Spurning

Samheldnisjóður

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Samheldnisjóðurinn (e. Cohesion Fund) var stofnaður árið 1994 í þeim tilgangi að hjálpa efnahagslega vanþróuðum aðildarríkjum, upphaflega Spáni, Grikklandi, Portúgal og Írlandi, að uppfylla Maastricht-skilyrðin og fá aðild að myntbandalaginu. Sjóðurinn er einn af uppbyggingarsjóðunum, ásamt Félagsmálasjóði Evrópu og Byggðaþróunarsjóði, sem hafa það hlutverk að framkvæma byggðastefnu Evrópusambandsins.

Stuðning úr Samheldnisjóðnum fá þau aðildarríki þar sem þjóðartekjur á mann eru undir 90% af meðaltalsþjóðartekjum ESB-ríkjanna. Á fjárhagstímabilinu 2007 til 2013 eru það nýju aðildarríkin tólf, sem gengu í sambandið árin 2004 og 2007, auk Grikklands og Portúgals sem eru styrkhæf. Stuðning með undanþágu fá aðildarríki þar sem þjóðartekjur á mann eru undir 90% af meðaltalsþjóðartekjum Evrópusambandsríkjanna 15, sem áttu aðild að sambandinu fyrir stækkunina 2004, en lentu fyrir ofan meðaltalið eftir stækkunina, það er hafa þjóðartekjur á mann sem eru yfir 90% af meðaltalsþjóðartekjum Evrópusambandsríkjanna allra í heild. Spánn er eina ríkið sem fær úthlutað úr Samheldnisjóðnum af þessum sökum, það er sem ríki í aðlögun (e. phasing-out).

Á fjárhagstímabilinu 2007-2013 hefur Samheldnisjóðurinn yfir að ráða um það bil 70 milljörðum evra (á verðlagi ársins 2008) eða um það bil 20% af heildfjárframlögum til byggðastefnunnar á tímabilinu. Þriðjungi af heildarfjárlögum Evrópusambandsins á sama tímabili er varið til byggðastefnunnar. Í töflunni hér að neðan má sjá hvaða lönd fá úthlutað úr Samheldnisjóðnum og hve miklu.


Yfirlit um hve mikið hvert ríki fær úthlutað úr Samheldnisjóðnum á tímabilinu 2007 til 2013, í milljónum evra á verðlagi ársins 2008.

Ein meginregla byggðastefnunnar er sú að peningar úr uppbyggingarsjóðum ESB eigi ekki að koma í staðinn fyrir útgjöld af hálfu aðildarríkjanna til ákveðinna verkefna heldur eiga þeir að vera viðbót við þau. Önnur meginregla, sem leiðir af þeirri fyrri, er að framkvæmdaáætlanir byggðastefnunnar skuli fjármagnaðar sameiginlega af aðildarríkjunum og Evrópusambandinu. Framlög úr Samheldnisjóðnum geta numið allt að 85% af heildarkostnaði framkvæmdaáætlunar, en úr engum öðrum uppbyggingarsjóði er hlutur Evrópusambandsins svo stór.

Núverandi markmið Samheldnisjóðsins er að styrkja efnahagslega og félagslega samheldni með það fyrir augum að efla sjálfbæra þróun. Sjóðurinn styrkir verkefni á sviði samgangna, umhverfis og samevrópskra neta (e. Trans-European Networks, TEN), orkunýtni og endurnýjanlegrar orku. Rúmar 167 milljónir Evrópubúa, um það bil 34% heildaríbúafjölda sambandsins, búa á svæðum sem njóta stuðnings úr sjóðnum.

Sem dæmi um verkefni sem styrkt hafa verið úr Samheldnisjóði á fjárhagstímabilinu 2007 til 2013 má nefna:

Stuðningur úr sjóðnum er háður því skilyrði að ef ráðið hefur úrskurðað að halli á opinberum fjárlögum sé óhóflegur í tilteknu aðildarríki sem nýtur stuðnings (samanber 126. grein sáttmálans um starfshætti ESB) þá sé heimilt að draga til baka skuldbindingar sjóðsins við viðkomandi aðildarríki að hluta eða í heild (4. grein reglugerðar nr. 1084/2006/EC).

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur15.11.2012

Tilvísun

Evrópuvefur. „Samheldnisjóður“. Evrópuvefurinn 15.11.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63708. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela