Mér skilst að orkuverð eigi að vera jafnt í öllum ríkjum ESB, hvað mun verð á rafmagni hækka mikið hér við aðild?
Spyrjandi
Björgvin Jónsson
Svar
Raforkuverð í Evrópusambandinu er ekki samræmt á milli aðildarríkja. Raforkuverð í Danmörku er til að mynda þrisvar sinnum hærra en í Búlgaríu, samkvæmt tölum Eurostat frá árinu 2011, en það eru þau aðildarríki sem hafa hæsta og lægsta raforkuverðið innan sambandsins. Skattlagning raforku er einnig mismunandi. Í Bretlandi er lagður 4,75% skattur á rafmagn en 56,57% í Danmörku. Ekkert bendir því til þess að raforkuverð á Íslandi breytist í kjölfar hugsanlegrar aðildar að ESB. Ýmsar reglugerðir á sviði orkumála hafa nú þegar verið innleiddar í íslenskan rétt á grundvelli EES-samningsins. Ein sú helsta er svonefnd raforkutilskipun (nr. 2003/54/EB) sem meðal annars setur sameiginlegar reglur um skipulagningu og starfsemi á raforkumarkaði, markaðsaðgang, viðmiðanir og málsmeðferð við útboð, leyfisveitingar og rekstur kerfa á innri markaðnum. Aðrar gerðir sem innleiddar hafa verið lúta að neytendasjónarmiðum, umhverfisþáttum, aukinni hagkvæmni í rekstri orkufyrirtækja og auknum raforkuviðskiptum milli aðildarríkja með því að opna aðgang að flutnings- og dreifikerfum ríkjanna.- Samningsafstað Íslands í orkumálum, 2011.
- Greinargerð samningahóps um orkumál í aðildarviðræðum Íslands og ESB.
- Skýrsla Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra um raforkumálefni, 2009.
- Eurostat: Energy prices statistics, 2011.
- Raforkutilskipun ESB nr. 2009/72/EB.
- Mynd sótt af heimasíðu Sambands íslenskra sveitafélaga, þann 04.04.2012.
Mér skilst að orkuverð eigi að vera jafnt í öllum ríkjum hvað hækkar rafmagnið mikið hér?
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur 4.4.2012
Efnisorð
ESB aðildarviðræður raforka raforkuverð dreifikerfi orkumál sérlausnir undanþágur raforkutilskipun rafmagn
Tilvísun
Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Mér skilst að orkuverð eigi að vera jafnt í öllum ríkjum ESB, hvað mun verð á rafmagni hækka mikið hér við aðild?“. Evrópuvefurinn 4.4.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62314. (Skoðað 28.1.2025).
Höfundur
Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum