Spurning

Hafa öll aðildarríki ESB kosið í lýðræðislegri kosningu um aðild að ESB?

Spyrjandi

Birna Guðmundardóttir

Svar

Þjóðaratkvæðagreiðslur um aðild að Evrópusambandinu hafa verið haldnar í 15 aðildarríkjum af 28. Aðild hefur einnig farið í þjóðaratkvæði í Bretlandi, Grænlandi, Álandseyjum og Noregi (í tvígang). Ekki voru haldnar þjóðaratkvæðagreiðslur í stofnríkjunum sex né í Grikklandi, Spáni, Portúgal, Kýpur, Búlgaríu og Rúmeníu, þar sem ákvarðanir um inngöngu í ESB voru teknar af þjóðþingum ríkjanna.

***

Kosið var um aðild að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu í fimmtán aðildarríkjum sambandsins af 28. Þessi ríki eru Danmörk og Írland árið 1972; Austurríki, Finnland og Svíþjóð árið 1994; Eistland, Lettland, Litháen, Malta, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland árið 2003; og Króatía árið 2012.


Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Króata að ESB fór fram í janúar 2012.

Í flestum ríkjum voru niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðild afgerandi. Aðild hefur oftast verið samþykkt með 60-90% atkvæða og kosningaþátttaka hefur almennt verið góð. Nokkur ríki skera sig þó úr hvað þetta varðar. Þannig var aðild samþykkt með litlum meirihluta í Svíþjóð (52,3%), Möltu (53,6%) og Finnlandi (56,9%) en kjörsókn í þessum ríkjum var góð (70-90%). Í öðrum ríkjum var stuðningur við aðild að ESB hins vegar afgerandi en kjörsókn lítil. Þannig var aðild samþykkt í Ungverjalandi með 83,3% atkvæða en aðeins 45,6% kjörsókn, í Slóvakíu með 93,7% atkvæða og 52,1% kjörsókn og í Tékklandi með 77,3% atkvæða og 55,2% kjörsókn.

Bretar kusu ekki um aðild fyrir inngönguna í ESB árið 1973 heldur var kosið um áframhaldandi aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1975, eftir að ný ríkisstjórn hafði tekið við völdum. Á Álandseyjum var haldin sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að ESB árið 1994, en eyjarnar eru sjálfsstjórnarsvæði innan Finnlands. Eyjarnar gengu síðan í ESB sem hluti af Finnlandi árið 1995. Í Noregi hefur tvisvar sinnum verið haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að ESB, árin 1972 og 1994, og var aðild hafnað í bæði skiptin. Einnig var efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu á Grænlandi, árið 1982, um áframhaldandi aðild að ESB eftir að landið hafði hlotið heimastjórn frá Danmörku, og var niðurstaðan úrsögn Grænlendinga úr ESB árið 1985.

Tafla: Niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslna um aðild að ESB í þeim aðildarríkjum sem þær hafa farið fram.


Þau ríki sem efndu ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild, eða áframhaldandi aðild, að ESB, fyrir utan stofnríkin sex, voru Grikkland, Portúgal, Spánn, Kýpur, Búlgaría og Rúmenía. Aðild Grikklands að ESB var samþykkt á gríska þinginu árið 1979. Skoðanakannanir frá árinu 1981 sýna að minnihluti Grikkja, 38%, var hlynntur aðild, 21% var andvígt, 28% voru hvorki hlynnt né andvíg og 13% voru óviss. Í Portúgal studdu um 56% landsmanna inngöngu í ESB, samkvæmt skoðanakönnun, en mikil samstaða var meðal stjórnmálamanna um kosti aðildar. Aðild Spánar að ESB var samþykkt einróma á spænska þinginu en kannanir frá árinu 1985 sýna að stuðningur almennings við inngönguna var um 71%.

Á kýpverska þinginu var innganga í ESB samþykkt árið 2003 með öllum atkvæðum grísk-kýpverskra þingmanna en tyrknesk-kýpversku þingmennirnir voru ekki viðstaddir atkvæðagreiðsluna. Fyrr á árinu hafði tillögu Kofi Annan, þáverandi aðalritara Sameinuðu þjóðanna, um sameiningu gríska og tyrkneska hluta Kýpur verið hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna andstöðu grískra Kýpverja. Landið er þó allt aðili að ESB en lög og reglur ESB gilda ekki á tyrkneska hluta eyjarinnar. Í Búlgaríu sýndu kannanir árið 2004 að um 80% stuðningur væri við aðild að ESB og því var þjóðaratkvæðagreiðsla talin óþörf. Á búlgarska þinginu samþykkti 231 þingmaður af 234 aðildina, einn þingmaður kaus gegn aðild en tveir voru fjarverandi. Svipaðar aðstæður voru í Rúmeníu þar sem allir þingmenn rúmenska þingsins samþykktu aðild. Stuðningur almennings var einnig umtalsverður.

Í Króatíu var kosið um aðild að ESB í janúar 2012 og var hún samþykkt með um 66% atkvæða, kjörsókn var um 44%. Króatía gekk formlega í ESB 1. júlí 2013 og er 28. aðildarríki sambandsins.

Þetta svar var uppfært 4. júlí 2013 í kjölfar inngöngu Króatíu í Evrópusambandið.

Heimildir og mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela