Spurning

Hvað segir ársskýrsla ESB fyrir árið 2009 um bókhald sambandsins?

Spyrjandi

Hrafn Arnarson

Svar

Endurskoðunarréttur Evrópusambandsins ber ábyrgð á endurskoðun á reikningum ESB. Með Maastricht-sáttmálanum frá árinu 1992 var réttinum gert að láta Evrópuþinginu og ráðinu í té sérstaka yfirlýsingu um að reikningar væru réttir og að viðskiptin sem að baki þeim byggju, væru lögmæt og rétt að formi til. Í yfirlýsingu sem fylgdi með ársskýrslu ársins 2009 komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að reikningar Evrópusambandsins gæfu glögga mynd af fjárhagsstöðu sambandsins og afkomu og breytingum á handbæru fé, í samræmi við ákvæði fjárhagsreglugerðar ESB og bókhaldsreglna framkvæmdastjórnarinnar. Rétturinn tók þó sérstaklega fram að veikleika gætti í bókhaldskerfum ákveðinna stjórnarsviða framkvæmdastjórnarinnar (e. directorate-generals, DGs).

Rétturinn komst þó engu að síður að þeirri niðurstöðu að lögmæti og reglufestu viðskipta væri ábótavant í fimm stefnuflokkum. Þar var um að ræða flokkana Landbúnaður og náttúruauðlindir, Samheldnistefna (byggðastefna), Rannsóknir, orkumál og samgöngur, Ytri aðstoð, þróunaraðstoð og stækkunarstefna, og Menntamál og borgararéttindi. Að mati réttarins var líklegasta skekkjuhlutfall (e. most likely error rate) 2-5% af greiðslum í áðurnefndum flokkum. Byggðastefnan skar sig þó úr, en þar er talið að hlutfallið sé rúmlega 5%. Til að rétturinn staðfesti lögmæti og reglufestu bókhaldsins þurfa 98% af bókhaldi hvers stefnuflokks að vera rétt bókfærð.

Næsta skýrsla Endurskoðunarréttarins, fyrir árið 2010, kemur út í nóvember 2011.

Sjá nánar um bókhald Evrópusambandsins í svörum við spurningunum Hvers vegna hafa endurskoðendur ESB ekki viljað undirrita bókhald sambandsins? og Hefur ESB gert eitthvað til þess að bókhald þess verði áreiðanlegra?

Heimildir og mynd:

Upprunaleg spurning:
Bókhald ESB virðist ekki fært með viðurkenndum stöðlum. Einhverra hluta vegna vilja endurskoðendur ekki undirrita það. Um hvað snýst málið nákvæmlega?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 5.10.2011

Flokkun:

Evrópumál > Stofnanir

Tilvísun

Vilborg Ása Guðjónsdóttir. „Hvað segir ársskýrsla ESB fyrir árið 2009 um bókhald sambandsins?“. Evrópuvefurinn 5.10.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60809. (Skoðað 3.12.2024).

Höfundur

Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á Evrópuvef

Við þetta svar er engin athugasemd Fela