Spurning

Hvaða hugmyndir höfðu menn um Evrópuhugsjónina á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar og á millistríðsárunum?

Spyrjandi

G. Pétur Matthíasson

Svar

Auk þessa svars er fjallað um Evrópuhugsjónina í tveimur öðrum svörum eftir sama höfund:

Sú skoðun varð útbreidd á síðari hluta 19. aldar að sjálfsákvörðunarréttur þjóðríkja væri öruggasti grundvöllur friðar og lýðræðis í heiminum (sbr. John Stuart Mill, Considerations on Representative Government, 1861). Þessi skoðun kom fram fullmótuð og með áhrifaríkum hætti í svokölluðum 14 punktum sem Woodrow Wilson Bandaríkjaforseti setti fram í janúar 1918. Kjarni punktanna var sá að þjóðir skyldu hafa óskorað fullveldi í eigin málum, draga átti landamæri ríkja á grundvelli þjóðernis íbúanna, samskipti ríkja skyldu byggjast á opinberum samningum frekar en leynilegum bandalögum, frelsi í alþjóðaviðskiptum skyldi tryggt og þjóðríkin áttu að leysa ágreiningsmál sín innan vébanda alþjóðabandalaga.


Frá fyrsta fundi Þjóðabandalagsins árið 1920.

Þessar hugmyndir voru ráðandi við gerð friðarsamninga eftir fyrri heimsstyrjöldina (sjá Hver voru helstu atriði Versalasamninganna og hvers vegna stuðluðu þeir ekki að varanlegum friði eins og stefnt var að?). Þá varð einnig til fjöldi nýrra þjóðríkja í Evrópu og má telja Ísland þar á meðal. Fljótt kom þó í ljós að stofnun þjóðríkja tryggði alls ekki frið í álfunni. Þar kom hvort tveggja til að skilin á milli Evrópuþjóða eru fjarri því að vera skýr og yfirþjóðlegt vald skorti til að framfylgja reglum í samskiptum þjóðríkjanna. Alla 20. öldina voru því stöðugar deilur í álfunni um hvar draga átti landamæri eða hvernig aðgreina átti eina þjóð frá annarri, og er þar skemmst að minnast átaka á Balkanskaga eftir lok kalda stríðsins. Eins hefur reynst fallvalt hvað þetta varðar að treysta á ríkjabandalög sem stofnuð voru í lok heimsstyrjaldanna tveggja (Þjóðabandalagið (e. League of Nations) eftir hina fyrri og Sameinuðu þjóðirnar (e. United Nations) eftir hina síðari), þótt bæði bandalögin hafi látið ótalmargt gott af sér leiða.

Þessar staðreyndir gáfu óskum um nánara samstarf Evrópuríkja byr undir báða vængi. Hugmyndir í anda Saint-Pierres dóu aldrei (sjá fyrra svarið sem nefnt var hér á undan), og ýmsir af helstu hugmyndasmiðum þjóðernisstefnunnar á 19. öld voru jafnvel hallir undir þær. Ítalski hugsuðurinn Guiseppe Mazzini (1805–1872), sem var einn af hvatamönnum að sameiningu Ítalíu í eitt þjóðríki, gerði til að mynda tillögur um stofnun Bandaríkja Evrópu – í anda Bandaríkja Norður Ameríku – og svipaða sögu er að segja af franska heimspekingnum og trúarbragðafræðingnum Ernest Renan (1823–1892). Að mati Renans voru þjóðir ekki eilíf fyrirbæri og sá hann því fyrir sér að þær myndu hverfa einn góðan veðurdag og í stað þeirra kæmi Evrópusamband (fr. confédération européenne). Fyrri heimsstyrjöldin ýtti undir slíkar bollaleggingar, því að flestum var í mun að koma í veg fyrir að hryllingur og eyðilegging styrjaldarinnar endurtæki sig.

Þekktasti talsmaður samstarfs í Evrópu á millistríðsárunum var austurríski greifinn Richard Nikolaus Coudenhove-Kalergi (1894–1972). Árið 1923 gaf hann út bókina Pan-Europa, þar sem hann boðaði víðtæka samvinnu Evrópuríkja. Vöktu þessar tillögur töluverða athygli í fjölmiðlum, sérstaklega á 3. áratug síðustu aldar, og var jafnvel um þær fjallað í íslenskum blöðum. Þannig var vinsamlega skrifað um Coudenhove-Kalergi og hugsjónir hans í grein í Morgunblaðinu árið 1925 (T. S., „Bandaríki Evrópu“, Morgunblaðið, 20. okt. 1925, bls. 2), en þar var haft eftir greifanum að án evrópsks bandalags yrði ekki komið í veg fyrir nýja evrópska heimsstyrjöld. Að sögn Coudenhove-Kalergis voru slík samtök tryggasta vörnin gegn þeirri hættu sem Evrópubúum stafaði af Sovétríkjunum, og ef Evrópuríkin ynnu ekki saman myndu þau verða „að þróttlausri hjálendu“ Bandaríkjanna.

Áhrif þessara hugmynda urðu lítil í bráð, því að heimskreppan og uppgangur nasista á 4. áratugnum grófu undan þeim. Meðal fylgismanna Coudenhove-Kalergis voru þó áhrifamenn í evrópskum stjórnmálum, einkum í Frakklandi (til dæmis Aristide Briand, forsætisráðherra í nokkrum ráðuneytum á árunum 1909–1929) og í Þýskalandi (þekktastur þeirra var Konrad Adenauer, kanslari Vestur-Þýskalands 1949–1963).

Mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 2.3.2012

Tilvísun

Guðmundur Hálfdanarson. „Hvaða hugmyndir höfðu menn um Evrópuhugsjónina á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar og á millistríðsárunum?“. Evrópuvefurinn 2.3.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62050. (Skoðað 3.12.2024).

Höfundur

Guðmundur Hálfdanarsonprófessor í sagnfræði við HÍ

Við þetta svar er engin athugasemd Fela