Spurning

Hver er samningsafstaða Íslands í kaflanum um fjármálaþjónustu?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Samningskaflinn um fjármálaþjónustu heyrir að öllu leyti undir EES-samninginn og Ísland innleiðir því lög og reglugerðir kaflans með reglubundnum hætti. Í samningsafstöðu sinni samþykkir Ísland regluverk kaflans og segist búa yfir fullnægjandi stofnanakerfi til framkvæmdar hans en fer fram á eina aðlögun. Nánar tiltekið fer Ísland fram á að Viðlagatrygging Íslands, sem veitir tryggingu vegna tjóns af völdum náttúruhamfara, verði undanþegin tilskipuninni um Gjaldþolsáætlun II.

***

Kafli níu um fjármálaþjónustu í aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins var opnaður á ríkjaráðstefnu þann 24. október 2012. Réttarreglur Evrópusambandsins á sviði fjármálaþjónustu fela í sér samræmdar reglur um veitingu starfsleyfa, rekstur og eftirlit með fjármálastofnunum á sviði bankaþjónustu, trygginga, viðbótarlífeyrissparnaðar, fjárfestingarþjónustu og verðbréfamarkaða. Tilgangurinn með regluverki níunda kafla er meðal annars að fjarlægja hindranir sem standa í vegi fyrir frjálsri fjármálaþjónustu milli aðildarríkja sambandsins. Fjármálastofnanir mega starfa hvar sem er á innri markaðnum samkvæmt meginreglunni um eftirlit upprunalands. Sú regla felur í sér að það eru eftirlitsstofnanir þess ríkis sem viðkomandi fjármálastofnanir hafa aðalstöðvar í sem eiga að hafa eftirlit með því að þær standist allar lagalegar skyldur og að starfsemi þeirra sé með eðlilegum hætti.


Auglýsing á vegum þýska tryggingafyrirtækisins Versicherungskammer Bayern. "Við varðveitum peningana þína - eins og þeir væru okkar eigin" má lesa á myndinni. Fyrirtækið býður viðskiptavinum sínum meðal annars upp á viðbótarlífeyrissparnað sem Íslendingum jafnt sem öðrum stendur til boða.

Efni níunda kaflans fellur að öllu leyti undir EES-samninginn en fjármálaþjónusta er liður í hinu fjórþætta frelsi sem innri markaður Evrópska efnahagssvæðisins gengur út á. Sem aðili að EES-samningnum hefur Ísland því þegar tekið upp löggjöf Evrópusambandsins sem kaflinn um fjármálaþjónustu tekur til. Ísland innleiðir jafnóðum reglur Evrópusambandsins á sviði banka og fjármálasamsteypa, á sviði líftrygginga, skaðatrygginga og starfstengdra lífeyrissjóða, regluverkið um grunngerð fjármálamarkaðarins, verðbréfamarkaði og fjárfestingarþjónustu.

Í opinberri samningsafstöðu Íslands í níunda kafla er farið yfir löggjafar- og stofnanarammann á Íslandi og hvernig hann er byggður til samræmis við og til innleiðingar á regluverki ESB varðandi fjármálaþjónustu. Tekið er fram að á Íslandi sé fullnægjandi stofnanakerfi fyrir hendi og fjallað er sérstaklega um starfsemi þeirra stofnana sem bera ábyrgð á fjármálamörkuðum hér á landi, það er Efnahags- og viðskiptaráðuneytið, Fjármálaeftirlitið (FME) og Seðlabanka Íslands. Einnig er greint frá þeim umbótum sem hafa verið gerðar eða standa yfir á íslenskri löggjöf, stjórnsýslu og eftirliti með fjármálaþjónustu síðan efnahagshrunið átti sér stað síðla árs 2008. Ísland sýnir þar með fram á að það búi yfir þeirri stjórnsýslugetu og þeim löggjafar- og stofnanaramma sem gerir því kleift að viðhalda reglum sambandsins.

Samningsafstaða Íslands í kaflanum um fjármálaþjónustu er sú að Ísland samþykkir lög og reglugerðir kaflans en óskar jafnframt eftir einni aðlögun. Nánar tiltekið að aðlögunartexta verði bætt við 8. grein tilskipunarinnar um stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði vátrygginga og endurtrygginga (Gjaldþolsáætlun II, nr. 2009/138/EB) þar sem Viðlagatrygging Íslands, lögbundin náttúruhamfaratrygging sem bætir beint tjón á tryggðum eignum af völdum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða, yrði veitt undanþága frá tilskipuninni. Helstu rökin sem samninganefnd Íslands hefur fært fyrir aðlöguninni eru þau að gildissvið tilskipunarinnar mundi vera óþarflega íþyngjandi fyrir Viðlagatryggingu Íslands, einkum í ljósi þess að áhættuþættir sem mældir eru í tilskipuninni eru ekki taldir eiga við um starfsemi stofnunarinnar, og að hlutverki hennar svipi til hlutverks þeirra stofnana sem þegar eru undanskildar tilskipuninni. Evrópusambandið féllst þegar á aðlögunina þegar kaflinn var opnaður á ríkjaráðstefnunni en honum hefur ekki verið lokað.

Heimildir og mynd:
Við þetta svar eru 3 athugasemdir Fela athugasemdir

Guðmundur Ásgeirsson 3.2.2013

Ekkert um verðtrygginguna?

Brynhildur Ingimarsdóttir 5.2.2013

Sæll Guðmundur og takk fyrir innleggið.

Ekki er fjallað um verðtrygginguna í 9. kafla en tekið skal fram að Ísland þarf ekki að semja um verðtrygginguna við ESB þar sem breytinga á henni eða afnámi hennar er ekki krafist við inngöngu í sambandið.

Í rýniskýrslu samningahóps um efnahags- og peningamál (17. kafli) er þó bent á að „það þyrfti að skoða hvort heppilegt er að gera vissar breytingar á regluverki um fjármálakerfi áður en að aðild að ESB og evrusvæði kemur, jafnvel þótt þeirra sé ekki krafist og þær þurfi ekki að semja um. Þar má t.d. nefna hvort breytingar þurfi að gera á uppgreiðsluákvæðum lánasamninga (t.d. Íbúðalánasjóðs) ásamt meðhöndlun verðtryggingar og vaxta á krónulánum“ (sbr. liðurinn "önnur atriði", bls. 26). Málefni verðtryggingarinnar heyra því frekar undir kafla 17 um efnahags- og peningamál.

Guðmundur Ásgeirsson 13.2.2013

Hérna er það sem stendur undir þessum lið í rýniskýrslunni, nákvæmlega ein málsgrein:

Það þyrfti að skoða hvort heppilegt er að gera vissar breytingar á regluverki um fjármálakerfi áður en að aðild að ESB og evrusvæði kemur, jafnvel þótt þeirra sé ekki krafist og þær þurfi ekki að semja um. Þar má t.d. nefna hvort breytingar þurfi að gera á uppgreiðsluákvæðum lánasamninga (t.d. Íbúðalánasjóðs) ásamt meðhöndlun verðtryggingar og vaxta á krónulánum.

Er þetta allt saman, eða hvað?