Spurning
Hver hefur þróun kjörsóknar í kosningum til Evrópuþings verið frá upphafi?
Spyrjandi
Jón Torfason
Svar
Dregið hefur jafnt og þétt úr þátttöku í kosningum til Evrópuþingsins síðan þær fóru fram í fyrsta sinn árið 1979 en fyrir þann tíma voru þingmenn útnefndir af þjóðþingum aðildarríkja. Þátttaka fór úr 62% árið 1979 í 43% í kosningum fyrir yfirstandandi kjörtímabil sem fóru fram árið 2009. Kjörsókn hefur frá upphafi verið mjög misjöfn eftir aðildarríkjum. Þannig var hún til að mynda 20% í Slóvakíu en 90% í Belgíu í síðustu kosningum.Grafið sýnir meðalkjörsókn í kosningum til Evrópuþingsins frá 1979-2009. Smellið á mynd til að stækka.
Almennt hefur kjörsókn verið mest í Belgíu, Lúxemborg og Grikklandi, og á Möltu og Ítalíu. Líklegt þykir að skýringin liggi að minnsta kosti að hluta til í því að í fyrrnefndum ríkjum, utan Möltu, er borgurum lagalega skylt að mæta á kjörstað (á Ítalíu var sú skylda felld úr gildi árið 1993 sem gæti skýrt minnkandi kjörsókn þar í kosningum til Evrópuþingsins frá árinu 1994). Mest var kjörsókn rúmlega 92% í Belgíu árið 1984 en lægst í Slóvakíu árið 2004 eða tæp 17% (sjá töflu). Í kosningum fyrir yfirstandandi kjörtímabil, sem haldnar voru árið 2009, var kjörsókn sem fyrr mest í Belgíu, Lúxemborg og á Möltu, eða 79-90%, en lægst í Slóvakíu og Litháen eða kringum 20%.
Taflan sýnir kjörsókn í kosningum til Evrópuþings í hverju aðildarríki fyrir sig frá 1979-2009. Smellið á töfluna til að stækka hana.
Mikið hefur verið rætt um hugsanlegar ástæður sífellt minnkandi kjörsóknar í kosningum til Evrópuþingsins. Finnski fræðimaðurinn Mikko Mattila hefur komist að þeirri niðurstöðu að áhrifaþættirnir séu að hluta til þeir sömu og í landskosningum. Þannig hafi það áhrif hvort borgurum sé lagalega skylt að mæta á kjörstað, hvaða dag vikunnar kosningar eru haldnar (kjörsókn er almennt meiri um helgar) og hvort kosningar til Evrópuþingsins séu haldnar samhliða öðrum kosningum í viðkomandi aðildarríki. Þá hafi aðrir þættir, sem tengjast Evrópusambandinu beint, einnig áhrif en þó ekki eins mikil að mati Mattila. Kjörsókn í aðildarríkjum sem hljóta háa styrki frá ESB er meiri en í þeim ríkjum sem fjármagna stóran hluta styrkjanna. Einnig sé kjörsókn meiri í aðildarríkjum þar sem ESB nýtur almennt mikils stuðnings almennings. Sú staðreynd að vald Evrópuþingsins er töluvert minna en ríkisþinga geti einnig skýrt dræma kjörsókn, þar sem ávinningurinn af því velja sinn eigin frambjóðanda á Evrópuþingið sé minni en þegar kemur að ríkisþingum. Að mati Mattila endurspeglar lítil kjörsókn í kosningum til Evrópuþings vandamál varðandi lögmæti þingsins og jafnvel Evrópusambandsins alls. Heimildir og mynd:
- Heimasíða Evrópuþingsins: Turnout at the European elections (1979-2009
- Mattila, M. Why bother? Determinants of turnout in the European elections.
Hvert hefur verið þátttökuhlutfall í kosningum til Evrópuþingsins frá því fyrst var kosið og þar til nú? Hver virðist þróunin í kosningaþátttöku vera?
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur31.8.2011
Tilvísun
Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Hver hefur þróun kjörsóknar í kosningum til Evrópuþings verið frá upphafi?“. Evrópuvefurinn 31.8.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60494. (Skoðað 28.1.2025).
Höfundur
Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef
Prenta
Senda
Frekara lesefni á Evrópuvefnum:
Við þetta svar er engin athugasemd
Fela