Spurning

Evrópska efnahagssvæðið

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Evrópska efnahagssvæðið (EES; European Economic Area, EEA) nær til allra 28 aðildarríkja ESB og þriggja ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (European Free Trade Association, EFTA), Íslands, Liechtensteins og Noregs. Það var stofnað árið 1994 með samningi milli EFTA-ríkjanna Íslands, Liechtensteins, Noregs, Sviss, Austurríkis, Finnlands og Svíþjóðar annars vegar og Evrópubandalagsins (EB; European Community, EC), eins og Evrópusambandið hét þá, hins vegar. Ári síðar gengu þrjú síðastnefndu EFTA-ríkin úr EFTA og í EB en EFTA-ríkið Sviss hafnaði aðild að EES með þjóðaratkvæði árið 1992.

Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið fengu EFTA/EES-ríkin aðild að innri markaði Evrópubandalagsins. Hann byggist á reglunum um fjórfrelsið en þær eru einnig kjarni EES-samningsins. Markmið samningsins er „að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði“ (1. grein EES-samningsins).

Til að ná þessu markmiði þurfa EFTA/EES-ríkin að innleiða hjá sér réttarreglur ESB á þeim sviðum sem samningurinn nær til. Á grundvelli sérstaks samkomulags EFTA-ríkjanna voru eftirlitsstofnun EFTA (e. EFTA Surveillance Authority, ESA) og EFTA-dómstóllinn (e. EFTA Court) stofnuð. Eftirlitsstofnunin hefur á sinni könnu eftirlit með framkvæmd EES-samningsins og beitingu þeirra reglna sem ríkin hafa innleitt í landslög á grundvelli hans. Hlutverki eftirlitsstofnunarinnar svipar því til hlutverks framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. EFTA-dómstóllinn hefur úrskurðarvald í þeim ágreiningsmálum sem upp koma varðandi framkvæmd og túlkun EES-samningsins í EFTA-ríkjunum. Hlutverk hans er því sambærilegt við hlutverk dómstóls Evrópusambandsins.

EES-samningurinn felur hvorki í sér tollabandalag né sameiginlega viðskiptastefnu gagnvart þriðju ríkjum. Sameiginlegar stefnur ESB í sjávarútvegi (e. Common Fisheries Policy, CFP) og landbúnaði (e. Common Agricultural Policy, CAP) eru heldur ekki hluti af EES-samningnum.
Við þetta svar er engin athugasemd Fela