Spurning

Er rétt að til sé ESB-reglugerð um hve bognir bananar og gúrkur eigi að vera?

Spyrjandi

Þorkell Einarsson

Svar

Stutta svarið við spurningunni er að viðmið ESB um hve bognar gúrkur megi vera eru ekki lengur til og sambærileg viðmið um banana hafa aldrei verið til. - Árið 2009 var felld úr gildi reglugerð Evrópusambandsins um sértæka gæðastaðla fyrir gúrkur. Á meðal þess sem hún kvað á um var hversu bognar gúrkur mættu vera hið mesta til þess að flokkast sem gúrkur af góðum gæðum. Ný reglugerð um gæðastaðla fyrir banana tók gildi í janúar 2012. Hvorki í henni né í eldri reglugerð um sama efni eru gæði banana tengd við viðmið um það hve bognir eða beinir þeir eru, að undanskilinni þeirri lágmarkskröfu að bananar séu hvorki vanskapaðir né afbrigðilega sveigðir.

***

Árið 1988 tók gildi evrópsk reglugerð um samræmda gæðastaðla fyrir gúrkur (nr. 1677/88). Samkvæmt henni skyldi gúrkum skipt í fjóra gæðaflokka („extra“ og I. til III. flokk) meðal annars eftir þroska, lit og lögun. Til að falla í tvo efstu flokkana (extra og I. flokk) þurftu gúrkur að vera „því sem næst beinar“ sem nánar var skilgreint sem „að hámarki 10 mm sveigja á 10 cm lengd“. Reglugerðin var felld úr gildi árið 2009.


Það fer mörgum sögum af reglum um banana og gúrkur í Evrópusambandinu.

Uppruna samræmdra gæðastaðla fyrir ávexti og grænmeti má rekja til tilrauna til að auka og einfalda viðskipti á milli landa. Kallað var eftir samræmingu á stöðlum sem myndu auðvelda kaupmönnum í einu landi að vita hvað þeir væru að kaupa, að magni og gæðum, þegar þeir pöntuðu kassa af grænmeti eða ávöxtum frá öðru landi, óséðan. Viðmið um hámarkssveigju varð hluti af gæðastaðlinum fyrir gúrkur bæði vegna þess að hægt er að raða meira magni af beinum gúrkum heldur en bognum í einn ávaxtakassa og þar sem það er auðveldara að pakka beinum gúrkum í umbúðir. Gæðastaðlar fyrir grænmeti og ávexti voru þó ekki fundnir upp af Evrópusambandinu en vinna við samræmingu slíkra staðla hafði hafist löngu áður á vettvangi Efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu (e. United Nations Economic Commission for Europe, UNECE).

Að frumkvæði framkvæmdastjórnar ESB var lögð fram tillaga árið 2008 um að afnema reglugerðir um sértæka gæðastaðla fyrir gúrkur og 25 aðrar tegundir af ávöxtum og grænmeti, svo sem gulrætur, sveppi, lauk, plómur og melónur, samtals 26 reglugerðir. Í stað sértækra gæðastaðla fyrir tegundirnar 26 var sett ný reglugerð með almennum lágmarksstöðlum fyrir grænmeti og ávexti (nr. 1221/2008). Nýja reglugerðin inniheldur einnig sértæka staðla fyrir tíu aðrar tegundir (epli, sítrusávexti, kívíávexti, salat, ferskjur og nektarínur, perur, jarðarber, paprikur, vínber og tómata), sem ekki voru felldir úr gildi.

Tillaga framkvæmdastjórnarinnar var hluti af átaki til að einfalda reglur og draga úr skriffinnsku innan sambandsins. Helstu rök framkvæmdastjórnarinnar fyrir niðurfellingunni voru þau að það væri ekki hlutverk ESB heldur iðnaðarins að setja slíkar reglur og að afnám reglnanna mundi draga úr óþarfri sóun á verðmætum og koma neytendum til góða. Í fyrstu atkvæðagreiðslu um tillöguna í ráði ESB studdu hana einungis átta af 27 aðildarríkjum. Þegar á hólminn var komið reyndist þó ekki meirihluti fyrir því í ráðinu að koma í veg fyrir fyrirætlanir framkvæmdastjórnarinnar.

Sértækir staðlar Efnahagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir ávexti og grænmeti, sem staðlar ESB byggðust á, eru þó ennþá til, þar með talið viðmiðið um hámarskssveigju gúrkna í efstu gæðaflokkunum tveimur. Þessir staðlar eru viðurkenndir af ESB en eru ekki bindandi. Aðilum á markaði, framleiðendum, innflytjendum, útflytjendum og verslunarmönnum, er frjálst að semja um notkun þeirra sín á milli.


Ósáttur með boginn banana?
Reglugerð um samræmda gæðastaðla fyrir banana var fyrst sett í Evrópusambandinu árið 1994 (nr. 2257/94) en sú var leyst af hólmi með nýrri reglugerð (nr. nr. 1333/2011) í janúar síðastliðnum. Í hvorugri reglugerðinni er nokkurs staðar minnst á það hversu bognir eða beinir bananar þurfi að vera til að falla í tiltekinn gæðaflokk. Hins vegar er það ein þeirra lágmarkskrafna sem gerðar eru til banana að þeir séu hvorki vanskapaðir né afbrigðilega sveigðir, óháð gæðaflokki. Ennfremur verða bananar að vera að lágmarki 14 cm langir og 27 mm þykkir til að vera leyfilegir á evrópskum markaði. Þetta á þó ekki við um banana sem ræktaðir eru á Madeira, Azoreyjum, Algarve, Krít, Lakóníu og Kýpur og eru styttri en 14 cm en þá má þó aðeins markaðssetja í ESB sem II. flokks banana.

Í rúm 20 ár hafa gagnrýnendur Evrópusambandsins bent á reglugerðir um bogna banana og gúrkur sem dæmi um hið ógurlega skrifræði og reglufargan sem sambandinu fylgir. Á sama tíma hafa stuðningsmenn ESB verið duglegir að halda því fram að tilvist slíkra reglugerða sé flökkusaga sem eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Eins og oftast liggur sannleikurinn einhvers staðar þar á milli.

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur24.2.2012

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Er rétt að til sé ESB-reglugerð um hve bognir bananar og gúrkur eigi að vera?“. Evrópuvefurinn 24.2.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=61997. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela