Spurning
Samstarfsvettvangur ESB og nágrannaríkja þess í austri
Spyrjandi
Evrópuvefur
Svar
Samstarfsvettvangur Evrópusambandsins og nágrannaríkja þess í austri (e. Eastern Partnership) var stofnaður á fundi leiðtoga ESB og sex nágrannaríkja þess í Austur-Evrópu og Suður-Kákasus í Prag árið 2009. Samstarfinu er ætlað að efla efnahagslegt og stjórnmálalegt samband ESB og samstarfsríkjanna; Armeníu, Aserbaídsjan, Hvíta-Rússlands, Georgíu, Moldavíu og Úkraínu. Efling mannréttinda og réttarríkis í samstarfsríkjunum, sem öll eru fyrrum ríki Sovétríkjanna, eru á meðal höfuðmarkmiða samstarfsvettvangsins. Samstarfsvettvangurinn er starfræktur innan regluverks evrópsku nágrannastefnunnar en gengur þó lengra hvað varðar tvíhliða samstarf milli ESB og samstarfsríkjanna sem og milli samstarfsríkjanna innbyrðis. Samstarfsvettvangurinn á meðal annars að auðvelda ferðalög borgara milli samstarfsríkjanna, en langtímamarkmiðið er að afnema vegabréfsáritanir. Einnig er ætlunin að koma á fót víðtæku samkomulagi um fríverslun milli ESB og samstarfsríkjanna. Þá á að byggja upp og efla opinberar stofnanir í samstarfsríkjunum með fjárhagslegri aðstoð frá ESB og ýta almennt undir efnahagslega og félagslega þróun í ríkjunum. Hvert samstarfsríki gerir samning við ESB um hvernig þessum markmiðum skuli náð, en samningarnir eru komnir mislangt á veg. Samstarfssamningar ESB og Úkraínu og Moldavíu eru til að mynda langt komnir, og þættir eins og einföldun vegabréfsáritana hafa þegar tekið gildi, á meðan viðræður um samning ESB og Hvíta-Rússlands hafa ekki hafist. Leiðtogafundir um samstarfsvettvanginn eru haldnir annað hvert ár en utanríkisráðherrar þátttökuríkjanna koma saman til fundar árlega.Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur14.6.2013
Flokkun:
Efnisorð
ESB Austur-Evrópa Suður-Kákasus samstarfsvettvangur ESB og nágrannaríkja þess í austri Evrópska nágrannastefnan fjárhagsaðstoð
Tilvísun
Evrópuvefur. „Samstarfsvettvangur ESB og nágrannaríkja þess í austri“. Evrópuvefurinn 14.6.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65461. (Skoðað 21.11.2024).
Höfundur
Prenta
Senda
Frekara lesefni á Evrópuvefnum:
Við þetta svar er engin athugasemd
Fela