Spurning

Fyrir hvað fær Evrópusambandið friðarverðlaun Nóbels?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Nóbelsnefnd norska Stórþingsins tilkynnti þann 12. október að Evrópusambandið mundi hljóta friðarverðlaun Nóbels árið 2012. Í fréttatilkynningu Nóbelsnefndarinnar um ákvörðunina segir svo, í þýðingu Þorsteins Vilhjálmssonar:

Sambandið og fyrirrennarar þess hafa í meira en sex áratugi stuðlað að friði og sáttum, lýðræði og mannréttindum í Evrópu.

Á árunum milli stríða voru verðlaunin veitt nokkrum mönnum sem leituðust við að sætta Þjóðverja og Frakka. Síðan 1945 hefur sú sátt orðið að veruleika. Hræðilegar þjáningar seinni heimsstyrjaldarinnar sýndu fram á þörfina fyrir nýja Evrópu. Á 70 ára tímabili höfðu Þýskaland og Frakkland háð þrjár styrjaldir. Nú er styrjöld milli þessara ríkja óhugsandi. Þetta sýnir hvernig óvinaríki fortíðarinnar geta orðið nánir félagar, með markvissum aðgerðum og með því að skapa gagnkvæmt traust.

Á níunda áratugnum gengu Spánn og Portúgal í Evrópusambandið eftir að lýðræði hafði komist á í þessum ríkjum, sem var forsenda aðildar. Fall Berlínarmúrsins gerði nokkrum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu kleift að ganga í sambandið og með því hófst nýtt tímabil í sögu Evrópu. Skiptingunni milli austurs og vesturs var þar með að mestu lokið; lýðræðið hafði styrkst og margar deilur sem áttu rætur að rekja til þjóðernis hafa verið settar niður.

Inntaka Króatíu sem aðildarríkis á næsta ári, opnun aðildarviðræðna við Svartfjallaland og viðurkenning á umsókn Serbíu hafa styrkt sáttaferlið á Balkanskaga. Á síðasta áratug hefur möguleikinn á aðild Tyrklands einnig eflt lýðræði og mannréttindi þar í landi.

ESB glímir nú við mikla efnahagsörðugleika og ólgu í samfélaginu. Norska Nóbelsnefndin vill beina athyglinni að því sem henni virðist mikilvægasti árangur ESB, sem er hin farsæla barátta fyrir friði og sáttum, lýðræði og mannréttindum. Viðleitni sambandsins til að stuðla að stöðugleika hefur átt sinn þátt í því að breyta Evrópu úr álfu styrjalda í friðarálfu.

Starf Evrópusambandsins er tákn um „bræðralag“ milli þjóða og jafngildir eins konar „friðarráðstefnum“ sem Alfred Nobel vísaði til sem viðmiðunar fyrir friðarverðlaunin í erfðaskrá sinni frá árinu 1895.


Thorbjørn Jagland formaður Nóbelsverðlaunanefndar norska Stórþingsins.

Fyrstu friðarverðlaun Nóbels voru veitt árið 1901. Þau hlutu Svisslendingurinn Henri Dunant, stofnandi Rauða krossins, og Frakkinn Frédéric Passy, fyrir störf að friðarmálum en hann stofnaði eina fyrstu frönsku friðarhreyfinguna. Þrettán ár eru síðan samtök fengu friðarverðlaunin síðast en það var árið 1999 þegar samtökin Læknar án landamæra (fr. Médecins Sans Frontières) hlutu verðlaunin. Nánar er fjallað um Nóbelsverðlaunin í svörum við eftirfarandi spurningum á Vísindavefnum Hverjir hafa fengið friðarverðlaun Nóbels og þá fyrir hvað? og Hvaða ár voru Nóbelsverðlaunin fyrst afhent og hver fékk þau fyrst?

José Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnarinnar sagði aði verðlaunin væru mikill heiður fyrir Evrópu alla og þá 500 milljón einstaklinga sem þar búa. Thorbjørn Jagland, formaður Nóbelsverðlaunanefndarinnar, og jafnframt framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, sagði að einhugur hefði ríkti innan Nóbelsverðlaunanefndarinnar um valið en henni barst 231 tilnefning.

Ákvörðun nefndarinnar hefur einnig verið gagnrýnd en því hefur verið haldið fram að framlag ESB til friðarmála sé ofmetið og fremur megi þakka Atlantshafsbandalaginu fyrir þær framfarir, í þágu friðar, sem náðst hafa í Evrópu en ESB. Einnig telja sumir að ákvörðunin samræmist ekki erfðaskrá Alfred Nóbels þar sem ESB vinni ekki að því að draga úr hervæðingu í alþjóðasamskiptum og mörg aðildarríki sambandsins aðhyllist utanríkis og öryggisstefnu sem byggist á hervaldi fremur en friði. Þetta er þó ekki í fyrsta skiptið sem Friðarverðlaun Nóbels hafa orðið kveikjan að deilum en skemmst er að minnast þess þegar forseti Bandaríkjanna Barrack Obama hlaut þau árið 2009.

Verðlaunin voru afhent þann 10. desember 2012 og voru það José Manuel Barroso (forseti framkvæmdastjórnarinnar), Herman Van Rompuy (forseti leiðtogaráðsins) og Martin Schulz (forseti þingsins ) sem tóku við friðarverðlaununum fyrir hönd Evrópusambandsins.

Heimildir og myndir:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela