Spurning
Félagsmálasjóður Evrópu
Spyrjandi
Evrópuvefur
Svar
Félagsmálasjóði Evrópu (e. European Social Fund, ESF) var komið á fót árið 1958 en kveðið var á um stofnun hans þegar í stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu. Sjóðurinn er einn af uppbyggingarsjóðunum, ásamt Byggðaþróunarsjóði og Samheldnisjóði, sem hafa það hlutverk að framkvæma byggðastefnu Evrópusambandsins. Í sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins segir:Í því skyni að fjölga atvinnutækifærum launafólks á innri markaðnum og stuðla með þeim hætti að bættum lífskjörum er hér með komið á fót, í samræmi við eftirfarandi ákvæði, Félagsmálasjóði Evrópu; hann skal hafa það hlutverk að greiða launafólki aðgang að störfum og auka hreyfanleika þess á milli staða og starfa innan sambandsins og auðvelda aðlögun þess að breytingum á iðnháttum og framleiðslukerfum, einkum með starfsmenntun og endurmenntun (162. gr.).Öll aðildarríki Evrópusambandsins fá stuðning úr Félagsmálasjóði. Stuðningurinn miðast við svæði innan aðildarríkjanna og er mismikill eftir hlutfallslegum auði þeirra. Á fjárhagstímabilinu 2007-2013 hefur Félagsmálasjóðurinn yfir að ráða um það bil 76 milljörðum evra (á verðlagi ársins 2008) eða rúmum 20% af heildarfjárframlögum til byggðastefnunnar á tímabilinu. Rúmum 80% af heildarupphæðinni er varið til fátækustu svæða sambandsins, sem falla undir markmiðið um samleitni, en það eru þau svæði þar sem verg landsframleiðsla á mann er undir 75% af ESB-meðaltali. Hin 20% fara til þeirra ríkja sem falla undir markmiðið um samkeppnishæfni svæða og atvinnu. Á myndinni hér að neðan má sjá hve mikið hvert aðildarríki fær úthlutað úr Félagsmálasjóði.
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur23.11.2012
Flokkun:
Tilvísun
Evrópuvefur. „Félagsmálasjóður Evrópu“. Evrópuvefurinn 23.11.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63789. (Skoðað 18.12.2024).
Höfundur
Prenta
Senda
Við þetta svar er engin athugasemd
Fela