Spurning

Hvað er iðnaðarsalt og má nota það í matvæli á Íslandi eða í öðrum Evrópulöndum?

Spyrjandi

Rúnar F. Sigurðsson, Erna

Svar

Gerður er greinarmunur á salti sem er framleitt til iðnaðarnota og salti sem ætlað er til manneldis. Salt sem framleitt er til matvælaframleiðslu er undir meira eftirliti og eru gerðar strangari kröfur til meðhöndlunar og geymslu þess. Hin almenna matvælalöggjöf Evrópusambandsins hefur verið innleidd á Íslandi. Því gilda sömu reglur um hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla sem og um opinbert eftirlit með matvælum hér á landi og í flestum öðrum Evrópulöndum.

***

Iðnaðarsalt hefur verið mikið í umræðunni hér á landi eftir að upp komst að mörg af stærstu matvælafyrirtækjum landsins hefðu notað iðnaðarsalt í stað matarsalts við framleiðslu sína síðastliðinn rúman áratug. Greinarmunur er gerður á salti sem framleitt er til iðnaðarnota og salti sem ætlað er til manneldis og matvælaframleiðslu. Iðnaðarsalt er jafnan notað í klórefnaiðnaði, við olíuvinnslu og olíu- og gasboranir. Þá er það einnig notaði í leðurvinnslu, í framleiðslu á þvottaefni, gleri, gúmmíi og í málmiðnaði svo aðeins örfá dæmi séu nefnd.

Við samanburð Matvælastofnunar á efnainnihaldi salttegundanna kom í ljós að iðnaðarsalt er með sambærilegan hreinleika og salt sem notað er til matvælaframleiðslu. Þrátt fyrir það er óljóst hvort iðnaðarsalt er skaðlegt heilsu manna en Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirlitið hafa gefið út fyrirmæli um að hætta beri notkun þess við matvælaframleiðslu. Meira eftirlit er haft með salti sem framleitt er til matvælaframleiðslu og strangari kröfur gerðar til meðhöndlunar og geymslu þess.


Salt er bæði notað til manneldis og í ýmiss konar iðnaði. Hér er mynd af venjulegu borðsalti.

Innflutningur á salti fyrir íslenskan markað er ekki háður takmörkunum því vörurnar falla undir regluna um frjálst flæði vara á Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Saltvörur eru því undir eftirliti í framleiðslulandinu sem og undir markaðseftirliti í því landi sem varan er notuð. Ef það uppgötvast að heilsuspillandi matvæli séu á markaði er það á ábyrgð fyrirtækisins að stöðva dreifingu og innkalla vöruna, enda óheimilt að markaðsetja matvæli sem gætu verið heilsuspillandi og eða óhæf til neyslu samkvæmt grein 8a í lögum um matvæli (lög nr. 93 frá 1995 ásamt síðari breytingum).

Í íslenskri og evrópskri löggjöf er mælt fyrir um nauðsyn þess að vernda neytendur fyrir mögulegum heilsuspillandi efnum í matvælum. Almenn matvælalöggjöf Evrópusambandsins (nr. 178/2002) myndar þann grunn sem nýrri matvælalöggjöf ESB byggir á og hefur hún verið innleidd hérlendis á grundvelli EES-samningsins. Markmið löggjafarinnar er að vernda líf og heilsu almennings og tryggja áframhaldandi frjálst flæði vara á EES-svæðinu. Reglugerðin skapaði einnig grundvöll fyrir breytingar á fyrirkomulagi matvælaeftirlits hér á land og í Evrópusambandinu. Áhersla er lögð á hagsmuni neytenda og ábyrgð framleiðenda og dreifingaraðila gagnvart neytendum er grundvölluð. Einnig eru settar skýrar reglur er varða rekjanleika matvæla á öllum stigum framleiðslu og dreifingar.


Saltkristallar (NaCI)
Í kjölfar almennu matvælalöggjafarinnar hafa afleiddar reglugerðir hennar einnig verið innleiddar í íslensk lög. Þær mæla meðal annars fyrir um hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla sem og opinbert eftirlit með matvælum. Af þessum afleiddu reglugerðum ber hér helst að nefna tvær. Sú fyrri (nr. 852/2004/EB) fjallar almennt um öll matvæli og er beint að matvælafyrirtækjum og stjórnendum þeirra, sem bera frumábyrgð á að tryggja að kröfur um matvælaöryggi séu uppfylltar í gegnum allt framleiðsluferlið. Reglugerðin mælir fyrir um ábyrgð stjórnenda, mikilvægi þess að góðum framleiðsluháttum sé fylgt og að matvælafyrirtæki hafi virkt innra eftirlit byggt á greiningu á hættu og mikilvægum stýristöðum (e. Hazard Analysis and Critical Control Points, HACCP).

Seinni reglugerðin (nr. 882/2004/EB) kveður á um opinbert eftirlit. Þar eru settar fram almennar reglur um opinbert eftirlit með matvælum og fóðri en reglugerðinni er ætlað að tryggja neytendavernd og ítrekar hún ábyrgð rekstraraðila matvælafyrirtækja gagnvart neytendum. Áhersla er lögð á einsleitt og hlutlaust eftirlit sem byggir á áhættumati og mælt er fyrir um menntun eftirlitsmanna og hæfni þeirra til að sinna eftirliti.

Löggjöfin er skýr um ábyrgð fyrirtækja og rétt neytenda í tengslum við matvælaframleiðslu en þrátt fyrir það koma ávallt upp umdeild mál. Umræðan um notkun iðnaðarsalts við matvælaframleiðslu er ekki fyrsta mál sinnar tegundar en skemmst er að minnast þess þegar í ljós kom að of mikið magn af kadmíni fannst í áburði hér á landi. Neytendasamtök Íslands hafa nýverið kallað eftir samræmingu eftirlits hjá opinberum stofnunum hér á landi. Markmið þess er að neytendur búi við sem bestar upplýsingar og geti hagað neyslu sinni eftir því.

Heimildir og myndir:

Upprunaleg spurning:
Iðnaðarsalt, í hvað er það ætlað?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur20.1.2012

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hvað er iðnaðarsalt og má nota það í matvæli á Íslandi eða í öðrum Evrópulöndum?“. Evrópuvefurinn 20.1.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=61703. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela