Spurning

Nú hefur ESB reiknað út skattbyrði landa sinna fyrir árið 2011, hvert er hlutfall Íslands til samanburðar?

Spyrjandi

G. Pétur Matthíasson

Svar

Í vikunni voru sagðar fréttir af því í íslenskum fjölmiðlum að Danir væru skattakóngar Evrópusambandslandanna. Tilefnið var nýútkomin samantekt Eurostat um skatttekjur Evrópusambandsríkjanna á árinu 2011. Samkvæmt niðurstöðum Eurostat námu skatttekjur danska ríkisins 48,6% af vergri landsframleiðslu árið 2011 eða 8,6% meira en meðaltalshlutfall aðildarríkja ESB. Skatttekjur íslenska ríkisins á sama tíma voru hins vegar undir meðaltali ESB-ríkjanna og námu 35,9%. Spurningunni um hlutfall Íslands er auðsvarað þar eð samanburður Eurostat náði einnig til EFTA-ríkjanna Íslands, Noregs og Sviss.

***

Á dögunum gaf Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins, út samantekt um skatttekjur aðildarríkja Evrópusambandsins sem og Íslands, Noregs og Sviss á árinu 2011. Í samantektinni eru heildarskatttekjur ríkjanna þrjátíu bornar saman sem hlutfall af vergri landsframleiðslu þeirra. Með heildarskatttekjum er í úttektinni átt við skatta á framleiðslu og innflutning (svo sem virðisaukaskatt, vörugjöld og innflutningsgjöld), tekju-, eigna- og fjármagnsskatt sem og framlög launþega og atvinnurekenda til almannatrygginga.

Að meðaltali námu skatttekjur aðildarríkja Evrópusambandsins (EU 27) 40% af vergri landsframleiðslu árið 2011 en meðaltalshlutfall evruríkjanna (EA 17) var lítið eitt hærra eða 40,8%. Á myndinni hér að neðan má sjá ólík hlutföll ríkjanna 30, en 22,2% munur var á hæsta og lægsta hlutfalli skatttekna af vergri landsframleiðslu.


Myndin sýnir hlutfall skatttekna af vergri landsframleiðslu í 30 Evrópuríkjum árið 2011. Smellið á myndina til að stækka hana.

Hlutfall skatttekna af vergri landsframleiðslu var eins og áður sagði hæst í Danmörku en næst á eftir komu Belgía og Frakkland (48,6%, 46,7% og 45,9%). Lægstu hlutföllin voru skráð í Litháen (26,4% af VLF), Búlgaríu (27,2% af VLF) og Lettlandi (27,7% af VLF).

Skatttekjur íslenska ríkisins námu 35,9% af landsframleiðslu árið 2011 sem er réttum 4% undir meðaltalshlutfalli ESB-ríkjanna. Ísland lenti þar með í 16. sæti á listanum yfir ríkin 30. Það þýðir að í 15 ríkjum voru skatttekjur stærra hlutfall af vergri landsframleiðslu en á Íslandi, þar á meðal á öllum hinum Norðurlöndunum, en í 14 ríkjum, einkum ríkjum Austur-Evrópu en einnig í Sviss og Írlandi, var hlutfallið lægra en á Íslandi. Það má því segja að sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafi skatttekjur íslenska ríkisins árið 2011 verið nokkuð í meðallagi miðað við önnur lönd í Evrópu.

Mynd:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela