu þyrfti mjög mikinn fjárhagsaga til að kostnaðarmatið gæti staðist. Takmarka þyrfti mjög ferðakostnað og aðkeypta sérfræðiþjónustu og stilla í hóf undirbúningsvinnu vegna samningsmarkmiða. Afmarka þyrfti betur umfang aðildarviðræðna og greina niður í áfanga og verkefni ef leggja ætti nákvæmara mat á kostnaðinn sem af þeim gæti leitt.
Í janúar 2011 lögðu þingmenn allra flokka utan Hreyfingarinnar fram
þingsályktunartillögu um að fela Ríkisendurskoðun að hafa reglulegt eftirlit með kostnaði við umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og birta upplýsingar um þann kostnað ársfjórðungslega. Í tillögunni er gagnrýnt hversu erfitt sé að afla greinargóðra upplýsinga um kostnað vegna aðildarumsóknarinnar og að aðgang skorti að slíkum upplýsingum. Hafa þingmenn meðal annars fundið að því að örðugt sé að átta sig á kostnaðinum, enda falli hann til innan ráðuneytanna án þess að vera sérstaklega merktur aðildarumsókninni. Þingsályktunartillagan hefur ekki verið sett á dagskrá Alþingis þegar þetta er skrifað 23. ágúst 2011.
Evrópusambandið kemur ekki beint að kostnaði Íslands við umsóknarferlið sjálft. Sambandið veitir þó ríkjum sem hafa sótt um aðild að sambandinu stuðning samkvæmt svokallaðri
IPA-áætlun (Instrument for Pre-Accession Assistance). Markmið stuðningsins er að búa stjórnsýslu umsóknarríkis sem best undir að takast á við umsóknarferlið og sömuleiðis inngönguna ef til þess kemur, en þó þannig að styrkt verkefni nýtist að mestu hvort sem af aðild verður eða ekki. Sjá nánar í svari við spurningunni
Við höfum sótt um aðstoð við umsóknarríki, þurfum við þá ekki að fullnægja skilyrðum um aðlögun að regluverki ESB? Hvernig yrði það gert? Landsáætlun IPA gerir ráð fyrir að 28 milljónum evra verði varið í styrki til Íslands fyrir árin 2011–2013 eða 4,6 milljörðum íslenskra króna á genginu í lok ágúst 2011. Samkvæmt reglum um IPA eru styrkir sem snúa að fjárfestingum bundnir að minnsta kosti 15% mótframlagi og beinir styrkir kalla á minnst 10% mótframlag frá umsóknarríki. Ef áætluð styrkupphæð gengur eftir yrði mótframlag íslenska ríkissins þannig minnst einhversstaðar á milli 460 og 690 milljónir króna (10-15%). Kostnaður íslenska ríkisins vegna mótframlaga stendur utan áðurnefndrar kostnaðaráætlunar utanríkisráðuneytisins vegna umsóknarferlisins.
Heimildir og mynd: