Spurning

Eru íslensk fyrirtæki samkeppnishæf innan ESB?

Spyrjandi

Garibaldi Sveinsson

Svar

Ef marka má mælikvarða Alþjóðaefnahagsráðsins og IMD viðskiptaháskólans í Sviss þá er Ísland yfir meðallagi í samkeppnishæfni á alþjóðlegum mörkuðum í samanburði við aðildarríki ESB. Í mælingu Alþjóðaefnahagsráðsins árið 2012 er Ísland í 12. sæti ef staða Íslands er skoðuð í samanburði við 27 aðildarríki ESB. Í mælingu IMD viðskiptaháskólans í Sviss eru alls 10 ESB-ríki metin samkeppnishæfari á listanum og er Ísland því í 11. sæti í samanburði við öll ESB ríkin.

***

Þegar talað er um samkeppnishæfni fyrirtækja er vísað til getu þeirra til að keppa við önnur fyrirtæki á tilteknum markaði. Á tímum sífellt aukinnar alþjóðavæðingar er oftast horft til samkeppnisgetu fyrirtækja á alþjóðamörkuðum. Samkeppnishæfni fyrirtækja er iðulega metin út frá því starfsumhverfi sem þau þrífast í og hversu vel það umhverfi gerir fyrirtækjunum kleift að keppa á alþjóðamarkaði.


Stjórn Rannsóknarmiðstöðvar í stefnu og samkeppnishæfni. Ingjaldur Hannibalsson, Svava Bjarnadóttir, Runólfur Smári Steinþórsson, Hákon Gunnarsson og Gylfi Magnússon.

Til eru nokkrir alþjóðlegir mælikvarðar á samkeppnishæfni en þeir þekktustu eru á vegum Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum) og IMD viðskiptaháskólans í Sviss (e. IMD‘s World Competitiveness Yearbook). Vert er að taka fram að þessir mælikvarðar eru um margt takmarkaðir en auk þess ólíkir. Þeir leggja í sumum tilvikum ólíkar áherslur á samkeppnisþætti eins og sést bersýnilega í tilviki Finnlands sem skipar 3. sætið í mælingum Alþjóðaefnahagsráðsins 2012 en 17. sætið í mælingu IMD viðskiptaháskólans. Þá skoða mælikvarðarnir ekki sama ríkjafjölda en Alþjóðaefnahagsráðið skoðar 144 ríki á meðan IMD viðskiptaháskólinn skoðar einungis vestræn eða önnur þróuð hagkerfi, samtals 59 ríki.

Þegar samkeppnishæfni fyrirtækja tiltekins ríkis er metin er litið til margvíslegra þátta sem segja til um framleiðni þjóðar og vaxtarmöguleika hennar. Þar má meðal annars nefna:

  • Grunngerðir og stofnanir
  • Innviði, tæknistig og fjarskipti
  • Efnahagslegan stöðugleika
  • Skilvirkni markaða, markaðsstærð, vinnuafl, virkni fjármálamarkaðar og viðskipti
  • Menntun og vísindi
  • Nýsköpun og þróun
  • Lífsgæði, heilbrigði og jöfnuð

Í mælingu Alþjóðaefnahagsráðsins árið 2012 vermir Ísland 30. sætið, af 144 ríkjum, annað árið í röð. Þá eru alls 11 ESB-ríki ofar á listanum en Ísland. Samkvæmt þessari mælingu er Ísland því í 12. sæti ef staða Íslands er skoðuð í samanburði við 27 aðildarríki ESB.

Í skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins kemur fram að þrátt fyrir erfiðleika á ýmsum sviðum undanfarin ár hafi Ísland hagnast af nokkrum mikilvægum samkeppnisþáttum svo sem góðri stöðu í heilbrigðis- og menntamálum. Hið sama gildi um íslenskt viðskiptalíf, sem drifið sé áfram af nýsköpun og áherslu á nýja tækni, sem og sveigjanleika vinnumarkaðarins. Er það mat ráðsins að þessir jákvæðu samkeppnisþættir eigi til lengri tíma litið að geta hjálpað Íslandi að færast nær aukinni sjálfbærni og velgengni í efnahagslífinu. Veikara efnahagsumhverfi og fjármálamarkaður frá hruni heldur hins vegar áfram að draga úr samkeppnishæfni Íslands og veldur því að Ísland stendur í stað á milli ára.

Þau ESB-ríki sem listuð eru ofar en Ísland í mælingu Alþjóðaefnahagsráðsins Þau ESB-ríki sem listuð eru ofar en Ísland í mælingu IMD viðskiptaháskólans í sviss
Finnland (3) Svíþjóð (5)
Svíþjóð (4) Þýskaland (9)
Holland (5) Holland (11)
Þýskaland (6) Lúxemborg (12)
Bretland (8) Danmörk (13)
Danmörk (12) Finnland (17)
Austurríki (16) Bretland (18)
Belgía (17) Írland (20)
Frakkland (21) Austurríki (20)
Lúxemborg (22) Belgía (25)
Írland (27) -----

Mæling IMD viðskiptaháskólans í Sviss skipar Íslandi í 26. sæti af þeim 59 ríkjum sem könnunin tekur til. Ísland bætir stöðu sína frá árinu 2011 en þá var það í 31. sæti sem var lægsta sæti Íslands frá upphafi mælinga IMD viðskiptaháskólans. Alls eru 10 ESB-ríki metin samkeppnishæfari á listanum og er Ísland því í 11. sæti í samanburði við öll ESB-ríkin.

Þeir þættir sem helst draga Ísland niður í mælingu IMD viðskiptaháskólans eru innlendur efnahagur, alþjóðaviðskipti, atvinnustig, fjármál hins opinbera, umgjörð stofnana, viðskiptalöggjöf, vinnumarkaður og fjármögnun. Þá þarf að efla nýsköpun, þróun og rannsóknir. Þeir þættir sem skýra bætta stöðu Íslands á milli ára eru alþjóðlegar fjárfestingar, verðlag, fjármálastefna stjórnvalda sem og framleiðni og skilvirkni. Þá eru það samfélagslegir innviðir sem eru, líkt og árið áður, haldreipi Íslands í könnuninni og halda Íslandi meðal 30 samkeppnishæfustu þjóðanna.

Athyglisvert er að í niðurstöðum beggja ofangreindra kannana er Ísland eftirbátur hinna Norðurlandanna. Íslensk stjórnvöld hafa ekki litið framhjá niðurstöðunum undanfarin ár en í sóknaráætluninni Ísland 2020 er eitt af meginmarkmiðunum að Ísland skipi sér í hóp 10 samkeppnishæfustu þjóða heims árið 2020. Skipaður hefur verið sérstakur verkefnahópur til að hafa umsjón með greiningu á samkeppnishæfni og tillögugerð um hvaða aðgerða þurfi að grípa til svo hægt sé að bæta samkeppnishæfni landsins til lengri tíma litið.

Heimildir og myndir:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela