Spurning

Hvernig beitir ESB sér gegn stríðsátökunum í Sýrlandi?

Spyrjandi

Sunneva Björg

Svar

Evrópusambandið hefur opinberlega fordæmt stríðsátökin í Sýrlandi og beitt sér fyrir að friður komist á þar í landi. Um leið hefur sambandið stutt uppreisnarmenn í Sýrlandi og beitt ýmsum þvingunaraðgerðum gegn sýrlenskum stjórnvöldum. Þar má helst nefna vopnasölubann sem hefur mikið verið til umræðu innan sambandsins að undanförnu, auk ýmissa viðskiptahindrana.

***

Samskipti Sýrlands og Evrópusambandsins grundvallast á samstarfssamningi frá árinu 1977. Sýrland gerðist meðlimur í samvinnu Evrópu og Miðjarðarhafslanda árið 1995 en ákvað árið 2011 að slíta samvinnunni tímabundið. Landið er einnig þátttakandi í evrópsku nágrannastefnunni en ekki fullgildur meðlimur, enda hefur samkomulag um aðgerðaáætlun ekki náðst milli Sýrlands og ESB.

Evrópusambandið hefur lýst því yfir að það fordæmi glæpi og mannréttindabrot sem hafa verið framin í Sýrlandi á undanförnum misserum. Sambandið hefur gripið til þvingunaraðgerða sem beinast gegn stjórnvöldum í Sýrlandi með það að markmiði að stöðva átökin. Aðgerðirnar lúta meðal annars að frystingu fjármuna, vopnasölubanni og viðskiptabanni með búnað sem nota má til bælingar innanlands. Ísland hefur einnig innleitt þessar þvingunaraðgerðir.


Bashar Hafez al-Assad, forseti Sýrlands

Vopnasölubannið var í gildi frá maí 2011 til loka maímánaðar 2013. Utanríkiráðherrar Evrópusambandsins funduðu þá um framlengingu bannsins og komust að þeirri niðurstöðu að það yrði ekki framlengt nema hvað varðar vopn sem nota mætti til bælingar innanlands. Þannig opnaði sambandið fyrir vopnasölu aðildarríkja til uppreisnarmanna í Sýrlandi. Sum aðildarríkin fögnuðu afléttingu vopnasölubannsins, svo sem Bretland og Frakkland, en önnur voru henni mótfallin. Fjórtán aðildarríki sambandsins greiddu atkvæði gegn afléttingunni á fundinum í maí, enda telja þau að hún muni leiða til frekara ofbeldis í Sýrlandi. Þá hafa Kanada og Rússland einnig gagnrýnt Evrópusambandið vegna ákvörðunarinnar. Bandaríkin, sem hafa stutt uppreisnarmenn í Sýrlandi, styðja hins vegar ákvörðun Evrópusambandsins. Þegar þetta er skrifað í ágúst 2013 hefur ekkert aðildarríki sent vopn til uppreisnarmanna í Sýrlandi eða opinberað áform þess efnis, þrátt fyrir þrýsting frá uppreisnarmönnum að svo verði gert. Margir óttast að ef vopn verða seld til Sýrlands geti þau ratað í hendur hryðjuverkamanna.

Meðal annarra þvingunaraðgerða má nefna að Evrópusambandið hefur slitið öllu fjárhagslegu samstarfi við Sýrland. Lokað hefur verið á innflutning á jarð- og hráolíu frá Sýrlandi og settar upp ýmsar aðrar viðskiptahömlur í tengslum við olíuiðnaðinn. Sýrlenskar fjármálastofnanir mega ekki koma á fót útibúi eða dótturfélagi innan Evrópusambandsins og óheimilt er að eiga viðskipti með sýrlenskt gull og eðalsteina í eigu ríkisins. Þá hefur Fjárfestingabanki Evrópu lokað á lánveitingar og tæknilega aðstoð til Sýrlands.

Evrópusambandið hefur hvatt til þess að rannsakað verði hvort efnavopn hafi verið notuð í átökunum í Sýrlandi og hefur af því tilefni biðlað til sýrlenskra stjórnvalda að aðstoða við rannsóknina. Stjórnvöld í Sýrlandi hafa nú gefið leyfi fyrir að rannsakaðir verði þrír staðir þar sem talið er að efnahavopnaárásir hafi átt sér stað.

Ennfremur hefur ESB úthlutað 860 milljónum evra í almenna- og mannúðaraðstoð vegna átakanna innan og utan Sýrlands. Framkvæmdastjórn ESB og utanríkismálastjóri sambandsins, Catherine Ashton, gáfu út þá yfirlýsingu í lok júní 2013 að 400 milljónum evra yrði úthlutað til viðbótar á árinu.

Evrópusambandið styður áform Bandaríkjanna og Rússlands um friðarráðstefnu sem stefnt er að að halda í október 2013. Á ráðstefnunni eiga stjórnvöld og uppreisnarmenn í Sýrlandi að koma að samningaborðinu og reyna að stilla til friðar.

Heimildir og mynd:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela