Svar
Borgarafrumkvæði Evrópu mun ekki hafa bein áhrif á hlutverk smáríkja innan Evrópusambandsins, sér í lagi þar sem því er ætlað að styrkja áhrif
almennra borgara á löggjafarferli sambandsins en ekki ríkja eða ríkisstjórna. Þó má segja að Borgarafrumkvæðið muni í það minnsta styrkja hlutverk
almennra borgara smáríkja, með því að veita þeim bæði hvatningu og stofnanafarveg til að setja á fót samstarfsnet með borgurum annarra ESB-ríkja sem deila skoðunum þeirra. Búast má við að Borgarafrumkvæðið styrki stöðu borgara smáríkja á sama hátt og stofnanauppbygging Evrópuþingsins er hagstæð fulltrúum smáríkja.
***
Með
Lissabon-sáttmálanum tóku gildi ákvæði um svonefnt Borgarafrumkvæði Evrópu (
European Citizen Initiative; ECI). Samkvæmt þeim getur ein milljón ríkisborgara ESB frá í það minnsta sjö aðildarríkjum sambandsins óskað eftir því við framkvæmdastjórnina að hún leggi fram, innan ramma valdheimilda sinna, hvers konar viðeigandi tillögu varðandi málefni þar sem borgararnir telja að réttarheimild ESB þurfi til framkvæmdar sáttmálum þess. Sjá nánar um tilhögun Borgarafrumkvæðisins í svari við spurningunni
Hvað er Borgarafrumkvæði Evrópu (ECI) og hvaða breytingar mun það hafa í för með sér?.
Í ljósi þess að ekki verður hægt að skrá borgarfrumkvæði fyrr en 1. apríl 2012 er erfitt að meta áhrif þess, bæði á smáríki sem slík og eins á borgara þeirra. |
Borgarafrumkvæðið mun ekki hafa bein áhrif á hlutverk ríkja eða ríkisstjórna, en það verður öflugasta tæki
almennra borgara til þátttöku í löggjafarferli Evrópusambandsins til þessa. Jafnvel þótt Borgarafrumkvæðið feli í raun ekki í sér
beint lýðræði þá mun það hafa varanleg jákvæð áhrif á hlutverk almennra borgara í þverþjóðlegu lýðræði ESB sem er í mótun. Frá sjónarhóli ríkisborgara smáríkja ESB er Borgarafrumkvæðið mikilvægt því það auðveldar þeim að tengjast fólki í öðrum og stærri aðildarríkjum sem deilir með þeim skoðunum.
Þar sem Borgarafrumkvæðið kemur ekki til framkvæmda fyrr en næsta vor, 1. apríl 2012, er erfitt að meta áhrif þess á þessu stigi máls, hvort heldur er á smáríkin sem slík eða borgara þeirra. Engu að síður er vert að skoða tvær hliðar málsins frekar. Í fyrsta lagi er spurningin um hvort Borgarafrumkvæði Evrópu muni styrkja hlutverk smáríkja í raun misvísandi í ljósi þess að markmiðið með Borgarafrumkvæðinu er að auka þátttöku almennra borgara í ákvarðanatökuferlinu. Í öðru lagi á umræðan um áhrif Borgarafrumkvæðisins á smáríki margt sameiginlegt með umræðunni um hlutverk smáríkja í Evrópuþinginu og og möguleika þeirra til áhrifa þar.
Hvað varðar fyrra atriðið þá var Borgarafrumkvæðinu aldrei ætlað að hafa áhrif á hlutverk eða vægi ríkja, hvorki stórra né smárra. Markmiðið var hið gagnstæða, það er að segja að gefa
almennum borgurum, en ekki
kjörnum fulltrúum þeirra, sterkari rödd í löggjafarferlinu. Evrópskar hreyfingar sem berjast fyrir beinu lýðræði komu fram með hugmyndina að stofnun Borgarafrumkvæðisins þegar unnið var að nýjum framtíðarsáttmála Evrópusambandsins (
Convention on the Future of Europe) á árunum 2001-2003. Eitt aðaláhyggjuefni þessara hreyfinga var að ákvarðanataka sambandsins væri um of í höndum stofnana sem bæru einungis óbeina lýðræðislega ábyrgð, eins og framkvæmdastjórnarinnar og þó einkum ráðsins sem er skipað fulltrúum frá ríkisstjórnum aðildarríkjanna. Að mati hreyfinganna var það ekki nægilega stórt skref að auka vægi Evrópuþingsins sem er kosið beint. Þessar hreyfingar urðu fyrir ákveðnum vonbrigðum með Borgarafrumkvæðið, þar sem í því felst ekki
beint evrópskt lýðræði. Það takmarkar möguleika borgaranna til að koma málefnum á dagskrá löggjafans og þeir hafa engin bein áhrif á
útkomu löggjafarferlisins. Engu að síður setur það almenna borgara í áhrifameiri stöðu en þeir hafa áður haft.
Lágmarksfjöldi undirskrifta frá hverju ríki til að skráning borgarafrumkvæðis teljist gild er reiknaður út frá fjölda þingmanna viðkomandi ríkis á Evrópuþinginu. |
Síðari spurningin snýst um hvort Borgarafrumkvæðið sé hagstæðara borgurum stærri eða minni ríkja. Lágmarksfjöldi undirskrifta sem þarf til að skráning frumkvæðisins teljist gild gefur vísbendingu um svarið, en hann er reiknaður út frá fjölda þingmanna viðkomandi ríkis á Evrópuþinginu. Fulltrúar smáríkja innan Evrópuþingsins eru hlutfallslega fleiri en stærri ríkja og því þurfa smáríki að safna hlutfallslega fleiri undirskriftum en stærri ríki. Það er þó í raun og veru smávægilegt í ljósi þess hve lágmarksfjöldi undirskrifta frá smáríkjum er lítill hluti af þeirri einni milljón undirskrifta sem til þarf.
En hvaða hlutverki munu smáríki gegna við framkvæmd Borgarafrumkvæðisins? Þessi spurning leiðir okkur að umræðunni um hlutverk smáríkja í Evrópuþinginu, sem oft er á villigötum. Því er haldið fram, jafnvel af stjórnmálaleiðtogum, að með aðeins sex þingmönnum gæti Ísland ekki haft nein áhrif í Evrópuþinginu, þar sem þingmenn séu í heildina 751 talsins. En reyndin er sú að þingmenn Evrópuþingsins skiptast í þinghópa, að hluta eftir stjórnmálastefnu en einnig eftir því hvort þeir vilja meiri eða minni samruna ESB-ríkja innan sambandsins. Því ætti frekar að spyrja að því hvaða áhrif íslenskir stjórnmálaflokkar gætu haft í Evrópuþinginu. Samfylkingin yrði til dæmis hluti af þinghópi Sósíaldemókrata (
Progressive Alliance of Socialists and Democrats), næststærsta þinghópi Evrópuþingsins sem hefur, þegar þetta er skrifað í desember 2011, 184 sæti í þinginu. Eins og gefur að skilja kjósa Evrópuþingmenn yfirleitt í samræmi við þann þinghóp sem þeir tilheyra, en ekki með öðrum þingmönnum heimaríkis.
Sama rökfærsla á við um Borgarafrumkvæðið. Borgarafrumkvæðið er í eðli sínu þverþjóðlegt, í þeirri merkingu að árangur frumkvæðisins, sem og möguleikar borgara smáríkja til áhrifa, veltur á getu þeirra til að finna fólk í öðrum aðildarríkjum sem deilir skoðunum þeirra. Skipuleggjendur frumkvæðis verða að stofna þverþjóðlegt samstarfsnet til stuðnings sínu frumkvæði. Líklegt þykir að frjáls félagasamtök muni gegna hlutverki við myndun slíkra samstarfsneta, en samskiptamiðlar verða án efa mikilvægasti vettvangurinn. Árangur frumkvæðisaðgerða mun einnig velta á stuðningi frá Evrópuþingmönnum, þar sem þingið hefur sem stofnun hag af því að vinna að hagsmunum almennra borgara. Það á bæði við um stuðning frá heimaríkjum skipuleggjenda og eins frá öðrum ríkjum sambandsins.
Til lengri tíma litið má búast við að Borgarafrumkvæðið leiði til aukinnar stjórnmálavæðingar (e. politicalization) á vettvangi ESB. Líklegt er að hún verði síðan til þess að borgarar ESB-ríkja uppgötvi að þeir eigi í raun margt sameiginlegt með borgurum annarra aðildarríkja. Á sama tíma munu þeir uppgötva hversu lítið þeir eiga sameiginlegt með mörgum af sínum eigin samborgurum. Í því tilliti styrkir Borgarafrumkvæðið, sem og Evrópuþingið, hlutverk almennra borgara í þverþjóðlegu lýðræði framtíðarinnar í ESB.
Með þverþjóðlegu lýðræði er einfaldlega átt við lýðræði
þvert yfir landamæri, í stað lýðræðis
út fyrir landamæri. Lýðræðislegt réttmæti (e. democratic legitimation) í ESB snýst í vaxandi mæli um að finna og láta í ljós vilja almennra borgara þvert yfir landamæri, frekar en að leitast við að ná fram sáttum milli mismunandi ríkishagsmuna sem eru skilgreindir í hverju ríki fyrir sig. Þetta snertir vissulega smáríki, þar sem borgarar smáríkja þurfa að taka þátt í þverþjóðlegum samstarfsnetum til að rödd þeirra heyrist. Borgarafrumkvæðis Evrópu ýtir undir að slík samstarfsnet geti orðið að veruleika.
Heimildir og mynd: