Spurning

Hversu mikið af regluverki ESB hefur verið innleitt í EES-landinu Íslandi í samanburði við ESB-landið Svíþjóð?

Spyrjandi

Guðmundur Hallgrímsson

Svar

Á grunni EES-samningsins hefur Ísland fært regluverk sitt að regluverki Evrópusambandsins. Hlutfall þeirrar löggjafar sem Ísland tekur upp í gegnum samninginn er umdeilt og hafa verið nefndar mjög misháar tölur í því sambandi. Í Svíþjóð er áætlað að 80% af öllum reglum sambandsins hafi verið innleiddar í sænska löggjöf. - Tölfræðilegur samanburður á löggjöf sem á beinan eða óbeinan uppruna sinn að rekja til Evrópusambandsins getur verið villandi því erfitt er að áætla hversu mikil áhrif regluverk ESB hefur á einstaka ríki án þess að skoða innihald og mikilvægi einstakra tilskipana, reglugerða eða ákvarðana.

***

Löggjöf Evrópusambandsins er í meginatriðum tvenns konar, reglugerðir (e. regulations) og tilskipanir (e. directives). Íslenskum stjórnvöldum ber að lögfesta þær ESB-reglugerðir sem falla undir EES-samninginn óbreyttar sem lög eða stjórnvaldsreglur. Innleiðing tilskipana í íslenskan rétt er hins vegar sveigjanlegri þar sem þær eru einungis bindandi hvað markmið þeirra varðar og er ríkjum því í sjálfsvald sett hvernig markmiðunum skuli náð. Alla jafna eru tilskipanir innleiddar með setningu laga eða stjórnvaldsreglna en oft er það ekki nauðsynlegt, til dæmis ef þegar eru til staðar ákvæði í íslenskum rétti sem eru til þess fallin að ná markmiðum tilskipunarinnar. Íslensk stjórnvöld innleiða einungis þær gerðir sem falla undir gildissvið EES-samningsins og eiga samráð um þessa lagasetningu við önnur Norðurlönd og aðildarríki Evrópusambandsins.

Innleiðingarferli Íslands er ólíkt ferli aðildarríkja ESB hvað reglugerðir varðar. Þannig þurfa aðildarríkin ekki að innleiða reglugerðir í innlenda löggjöf þar sem reglugerðir Evrópusambandsins hafa bein lagaáhrif (e. direct applicability). Tilskipanir eru hins vegar innleiddar á sama hátt í EFTA/EES-ríkjunum og aðildarríkjum ESB.


Hópmynd af fulltrúum aðildarríkjanna að EES-samningnum við undirritun hans. Á myndinni má sjá þáverandi utanríkisráðherra Íslands Jón Baldvin Hannibalsson.

Ísland hefur á grunni EES-samningsins fært regluverk sitt að regluverki Evrópusambandsins á mörgum sviðum, ýmist að fullu eða að hluta. Í skýrslu forsætisráðuneytisins frá árinu 2007 segir að Ísland hafi „tekið yfir um 80% af löggjöf ESB, á grunni EES-samningins og Schengen-samningsins“ (bls. 55). Það sama segir í grein Baldurs Þórhallssonar frá 2004 (bls. 38) og ljóst er að regluverk ESB hefur því víðtæk áhrif á íslenska löggjöf. Í nýlegri skýrslu um samband Noregs og ESB kemur fram að Noregur hafi innleitt um það bil 70-80% af öllum lagagerðum Evrópusambandsins. Ennfremur er áætlað að þriðjungur allra norskra laga sé að einhverju leyti innleiðing á lagagerðum Evrópusambandsins.

Þetta hlutfall er þó umdeilt hérlendis einkum í ljósi þess að Ísland tekur ekki þátt í sameiginlegri stefnu ESB í landbúnaðarmálum. Á sviði hennar er viðamikið regluverk en framkvæmdastjórnin setur árlega mikinn fjölda reglna um tæknilegar útfærslur stefnunnar. Í skýrslu forsætisráðuneytisins er einnig sagt frá svari Davíðs Oddssonar, þáverandi utanríkisráðherra, við fyrirspurn á Alþingi árið 2005 en þar kom fram að Ísland hafi tekið upp 6,5% af heildarlöggjöf ESB á tímabilinu 1994-2004. Til heildarlöggjafar eru taldar allar tilskipanir, reglugerðir og ákvarðanir, jafnt þær sem falla innan og utan EES-samningsins, þar með taldar þær gerðir sem felldar hafa verið brott og eða höfðu aðeins tímabundið gildi.

Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins gefa ákveðnar vísbendingar um hversu mikið af regluverki ESB hefur nú þegar verið innleitt á Íslandi. Viðfangsefni aðildarviðræðnanna skiptist í 33 kafla og hefur framkvæmdastjórn ESB metið það svo að af þeim falli 10 kaflar alfarið og 11 kaflar að stórum hluta undir EES-samninginn. Því þarf eingöngu að semja um 12 kafla að öllu leyti.


Umfangsmikið regluverk ESB.
Samkvæmt upplýsingum frá Evrópusambandinu hefur Svíþjóð innleitt 98,85% af tilskipunum sambandsins en því hefur verið haldið fram að tilskipanir sambandsins séu um það bil 80% af heildarlöggjöfinni (Dinan, 2000). Í Svíþjóð er jafnan áætlað að 80% af innlendri löggjöf sé að einhverju leyti komin frá eða undir áhrifum frá regluverki Evrópusambandsins en þessi tala, eins og á Íslandi og í öðrum ríkjum, er umdeild (the EU information center for the Swedish Parliment, 2011). Í rannsóknum, sem skoðað hafa möguleg áhrif löggjafar Evrópusambandsins á innlenda löggjöf ríkja hafa komið fram ólíkar niðurstöður en um þetta hefur þegar verið fjallað í svari við spurningunni Hversu hátt hlutfall af lögum aðildarríkja kemur frá ESB?

Árið 2007 tók skrifstofa Alþingis saman yfirlit um fjölda laga sem samþykkt hafa verið hérlendis og eiga beinan eða óbeinan uppruna sinn að rekja til EES-aðildar Íslands. Niðurstaða þeirrar samantektar var að árin 1992-2006 hefðu verið samþykkt alls 1.536 lög á Alþingi og af þeim hefðu 264 lög átt beinan uppruna í EES- samninginn eða um 17,2% af samþykktum lögum á tímabilinu. Þau lög sem samþykkt voru og metið var að ættu óbeinan uppruna í EES-samstarfinu voru 333 talsins eða 21,7%. Á þessu tímabili voru rúmlega 2.500 gerðir teknar inn í EES-samninginn og ljóst að stór hluti þeirra var ýmist innleiddur í íslensk lög með setningu reglugerða í stað laga eða ekki krafist innleiðingar vegna þess að ákvæði þeirra voru þegar til staðar í íslenskum rétti. Ítarlegar niðurstöður þessarar samantektar er hægt að nálgast í skýrslu Forsætisráðuneytisins frá árinu 2007.

Hafa ber í huga að tölfræði líkt og fjallað er um hér að ofan getur ekki legið til grundvallar umræðum um áhrif gerða Evrópusambandsins hér á landi, né í öðrum samstarfsríkjum sambandsins, þar sem gerðir geta haft mjög mismikil efnisleg áhrif. Nauðsynlegt er að taka tillit til innihalds og mikilvægi lagagerða því í tölfræðilegum samanburði vegur tilskipun um rekstrarskilyrði banka á fjármálamarkaði jafn mikið og reglugerð um afnám aðgerða gegn svínapest, sem hefur lítil áhrif hérlendis. Einnig er vert að hafa í huga að nýjar reglugerðir ESB sem teknar eru upp í EES-samningnum geta endurspeglað gildandi löggjöf samstarfsríkis, sem þegar er til staðar, eða falið í sér nánari útfærslu á þegar settum reglum.

Heimildir og myndir:

Upprunaleg spurning:

Deilt er um hversu mikið af regluverki ESB hefur verið innleitt hér á landi. Mig leikur forvitni á að fá samanburð við t.d. Svíþjóð hve hlutfallið er á fjölda innleiðinga á tilskipunum, reglugerðum á ESS landinu Íslandi og ESB landinu Svíþjóð.

Svarið var lítillega uppfært þann 6.7.2021 eftir ábendingu frá Hirti J. Guðmundssyni.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur17.2.2012

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hversu mikið af regluverki ESB hefur verið innleitt í EES-landinu Íslandi í samanburði við ESB-landið Svíþjóð?“. Evrópuvefurinn 17.2.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=61249. (Skoðað 23.11.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela