Spurning

Svæðanefndin

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Svæðanefnd Evrópusambandsins (e. Committee of the Regions) var komið á fót með Maastricht-sáttmálanum árið 1994 í þeim tilgangi að efla aðkomu sveitarstjórna og annarra svæðisbundinna yfirvalda í aðildarríkjunum að ákvarðanatökuferli sambandsins. Svæðanefndin gegnir ráðgefandi hlutverki gagnvart Evrópuþinginu, framkvæmdastjórninni og ráðinu. Nefndin hefur aðsetur í Brussel í Belgíu.

Markmið svæðanefndarinnar er að skapa fulltrúum minni stjórnsýslueininga vettvang til að taka virkan þátt í mótun nýrrar ESB-löggjafar, en um það bil þrír fjórðu hlutar ESB-löggjafar koma til framkvæmdar hjá sveitarfélögum eða svæðisbundnum yfirvöldum aðildarríkjanna. Svæðanefndinni er því ætlað að efla aðkomu sveitar- og héraðsstjórna að ákvarðanatökuferli sambandsins og veita þeim tækifæri til að móta löggjöf ESB á þeim sviðum sem snerta hagsmuni svæðiseininga.

Með Lissabon-sáttmálanum var hlutverk svæðanefndarinnar eflt og ber Evrópuþinginu, framkvæmdastjórninni og ráðinu nú að hafa samráð við nefndina við setningu laga í málaflokkum sem varða:
  • Efnahagslega og félagslega samheldni.
  • Samevrópsk netkerfi.
  • Umhverfismál.
  • Heilbrigðismál.
  • Menntun og menningarmál.
  • Atvinnumál.
  • Félagsmál.
  • Starfsþjálfun.
  • Samgöngumál.
  • Almannavarnir.
  • Loftslagsbreytingar.
  • Orkumál.

Í svæðanefndinni eiga sæti fulltrúar svæðis- og staðaryfirvalda sem hafa annaðhvort verið kosnir til starfa fyrir viðkomandi yfirvöld eða bera pólitíska ábyrgð gagnvart kjörnu þingi (3. mgr. 300. gr. sáttmálans um starfshætti ESB, SSE).

353 fulltrúar sitja í svæðanefndinni og skiptast milli aðildarríkjanna í grófu hlutfalli við íbúafjölda þeirra (sjá töflu).

Aðildarríki Fjöldi fulltrúa
Bretland, Frakkland, Ítalía og Þýskaland 24
Pólland og Spánn 21
Rúmenía 15
Austurríki, Belgía, Búlgaría, Grikkland, Holland, Portúgal, Svíþjóð, Tékkland og Ungverjaland 12
Danmörk, Finnland, Írland, Króatía, Litháen og Slóvakía 9
Eistland, Lettland og Slóvenía 7
Kýpur og Lúxemborg 6
Malta 5

Nefndarmenn eru skipaðir til fimm ára með heimild til endurnýjunar skipunartímans. Svæðanefndin kýs sér formann úr hópi nefndarmanna til tveggja og hálfs árs í senn og setur sér starfsreglur. Formaður svæðanefndarinnar kallar hana saman að beiðni Evrópuþingsins, ráðsins eða framkvæmdastjórnarinnar en hún getur einnig komið saman að eigin frumkvæði (306. gr. SSE). Svæðanefndin getur höfðað mál fyrir dómstól Evrópusambandsins ef ekki er haft samráð við hana í þeim málum sem kveðið er á um í sáttmálum sambandsins.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur21.9.2012

Tilvísun

Evrópuvefur. „Svæðanefndin“. Evrópuvefurinn 21.9.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63268. (Skoðað 3.12.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela