Spurning

EFTA-dómstóllinn

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Dómstóll Fríverslunarsamtaka Evrópu (European Free Trade Association, EFTA), oftast nefndur EFTA-dómstóllinn, hefur lögsögu yfir EFTA-ríkjum sem eiga aðild að EES-samningnum, Íslandi, Liechtenstein og Noregi. Hlutverk EFTA-dómstólsins er fyrst og fremst að tryggja samræmda túlkun og beitingu EES-samningsins og þeirra ákvæða í löggjöf ESB sem tekin eru efnislega upp í þann samning. Slíkt samræmi er forsenda þess að markmið EES-samningsins um einsleitt markaðssvæði geti náðst.

EFTA-dómstóllinn fjallar um:
  • mál sem eftirlitsstofnun EFTA (e. EFTA Surveillance Authority, ESA) vísar til hans vegna gruns um að EFTA-ríki hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum um innleiðingu, beitingu eða túlkun EES-reglna,
  • mál er varða lausn deilumála milli tveggja eða fleiri EFTA-ríkja,
  • mál sem aðildarríki eða einstaklingar höfða vegna ákvörðunar eftirlitsstofnunar EFTA,
  • og gefur ráðgefandi álit varðandi túlkun á EES-samningnum.
Dómsvald EFTA-dómstólsins er því svipað og dómsvald dómstóls Evrópusambandsins (e. Court of Justice of the European Union) yfir aðildarríkjum ESB.

Þrír dómarar starfa við EFTA-dómstólinn, einn frá hverju EFTA/EES-ríki. Þeir eru skipaðir til sex ára í senn og velja sér forseta til þriggja ára. Málsmeðferð fyrir EFTA-dómstólnum skiptist í skriflegan og munnlegan hluta og fer hún fram á ensku nema þegar dómstóll í aðildarríki hefur óskað eftir ráðgefandi áliti. Í slíkum tilfellum er álit EFTA-dómstólsins birt á ensku og þjóðtungu þess ríkis sem bað um að álitið yrði veitt.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 2.3.2012

Tilvísun

Evrópuvefur. „EFTA-dómstóllinn“. Evrópuvefurinn 2.3.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62083. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela