Svar
Staða fatlaðs fólks breytist ekki sjálfkrafa við aðild að Evrópusambandinu en aðild skapar hins vegar tækifæri til framþróunar í málefnum fatlaðra. Til að aðild að ESB skili jákvæðum áhrifum þurfa stjórnvöld á öllum stigum, stjórnsýsla, fagfólk og ekki síst hagsmunasamtök fatlaðs fólks að nýta sér þau tækifæri og möguleika sem faglegt starf, framsækin stefna og lagasetningar ESB veita. Sambandið hefur sett sér háleit markmið og leggur mikla vinnu í rannsóknir og upplýsingaöflun til að leggja grunn að framþróun í málaflokknum og hafa eftirlit með framkvæmd í aðildarlöndum sínum. Málefni fatlaðs fólks eru jafnframt í vaxandi mæli samþætt öðrum málefnasviðum í þeim tilgangi að tryggja fötluðu fólki jafnrétti á við aðra borgara ESB.
***
Stefna Evrópusambandsins í málefnum fatlaðs fólks 2010–2020 (
European Disability Strategy 2010-2020: A renewed commitment to a barrier free Europe) er framsækin og þar eru sett fram háleit markmið. Hún endurspeglar að í sambandinu er áhugi og vilji til að stuðla að framþróun í málefnum fatlaðs fólks. Evrópusambandið hefur jafnframt samþykkt aðgerðaáætlun til að hrinda stefnunni í framkvæmd. Skipulega er unnið að rannsóknum og upplýsingaöflun til að undirbúa stefnumótun og lagasetningar og hafa eftirlit með framkvæmdinni í aðildarríkjunum.
Ljóst er að í Evrópusambandinu eru viðhöfð skipulegri vinnubrögð á þessu sviði en tíðkast hafa hér á landi, þar sem engin formlega samþykkt stefna er fyrir hendi í málaflokknum. Með aðild að ESB yrði því væntanlega gerð krafa um skipulegri og faglegri vinnubrögð við stefnumótun í málaflokknum hérlendis. Frá sambandinu gæti einnig komið ýmiss stuðningur sem hugsanlega yrði málaflokknum lyftistöng.
Meðmælaganga árið 2005. Fatlað fólk með kröfuspjöld. |
Áhersla á mannréttindi einkennir núverandi stefnumótun, starf og aðkomu stofnana Evrópusambandsins að málefnum fatlaðs fólks. Á Íslandi er einnig vaxandi áhersla á að skilgreina málefni fatlaðs fólks út frá mannréttindum en í Evrópusambandinu er hins vegar mun lengri og ríkari hefð fyrir slíkum áherslum. Aðild að ESB mundi væntanlega styrkja þetta sjónarhorn hér á landi.
Sem dæmi má nefna að Evrópusambandið var á meðal þeirra sem hvöttu til og tóku virkan þátt í að undirbúa
mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Sáttmálinn var samþykktur af Allsherjarþingi SÞ í desember 2006 og var opnaður til undirritunar 30. mars 2007. Þann dag undirritaði Evrópusambandið og öll aðildarríki þess sáttmálann. Sambandið staðfesti síðan sáttmálann í nóvember 2009 en með staðfestingunni er sáttmálinn óaðskiljanlegur hluti af lögum ESB og landslögum þeirra landa sem hafa staðfest hann.
Sáttmálinn um réttindi fatlaðs fólks er fyrsti og eini mannréttindasáttmálinn sem ESB hefur staðfest. ESB var jafnframt fyrsta alþjóðastofnunin til að staðfesta sáttmálann. Rökrétt er að álykta að þetta endurspegli áhuga og vilja innan Evrópusambandsins til að tryggja og verja mannréttindi fatlaðs fólks. Sú staðreynd að Evrópusambandið skuli hafa staðfest sáttmálann gefur honum aukið vægi í aðildarríkjunum og hefur jafnframt í för með sér að hann er bindandi fyrir lagasetningar ESB. Þegar þetta er ritað í apríl 2013 er Ísland eitt fárra Evrópulanda sem hefur enn ekki lögfest mannréttindasáttmálann, en stjórnvöld hafa lýst því yfir að unnið sé að staðfestingu hans. Aðild að ESB mundi að öllum líkindum styðja við innleiðingu, framkvæmd og eftirlit með mannréttindasáttmálanum um réttindi fatlaðs fólks hér á landi.
Þá má nefna að með aðild gæti Ísland sótt um styrki í ýmsa sjóði Evrópusambandsins til að efla framþróun í málefnum fatlaðs fólks og þjónustu við það. Slíkir styrkir gætu ýtt undir þróunarstarf og uppbyggingu í málefnum fatlaðs fólks hér á landi.
Afar mikilvægt er að taka fram að aðild að Evrópusambandinu skapar tækifæri til jákvæðra breytinga á stöðu fatlaðs fólks en tryggir ekki slíkar breytingar. Til að aðild skili jákvæðum áhrifum þurfa stjórnvöld á öllum stigum, stjórnsýsla, fagfólk og ekki síst hagsmunasamtök fatlaðs fólks að nýta sér þau tækifæri og möguleika sem faglegt starf, framsækin stefna og lagasetningar ESB veita. Í framkvæmd vegur það þyngst hvort stjórnvöld og hagsmunasamtök á Íslandi nota sér þau tækifæri til jákvæðra breytinga sem aðild að ESB býður.
Nánari upplýsingar má finna í skýrslu sem Rannsóknasetur í fötlunarfræðum vann fyrir Öryrkjabandalag Íslands á haustmánuðum 2012 sem svar við spurningunni
Er hagsmunum fatlaðs fólks á Íslandi betur borgið með eða án aðildar að Evrópusambandinu?
Mynd: