Spurning

Fengju erlendir togarar aðgang að veiðum innan íslenskrar efnahagslögsögu, óháð hugsanlegum útfærslum í aðildarsamningi Íslands og ESB, ef Ísland yrði aðili að ESB?

Spyrjandi

G. Pétur Matthíasson

Svar

Í þessu svari er gert ráð fyrir því að Ísland gengi í Evrópusambandið án nokkurra undanþága eða sérlausna vegna sérstakra aðstæðna hérlendis í tengslum við sameiginlega sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Við inngöngu á þessum forsendum mundu íslensk stjórnvöld þurfa að hlíta sjávarútvegsreglum ESB undantekningarlaust en aðildarríkin hafa framselt sambandinu mikil völd á þessu sviði. Meginreglan um hlutfallslega stöðugar veiðar mundi að öllum líkindum tryggja að íslenskar útgerðir héldu hefðbundnum fiskveiðiréttindum sínum. Engin trygging er þó fyrir því að reglan um hlutfallslegan stöðugleika haldist óbreytt. Kvótahopp gæti enn fremur valdið Íslandi efnahagslegum skaða ef ekki yrði mótuð sérstök löggjöf til að sporna við því.

***

Að meginreglu hafa aðildarríkin jafnan aðgang að hafsvæðum og auðlindum hvers annars. Reglan sætir hins vegar takmörkunum að því leyti að ríkin hafa ekki jafnar heimildir til veiða á hafsvæðum hvers annars. Veiðar hafa þar að auki verið takmarkaðar á líffræðilega viðkvæmum svæðum líkt og í hinu svokallaða írska hólfi og Hjaltlandseyjahólfi en jafnframt hafa verið mótaðar sérreglur varðandi Asoreyjar, Kanaríeyjar og fleiri eyjar sem liggja langt undan meginlandi Evrópu (299. gr. sáttmálans um starfshætti ESB (SSE)).

Meginreglan um hlutfallslega stöðugar veiðar (e. relative stability) er þó helsta ástæða þess að ríki hafa ekki jafnan aðgang að veiðum. Hún felur í sér að aðildarríki ESB fá alltaf sama hlutfall af leyfilegum heildarafla í hverjum stofni innan afmarkaðs svæðis. Ákvarðanir um leyfilegan heildarafla og aflahlutdeild eru teknar af sameiginlegum stofnunum ESB. Veiðiheimildum er síðan deilt niður á aðildarríkin samkvæmt reglunni um hlutfallslegan stöðugleika. Hlutdeild hvers ríkis í heildarafla byggist því á veiðireynslu þess á tilteknum fiskistofni en einnig er tekið tillit til svæða sem eru sérstaklega háð fiskveiðum. Nánar er fjallað um úthlutun veiðiheimilda í svarinu við spurningunni Hversu mikið af heimilaðri veiði á ári hverju fengju togarar ESB að veiða í íslenskri landhelgi gengi Ísland í Evrópusambandið?


Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB

Samkvæmt skýrslu starfshóps á vegum utanríkisráðuneytisins, sjávarútvegsráðuneytisins og hagsmunasamtaka í íslenskum sjávarútvegi frá árinu 2004 sem og skýrslu forsætisráðuneytisins frá árinu 2007 mundi reglan um hlutfallslegan stöðugleika tryggja að íslenskar útgerðir héldu hefðbundnum fiskveiðiréttindum sínum innan íslenskrar efnahagslögsögu (200 sjómílna) ef Ísland gerðist aðili að ESB. Þetta leiðir af því að einungis Íslendingar hafa reynslu af veiðum í íslenskri efnahagslögsögu undanfarna áratugi. Einnig er hátt hlutfall svæða hérlendis sem eru sérstaklega háð fiskveiðum. Ísland ætti því að halda óbreyttum veiðiheimildum á staðbundnum fiskistofnum sem og flökkustofnum innan íslenskrar efnahagslögsögu.

Óvíst er þó um heimildir Íslands til þess að veiða makríl þar sem veiðireynsla Íslendinga í þeim stofni er lítil í samanburði við önnur ríki. Einnig gætu komið upp einhver álitamál um úthlutun veiðiheimilda vegna karfaveiða sem skip frá ESB stunda í íslenskri efnahagslögsögu á grundvelli tvíhliða samnings á milli Íslands og ESB. Nánari umfjöllun um meginþætti umræðunnar um sjávarútveg í tengslum við aðildarviðræður Íslands og ESB má sjá í svari við spurningunni Um hvað snýst umræðan um áhrif ESB-aðildar á sjávarútvegsstefnu Íslands?

Reglan um hlutfallslegan stöðugleika hefur verið í gildi frá því árið 1983. Hún er ekki hluti af sáttmálum Evrópusambandsins heldur sækir hún stoð sína í afleiddan rétt ESB (í reglugerð 2371/2002). Með meirihlutaákvörðun í ráðinu væri því hægt að víkja frá reglunni eða afnema hana. Óvíst er að reglur um úthlutun veiðiheimilda sem tækju við undir slíkum kringumstæðum yrðu jafn hliðhollar íslenskum sjávarútvegi og núgildandi reglur eru. Framkvæmdastjórnin kannaði afstöðu aðildarríkjanna til reglunnar í aðdraganda yfirstandandi endurskoðunar sameiginlegu sjávarútvegstefnunnar og voru 26 af 27 aðildarríkjum andsnúin breytingum á reglunni. Hverju sem því líður er óvíst hver afstaða aðildarríkjanna verður í framtíðinni.


Línuveiðar.
Veiðiheimildir hvers aðildarríkis eru bundnar við fiskiskip sem sigla undir fána viðkomandi ríkis eða eru skráð í því landi. Þannig eiga til dæmis einungis skip sem skráð eru í Bretlandi og sigla undir breskum fána að njóta þess landskvóta sem Bretlandi er úthlutaður. Sjávarútvegsfyrirtæki í aðildarríkjunum lúta á hinn bóginn þeim reglum sem gilda á innri markaðinum, þar með talið reglum um frjálsar fjármagnshreyfingar, frjálsa för launþega og staðfesturétt. Sökum þessa eru litlar sem engar hömlur á fjárfestingum í sjávarútvegi í aðildarríkjunum. Enn fremur eru engar takmarkanir á rétti ríkisborgara ESB-ríkja til að stofnsetja sjávarútvegsfyrirtæki í öðru aðildarríki og launþegum aðildarríkjanna er frjálst að ráða sig til starfa hjá útgerðarfyrirtækjum í hvaða ESB-ríki sem er.

Þetta frelsi hefur leitt til þess sem kallað er kvótahopp (e. quota hopping). Í því felst að útgerðarfyrirtæki frá aðildarríki A fær hlutdeild í landskvóta aðildarríkis B með því að:
  • setja á fót útgerð í ríki B,
  • kaupa ráðandi eignarhlut í starfandi útgerð í ríki B, eða
  • skrá skip sín í aðildarríki B,

en landar síðan aflanum í ríki A. Arðurinn af fiskveiðunum skilar sér því ekki til þess ríkis sem fékk veiðiheimildunum úthlutað upphaflega. Mörg ríki hafa sett reglur til þess að takmarka möguleikann á að stunda kvótahopp en slíkt þarf að gera í samráði við ESB. Bretland gerði til að mynda samkomulag við ESB árið 1998 þar sem innlend efnahagsleg tengsl útgerðar og skipa voru sett sem skilyrði fyrir úthlutun veiðiheimilda. Þessi skilyrði voru meðal annars þau að landa þurfi 50% af afla skips í breskri höfn, að 50% áhafnarinnar sé búsettur í Bretlandi og að verulegur hluti allra viðskipta skipsins eiga að fara fram í Bretlandi. Til þess að fá úthlutað kvóta nægir skipum að uppfylla að minnsta kosti eitt þessara skilyrða, blöndu þeirra eða að sýna með öðrum hætti fram á raunveruleg efnahagsleg tengsl.

Þótt ekki semdist um undanþágur eða sérlausnir varðandi sameiginlegu sjávarútvegsstefnuna, í aðildarviðræðum ESB, má ætla að reglan um hlutfallslega stöðugar veiðar, svo framarlega sem hún heldur gildi sínu, mundi tryggja íslenskum útgerðum áframhaldandi fiskveiðiréttindi sín í íslenskri lögsögu og koma í veg fyrir veiðar togara annarra aðildarríkja á íslenskum miðum þar sem þau skortir veiðireynslu. Möguleikinn á kvótahoppi gæti hins vegar valdið Íslandi efnahagslegum skaða ef ekki er mótað sérstakt regluverk til að sporna við því.

Heimildir og myndir:

Upprunaleg spurning:

Ef Ísland yrði aðili að ESB og gengist inn á sjávarútvegsstefnu sambandsins myndu þá spænskir, breskir eða þýskir togarara geta stundað veiðar innan 200 mílnanna? Hvað - ef nokkuð - veitti þeim rétt til þess og hvað kæmi í veg fyrir það, óháð hugsanlegum útfærslum í samningi Íslands og ESB?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur30.3.2012

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Fengju erlendir togarar aðgang að veiðum innan íslenskrar efnahagslögsögu, óháð hugsanlegum útfærslum í aðildarsamningi Íslands og ESB, ef Ísland yrði aðili að ESB?“. Evrópuvefurinn 30.3.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62237. (Skoðað 28.1.2025).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar eru 2 athugasemdir Fela athugasemdir

Eggert Sigurbergsson 31.3.2012

"Þessi skilyrði voru til að mynda þau að landa þurfi 50% af afla skips í breskri höfn, að 50% áhafnarinnar sé búsettur í Bretlandi og að verulegur hluti allra viðskipta skipsins eiga að fara fram í Bretlandi."

Framsetning er röng þar sem aðeins þarf að uppfylla eitt skilyrði.

Hér er rétt lýsing úr kvótahoppaskýrslu utanríkisráðuneytisins:

"Þau kveða á um að skip verði að uppfylla a.m.k. eitt eftirtalinna atriða til að geta fengið úthlutað kvóta í Bretlandi:

a) 50% af afla skipsins sé landað í breskri höfn, eða

b) 50% áhafnar sé búsettur í Bretlandi (ekki nauðsynlega breskir ríkisborgarar), eða

c) verulegur hluti útgjalda útgerðar skipsins sé tilkominn í Bretlandi (lágmarksviðmiðun eru útgjöld sem svari til 50% af aflaverðmæti skipsins eða 50% af launagreiðslum útgerðarinnar), eða

d) önnur atriði sem geti sýnt fram á raunveruleg efnahagsleg tengsl, t.d. með blöndu ofangreindra skilyrða. Dæmi um slíkt er að helmingur veiðiferða sé frá breskri höfn og helmingur af tíma í landi sé innan Bretlands, eða 35% hafnardaga sé innan landsins og 40% kvóta sé landað í breskri höfn, eða 30% kvóta landað í breskri höfn og 45% útgerðarkostnaðar falli til innan Bretlands, o.fl."

Það er algjörlega óhjákvæmilegt að líta framhjá því að breska niðurstaðan í kvótahoppi gæti haft gríðarlegar afleiðingar fyrir afkomu þjóðarinnar þar sem um 40% af útflutningstekjum kemur frá þessari grein.

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson 2.4.2012

Þakka þér fyrir athugasemdina Eggert. Við höfum bætt því við svarið að skipum nægi að uppfylla eitt þessara skilyrða eða blöndu þeirra til þess að fá úthlutað kvóta.