Spurning

Hvert er atvinnuhlutfall heyrnarlausra innan ESB í samanburði við Ísland?

Spyrjandi

Júlía Hreinsdóttir

Svar

Evrópuvefurinn leitaði svara um atvinnuþátttöku heyrnarlausra á Íslandi hjá Félagi heyrnarlausra og fékk þær upplýsingar að það væri um 75-80% í dag.

Haldbærar upplýsingar um atvinnuhlutfall heyrnarlausra í Evrópusambandinu er hins vegar hvergi að finna. Ástæðan er sú að flest aðildarríki sambandsins blanda saman ólíkum hópum einstaklinga með einhvers konar fötlun í einn hóp við úrvinnslu tölfræðigagna. Því er einungis hægt að finna tölur um atvinnuhlutfall fatlaðra innan ESB.

Mörg aðildarríki ESB hafa þar að auki ekki uppfært upplýsingarnar um stöðu fatlaðra á vinnumarkaði eða hafa undir höndum óáreiðanlegar upplýsingar. Einu áreiðanlegu upplýsingarnar um atvinnuþátttöku fatlaðra í Evrópusambandinu eru frá árinu 2002. Þær voru birtar af Hagstofu Evrópusambandsins árið 2003. Skýrsla um stöðu fatlaðra á vinnumarkaði í ESB fyrir árið 2011 er enn í bígerð og hafa niðurstöðurnar því ekki verið kynntar þegar þetta er skrifað í desember 2013.


Heyrnarlaus eða heyrnarskertur einstaklingur að störfum þar sem hann á í samskiptum við einstakling með fulla heyrn í gegnum táknmálsþjónustu.

Atvinnuhlutfall fatlaðra á vinnumarkaði í Evrópusambandinu var 49,6% árið 2002. Hæst var atvinnuhlutfallið í Svíþjóð, eða 74,2%, en lægst í Ungverjalandi, eða 11,5%. Gera má ráð fyrir því að þessar tölur hafi breyst á síðastliðnum tíu árum og velta má vöngum yfir því hvort efnahagskreppan í Evrópusambandinu hafi haft neikvæð áhrif á þátttöku fatlaðra einstaklinga á almennum vinnumarkaði. Þó verður ekki ályktað um það hér vegna skorts á tölfræðigögnum frá aðildarríkjum sambandsins.

Heimildir og mynd:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela