Spurning

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin (e. International Atomic Energy Agency, IAEA) er alþjóðastofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna og helsti samstarfsvettvangurinn um kjarnorkumál á alþjóðavísu. Markmið stofnunarinnar, sem var sett á fót árið 1957, er að stuðla að friðsamlegri notkun kjarnorku og koma í veg fyrir notkun hennar í hernaðarlegum tilgangi. Stofnunin hefur eftirlit með því að ríki þrói ekki kjarnavopn og að aðildarríkin fari eftir samningnum gegn útbreiðslu kjarnavopna (e. Nuclear Non-proliferation Treaty, NPT). Alþjóðakjarnorkumálastofnunin samanstendur af skrifstofu (e. Secretariat), almennu þingi (e. General Conference) og stjórn (e. Board of Governors).

Um það bil 2.300 einstaklingar starfa fyrir skrifstofu Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar. Meirihluti þeirra starfar í höfuðstöðvum stofnunarinnar í Vínarborg í Austurríki en auk þess starfar hluti þeirra hjá svæðisbundnum skrifstofum stofnunarinnar, sem staðsettar eru í Genf, Mónakó, New York, Seibersdorf í Austurríki, Toronto og Tókýó. Starfsemi skrifstofunnar er skipt í sex meginsvið:

  1. Rekstrarstjórnun.
  2. Kjarnorkuvísindi og -meðferð.
  3. Kjarnorku.
  4. Kjarnöryggi.
  5. Tæknisamstarf.
  6. Verndarráðstafanir og eftirlit.

Skrifstofan starfar í þágu framkvæmdastjóra stofnunarinnar og sex sviðsstjórar stýra verkefnum hennar. Núverandi framkvæmdastjóri Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar er Yukiya Amano frá Japan.

Almenna þingið samanstendur af fulltrúum allra aðildarríkja Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar sem eru 155 talsins. Þingið kemur saman einu sinni á ári og hefur það hlutverk að gera stefnumótunaráætlun, yfirfara fyrirspurnir sem því berast og samþykkja ný aðildarríki, framkvæmdastjóra og aðgerðar- og fjárhagsáætlanir stofnunarinnar.

Í stjórn Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar sitja fulltrúar frá 35 aðildarríkjum. 22 eru kjörnir af almenna þinginu, 11 til eins árs og aðrir 11 til tveggja ára í senn. Hinir 13 eru tilnefndir af fráfarandi stjórn til eins árs. Stjórnin fundar fimm sinnum á ári en á slíkum fundum skoðar hún og gerir tillögur til almenna þingsins um bókhald, aðgerðir og fjárhagsáætlun stofnunarinnar og íhugar aðildarumsóknir nýrra ríkja að stofnuninni. Hún samþykkir einnig samninga um öryggisráðstafanir, útgáfu öryggisstaðla og skipar framkvæmdastjóra Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar með samþykki almenna þingsins.

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin gefur út árlegar skýrslur sem eru lagðar fyrir allsherjarþing og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Stofnunin hefur ekki umboð til að grípa til refsiaðgerða þótt hún komist að því að ríki séu að þróa kjarnavopn eða fari ekki eftir samningnum gegn útbreiðslu kjarnavopna. Hún er fyrst og fremst eftirlitsstofnun sem starfar í þágu öryggisráðsins, en það getur hins vegar beitt ríki refsiaðgerðum ef það telur það nauðsynlegt.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur19.10.2012

Tilvísun

Evrópuvefur. „Alþjóðakjarnorkumálastofnunin“. Evrópuvefurinn 19.10.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63481. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela