Fyrir hvað fær Evrópusambandið friðarverðlaun Nóbels?
Spyrjandi
Ritstjórn
Svar
Nóbelsnefnd norska Stórþingsins tilkynnti þann 12. október að Evrópusambandið mundi hljóta friðarverðlaun Nóbels árið 2012. Í fréttatilkynningu Nóbelsnefndarinnar um ákvörðunina segir svo, í þýðingu Þorsteins Vilhjálmssonar:Sambandið og fyrirrennarar þess hafa í meira en sex áratugi stuðlað að friði og sáttum, lýðræði og mannréttindum í Evrópu. Á árunum milli stríða voru verðlaunin veitt nokkrum mönnum sem leituðust við að sætta Þjóðverja og Frakka. Síðan 1945 hefur sú sátt orðið að veruleika. Hræðilegar þjáningar seinni heimsstyrjaldarinnar sýndu fram á þörfina fyrir nýja Evrópu. Á 70 ára tímabili höfðu Þýskaland og Frakkland háð þrjár styrjaldir. Nú er styrjöld milli þessara ríkja óhugsandi. Þetta sýnir hvernig óvinaríki fortíðarinnar geta orðið nánir félagar, með markvissum aðgerðum og með því að skapa gagnkvæmt traust. Á níunda áratugnum gengu Spánn og Portúgal í Evrópusambandið eftir að lýðræði hafði komist á í þessum ríkjum, sem var forsenda aðildar. Fall Berlínarmúrsins gerði nokkrum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu kleift að ganga í sambandið og með því hófst nýtt tímabil í sögu Evrópu. Skiptingunni milli austurs og vesturs var þar með að mestu lokið; lýðræðið hafði styrkst og margar deilur sem áttu rætur að rekja til þjóðernis hafa verið settar niður. Inntaka Króatíu sem aðildarríkis á næsta ári, opnun aðildarviðræðna við Svartfjallaland og viðurkenning á umsókn Serbíu hafa styrkt sáttaferlið á Balkanskaga. Á síðasta áratug hefur möguleikinn á aðild Tyrklands einnig eflt lýðræði og mannréttindi þar í landi. ESB glímir nú við mikla efnahagsörðugleika og ólgu í samfélaginu. Norska Nóbelsnefndin vill beina athyglinni að því sem henni virðist mikilvægasti árangur ESB, sem er hin farsæla barátta fyrir friði og sáttum, lýðræði og mannréttindum. Viðleitni sambandsins til að stuðla að stöðugleika hefur átt sinn þátt í því að breyta Evrópu úr álfu styrjalda í friðarálfu. Starf Evrópusambandsins er tákn um „bræðralag“ milli þjóða og jafngildir eins konar „friðarráðstefnum“ sem Alfred Nobel vísaði til sem viðmiðunar fyrir friðarverðlaunin í erfðaskrá sinni frá árinu 1895.
- Fréttatilkynning Nóbelsnefndarinnar frá 12. október 2012.
- The Norwegian Nobel Committee - Nobelpeaceprize.org. (Skoðað 12.10.2012).
- ESB fékk friðarverðlaun Nóbels - ruv.is. (Skoðað 12.10.2012).
- Nobel Peace Prize awarded to European Union - bbc.co.uk. (Skoðað 12.10.2012).
- 2012 Nobel Peace Prize Awarded to European Union - washingtonpost.com. (Skoðað 12.10.2012).
- Thorbjørn Jagland - flickr.com. (Sótt 12.10.2012).
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur12.10.2012
Efnisorð
friðarverðlaun Nóbels Evrópusambandið Nóbelsverðlaunanefndin norska Stórþingið Thorbjørn Jagland Evrópuráðið friður sátt lýðræði mannréttindi Þýskaland Frakkland friðarverðlaun Nóbels Spánn Portúgal Berlínarmúrinn Austur-Evrópa. Balkanska
Tilvísun
Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Fyrir hvað fær Evrópusambandið friðarverðlaun Nóbels?“. Evrópuvefurinn 12.10.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63438. (Skoðað 23.11.2024).
Höfundur
Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum
Prenta
Senda
Frekara lesefni á Evrópuvefnum:
- Hvaða hugmyndir hafa menn haft um Evrópuhugsjónina og Evrópusamruna frá síðari heimsstyrjöld og til okkar daga?
- Hvaða hugmyndir höfðu menn um Evrópuhugsjónina á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar og á millistríðsárunum?
- Hver er Evrópuhugsjónin og hvaða hugmyndir höfðu menn fyrr á öldum um hana?
- Af hverju var Evrópusambandið stofnað? – 1. Jarðvegurinn
- Af hverju var Evrópusambandið stofnað? – 2. Aðdragandinn
- Af hverju var Evrópusambandið stofnað? – 3. Fyrstu skrefin
- Hafa þrjú voldugustu ríki Evrópusambandsins farið með friði síðan um aldamótin 1900?