Spurning

Getur Evrópusambandið beitt sér gegn andlýðræðislegri þróun í aðildarríki eins og í Ungverjalandi nú?

Spyrjandi

Sigurður Magnason

Svar

Með inngöngu í Evrópusambandið skuldbinda aðildarríkin sig til að verja grundvallargildi sambandsins. Þar að auki heita þau því að fara að öllum núverandi lögum sambandsins sem og þeim lögum sem samþykkt verða í framtíðinni. Að þessu leyti er aðildarríkjum ESB ekki heimilt að afgreiða hvaða lög sem er sem njóta stuðnings þjóðþinganna því landslög aðildarríkjanna verða að vera í samræmi við gildandi Evrópulög og grundvallargildi sambandsins. Nýverið tilkynnti framkvæmdastjórnin að hún hefði öðru sinni ákveðið að grípa til lagalegra úrræða gegn Ungverjalandi vegna gruns um að landið hafi brotið gegn skuldbindingum sínum samkvæmt sáttmálum sambandsins. Dómstóll Evrópusambandsins hefur síðasta orðið í lagadeilum milli stofnana ESB og aðildarríkja. Málsmeðferð vegna brota gegn sáttmálum sambandsins getur leitt til hárra sekta gegn viðkomandi ríki. Ef aðildarríkin komast einróma að þeirri niðurstöðu að eitt tiltekið aðildarríki hafi ítrekað gróflega sniðgengið grundvallargildi sambandsins - sem ætti ekki að gerast í traustu lýðræðisríki - gæti viðkomandi aðildarríki verið svipt atkvæðisrétti sínum í ráðinu.

***

Evrópusamrunanum er á köflum lýst sem samnýtingu fullveldis (e. pooling of sovereignty). Fullvalda þjóðríki hafa komið á fót yfirþjóðlegum stofnunum til að vinna að markmiðum sínum í sameiningu. Þessum yfirþjóðlegu stofnunum hafa verið fengin völd til að taka ákvarðanir sem eru bindandi fyrir þátttökuríkin, en í þeim skilningi hafa ríkin, sem að öðru leyti eru fullvalda, valið að „deila“ fullveldi sínu á sífellt fleiri sviðum. Þetta setur því nokkuð skýr mörk hvað aðildarríki Evrópusambandsins mega og mega ekki gera þegar kemur að því að samþykkja lög heima fyrir.


Ungverjaland hefur verið aðili að Evrópusambandinu síðan 2004. Myndin er af þinghúsinu í Búdapest.

Við inngöngu í ESB skuldbinda aðildarríkin sig til að hafa grundvallargildi sambandsins í heiðri en þau eru „virðing fyrir mannlegri reisn, frelsi, lýðræði, jafnrétti, réttarríkið og virðing fyrir mannréttindum, þar með töldum réttindum þeirra sem tilheyra minnihlutahópum“ (2. grein sáttmálans um Evrópusambandið). Þar að auki mega landslög aðildarríkjanna ekki brjóta í bága við gildandi Evrópulög. Það kemur til vegna reglnanna um bein réttaráhrif og forgangsáhrif (e. supremacy) Evrópuréttar fram yfir landslög.

Evrópulög geta verið á formi reglugerða, sem eru bindandi í heild sinni og gilda í öllum aðildarríkjunum án þess að vera innleiddar í landslög. Þau geta hins vegar einnig verið á formi tilskipana, sem eru einungis bindandi hvað markmið þeirra varðar en aðildarríkjunum er í sjálfsvald sett með hvaða aðferðum þessum markmiðum er náð. Þetta getur leitt til deilna þegar framkvæmdastjórnin, sem verndari sáttmála sambandsins, hefur grun um að einstök aðildarríki hafi ekki gert nóg til að ná markmiðum tiltekinnar tilskipunar. Ungverjar hafa þegar reynslu af slíkum deilum við framkvæmdastjórnina, sem hefur gripið til lagalegra aðgerða gegn þeim meðal annars vegna ófullnægjandi innleiðingar tilskipunar um foreldraorlof – á þessum deilum hefur lítið borið í fjölmiðlum.

Meiri athygli hefur hins vegar beinst að ágreiningi framkvæmdastjórnarinnar og hinnar hægrisinnuðu ríkisstjórnar Viktors Orbáns, forsætisráðherra Ungverjalands. Fyrir ári síðan, þegar Ungverjar sátu í fyrsta sinn í forsæti ráðs Evrópusambandsins, komu upp alvarlegar deilur milli framkvæmdastjórnarinnar og ungversku ríkisstjórnarinnar vegna fjölmiðlalaga sem samþykkt voru á ungverska þinginu í janúar 2011. Eftir að framkvæmdastjórnin hafði komist að þeirri niðurstöðu að lögin brytu gegn Evrópulögum sá ungverska ríkisstjórnin sig tilneydda til að gera nauðsynlegar breytingar á lögunum og komast þannig hjá því að þurfa að verja mál sitt fyrir dómstól Evrópusambandsins.

Nýjasta þróunin í Ungverjalandi er þó litin enn alvarlegri augum. Þann 17. janúar 2012, tilkynnti framkvæmdastjórnin að hún hefði ákveðið að grípa til lagalegra úrræða gegn Ungverjalandi vegna rökstudds gruns um að tiltekin ákvæði nýrra laga og nýrrar stjórnarskrár landsins brjóti gegn skuldbindingum Ungverjalands samkvæmt sáttmálum ESB (á grundvelli 258. greinar sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins). Umrædd ákvæði snúa að sjálfstæði ungverska seðlabankans, sjálfstæði dómsvaldsins og sjálfstæði gagnaverndaryfirvalda landsins. Ríkisstjórn Viktors Orbáns er gefinn frestur í einn mánuð til að gera nauðsynlegar breytingar á lögunum ella mun framkvæmdastjórnin fara með málið fyrir dómstól Evrópusambandsins. Málsmeðferð vegna brota á sáttmálunum getur leitt til þess að Ungverjum verði gert að greiða háar sektir.


Frá fundi leiðtogaráðs Evrópusambandsins í Brussel í júní 2011. Frá vinstri Viktor Orbán forsætisráðherra Ungverjalands og þáverandi forseti ráðs ESB, Jadranka Kosor forsætisráðherra Króatíu, Herman van Rompuy forseti leiðtogaráðsins og José Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnarinnar.

Þrátt fyrir núverandi tilraunir framkvæmdastjórnarinnar er með öllu óljóst hvert leiðin liggur fyrir ungversku ríkisstjórnina innan ESB til lengri tíma litið. Á þessum tímapunkti er ágreiningur ríkisstjórnar Orbáns og framkvæmdastjórnarinnar bundinn við tiltekin stefnumál. Á það hefur hins vegar verið bent að þessi stefnumál gætu haft í för með sér valdboðsstefnu. Ef þetta er rétt lýsing á áformum ungversku ríkisstjórnarinnar gæti það haft mun alvarlegri afleiðingar fyrir Evrópusambandið og Ungverjaland. Ef aðildarríki ESB komast að þeirri niðurstöðu að eitt tiltekið aðildarríki hafi ítrekað gróflega sniðgengið grundvallargildi sambandsins getur ráðið beitt hið brotlega ríki, í þessu tilfelli Ungverjaland, viðurlögum.

Í 7. grein sáttmálans um Evrópusambandið er þessi möguleiki kynntur sem neyðarúrræði en það er sniðið að atburðarás sem ætti ekki að eiga sér stað í traustum lýðræðisríkjum. Þar af leiðandi eru umtalsverðar hindranir í vegi þess að aðildarríki ESB geti beitt annað aðildarríki viðurlögum. Öll aðildarríkin verða að taka slíka ákvörðun samhljóða, að undanskildu því ríki sem um er fjallað, og verður ákvörðunin einnig að njóta stuðnings Evrópuþingsins. Takist það getur ákvörðunin um að beita aðildarríki viðurlögum leitt til þess að umrætt ríki sé svipt réttindum sínum, þar með talið atkvæðisrétti sínum í ráðinu. Það er of snemmt að spá fyrir um hverjar líkurnar eru á því að Ungverjaland og Evrópusambandið muni standa í þessum sporum einn daginn. Eins og stendur, með orðum eins af talsmönnum framkvæmdastjórnarinnar, „er boltinn hjá Ungverjum“.

Myndir:

Upprunalega spurning:

Getur Evrópusambandið beitt sér gegn and-lýðræðislegri þróun í aðildarríki eins og í Ungverjalandi nú? Skuldbindur aðild að Evrópusambandinu ekki ríki til að hafa lýðræðislegar hefðir í heiðri til frambúðar?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur18.1.2012

Tilvísun

Maximilian Conrad. „Getur Evrópusambandið beitt sér gegn andlýðræðislegri þróun í aðildarríki eins og í Ungverjalandi nú?“. Evrópuvefurinn 18.1.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=61590. (Skoðað 3.12.2024).

Höfundur

Maximilian Conradlektor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands

Við þetta svar er engin athugasemd Fela