Spurning

Hvað táknar CE-merking á vörum, er það sérstakur evrópskur gæðastimpill?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

CE-merking er skilyrði fyrir markaðssetningu tiltekinna vara á Evrópska efnahagssvæðinu. Merkið er auðkennismerking sem gefur til kynna að framleiðandi, innflytjandi eða dreifingaraðili vöru ábyrgist að hún uppfylli þær grunnkröfur um öryggi og almennt heilbrigði sem tilskipanir Evrópusambandsins kveða á um. CE-merkingin þýðir ekki að varan hafi verið framleidd í Evrópu og hún er heldur ekki ábending um að varan sé sérstaklega vönduð eða örugg og er því ekki gæðastimpill; hún segir til dæmis ekkert til um endingu vörunnar.

***

Vörur sem falla undir svonefndar nýaðferðartilskipanir Evrópusambandsins verða að bera CE-merki til að þær megi markaðssetja á Evrópska efnahagssvæðinu. Stafirnir CE (fr. Conformité Européenne, e. European Conformity) eru merki þess að framleiðandi, innflytjandi eða dreifingaraðili tiltekinnar vöru ábyrgist að varan uppfylli þær lágmarkskröfur um öryggi og heilsuvernd sem gerðar eru til hennar. Vöruflokkar sem heyra undir nýaðferðartilskipanir eru til dæmis leikföng, vélar, raftæki, persónuhlífar og notendabúnaður fjarskiptakerfa og síma.


CE-merkið þarf að vera að minnsta kosti 5 mm á hæð nema ekki sé hægt að koma því við vegna þess hvers eðlis búnaðurinn er. Ef CE-merkið er minnkað eða stækkað þurfa hlutföllin samkvæmt þessari teikningu að haldast óbreytt.

Sem dæmi þá þurfa öll leikföng sem eru markaðssett á EES-svæðinu að bera CE-merkingu í samræmi við tilskipun (nr. 2009/48) um öryggi leikfanga en í henni eru útlistaðar reglur sem framleiðendur, innflytjendur eða dreifingaraðilar leikfanga þurfa að fara eftir vilji þeir markaðssetja slíkar vörur á EES-svæðinu. Til að mynda gerir tilskipunin þá kröfu að einungis séu notuð efni í leikföngin sem ekki valda börnum skaða. Nánar er fjallað um reglur Evrópusambandsins um öryggi leikfanga í svari við spurningunni Af hverju setur Evrópusambandið sérstakar reglur um öryggi leikfanga?

Vörur eru mishættulegar og/eða -flóknar og því gilda mismunandi reglur um CE-merkingar vara eftir því hversu áhættusamar og/eða viðkvæmar vörurnar kunna að vera. Vöruflokkurinn tæki sem brenna gasi fellur til að mynda undir nýaðferðartilskipun (nr. 2009/142) sem gerir strangar kröfur um öryggisprófanir vegna áhættusemi slíkra tækja. Þannig þarf vara sem fellur í þennan flokk að gangast undir öryggispróf sem óháð prófunarstofa framkvæmir til að meta hvort varan uppfylli gerðar kröfur áður en hún er CE-merkt. Fyrir aðrar vörur, sem teljast ekki jafn áhættusamar eða flóknar, er CE-merkið ekki vottun um að vara hafi verið prófuð af eftirlitsaðila heldur einhliða yfirlýsing framleiðanda um að varan uppfylli þau skilyrði sem um hana gilda í ákveðnum tilskipunum.


Ferli CE-merkingar vöru.

Framleiðendur, innflytjendur og dreifingaraðilar vara sem lúta reglum nýaðferðartilskipana bera sameiginlega ábyrgð á því að vörur sem uppfylla ekki almennar öryggiskröfur og -staðla séu ekki settar á markað á Evrópska efnahagssvæðinu. Innflytjendur vara sem framleiddar eru í ríkjum utan EES-svæðisins þurfa að sannreyna að framleiðendur hafi gert nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að grundvöllur sé fyrir CE-merkingunni og dreifingaraðilar verða að sýna aðgát við að bera kennsl á og fjarlægja vörur sem eru ekki öruggar.

Tekið er á málum og viðurlögum beitt ef ómerktar vörur eru settar á markað á EES-svæðinu eða ef CE-merktar vörur uppfylla ekki samræmda öryggisstaðla. Í EES-ríkjunum starfa því sérstakar eftirlitsstofnanir sem fylgjast með og vernda neytendur gegn ótryggum vörum. Eftirlitsstofnanir geta gripið til aðgerða ef reglur eru brotnar, til að mynda innkallað vörur frá neytendum, fjarlægt þær úr verslunum eða tryggt að vörum sé fargað séu þær taldar mjög skaðlegar heilsu og/eða öryggi einstaklinga. Þær geta einnig beitt ábyrgðarmenn sektum eða öðrum viðurlögum. Eftirlitsstofnunum ber að auki skylda til að tilkynna allar aðgerðir sem þær grípa til ef talið er að hætta stafi af ákveðnum vörum. Slíkum tilkynningum er miðlað um sameiginlegt viðvörunarkerfi (RAPEX) sem gerir öðrum EES-ríkjum kleift að grípa til samskonar ráðstafana.

Á Íslandi gilda sömu reglur um CE-merkingar og í öðrum EES-ríkjum þar sem landið er aðili að EES-samningnum. Vinnueftirlitið framkvæmir markaðseftirlit með vörum sem eru til sérfræðinotkunar í atvinnurekstri (sbr. lyftur, vélar, þrýstibúnaður, svo nokkuð sé nefnt). Markaðseftirlit á neytendavörum, eins og til dæmis leikföngum, mælitækjum og ljósaperum, er í höndum Neytendastofu. Landlæknisembættið fer með eftirlit á lækningatækjum, á meðan Póst- og fjarskiptastofnun fer með eftirlit á fjarskiptabúnaði og Siglingastofnun á skemmtibátum.

Heimilidir og myndir:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela