Spurning

Hvað útskýrir ólíka nálgun Norðurlandanna gagnvart Evrópusambandinu?

Spyrjandi

N.N.

Svar

Ófáar kenningar hafa verið smíðaðar til útskýringar á þeim ólíku leiðum sem Norðurlöndin hafa kosið sér í Evrópusamrunanum. Á meðal þess sem haldið hefur verið fram er að hagsmunir ráðandi atvinnuvega í löndunum hafi haft afgerandi áhrif á afstöðuna til aðildar að sambandinu. Aðrar kenningar útskýra ólíka nálgun Norðurlandanna með þáttum eins og þjóðernishyggju eða stöðu landanna með tilliti til öryggis- og varnarmála.

***

Norðurlandaþjóðirnar eru í grunninn mjög svipaðar, íbúafjöldi þeirra er tiltölulega lítill, þær búa yfir lýðræðislegu flokkakerfi, sterku velferðarkerfi, miklum menntunarmöguleikum og ríkum menningararfi. Þrátt fyrir þessi sameiginlegu einkenni hafa Norðurlandaþjóðirnar valið ólíkar leiðir þegar kemur að samstarfi Evrópuríkja. Danmörk, Finnland og Svíþjóð eru aðildarríki Evrópusambandsins á meðan Ísland og Noregur hafa kosið að byggja samstarf sitt við ESB á grundvelli EES-samningsins. Þá má geta þess að Finnland er eina Norðurlandið innan ESB sem hefur tekið upp sameiginlegan gjaldmiðil sambandsins.


Norðurlöndin hafa farið ólíkar leiðir að þátttöku í Evrópusamrunanum.

Margar kenningar hafa verið smíðaðar til útskýringar á þeim ólíku leiðum sem Norðurlöndin hafa kosið sér í Evrópusamrunanum. Á meðal þess sem haldið hefur verið fram er að hagsmunir ráðandi atvinnuvega, sem afla stórs hluta tekna þjóðanna, hafi haft mikið að segja um ólíka afstöðu ríkjanna til aðildar að ESB. Þannig hafi helsta hvatning danskra yfirvalda til þátttöku í Evrópusambandinu árið 1972 verið sú að danskur landbúnaður hefði orðið fyrir fjárhagslegu tjóni ef Danir hefðu ekki fylgt aðildarumsókn Bretlands eftir með eigin umsókn. Danir áttu í miklum viðskiptum með landbúnaðarvörur við Breta á þessum tíma og hefðu tollarnir sem risið hefðu milli landanna haft neikvæðar efnahagslegar afleiðingar fyrir danskan landbúnað.

Í Svíþjóð beittu iðnrekendur, til að mynda í bíla- og tækniiðnaði, sér hart fyrir inngöngu landsins í sambandið en þeir afla mikilla tekna fyrir sænska ríkið. Sænsk stjórnvöld fundu sig því knúin til að sækja um aðild að ESB árið 1991, í aðdraganda stofnunar innri markaðarins, til að skapa ákjósanlegar rekstraraðstæður innanlands og hindra að iðnrekendurnir gerðu alvöru úr hótunum sínum um að flytja starfsemi sína annað. Aðstæðum í Finnlandi svipaði til aðstæðna Dana árið 1972 þar sem iðnaður í Finnlandi var nátengdur iðnaði í Svíþjóð. Það var því efnahagslega mikilvægt fyrir Finnland að komast að sömu niðurstöðu og Svíþjóð í Evrópumálum. Svíþjóð og Finnland gengu í Evrópusambandið árið 1995.

Á Íslandi og í Noregi hafa ráðandi atvinnuvegir, sjávarútvegur á Íslandi og olíuiðnaður í Noregi, löngum beitt sér gegn aðild að Evrópusambandinu. Af þessum sökum hafa stjórnvöld í ríkjunum litið svo á að hagsmunum þjóðanna sé betur gætt á vettvangi EES-samningsins en með aðild að sambandinu. Bæði löndin hafa þó sótt um aðild að Evrópusambandinu á ólíkum tímum. Noregur hefur fjórum sinnum sótt um aðild og tvívegis hafnað henni í þjóðaratkvæðagreiðslu. Um það má lesa nánar í svari við spurningunni Fengu Norðmenn fullan aðildarsamning í bæði skiptin sem þeir sóttu um og höfnuðu aðild að ESB? Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu árið 2009 en þegar þetta er skrifað, í lok júní 2013, hefur formlega verið gert hlé á aðildarviðræðunum.

Fleiri kenningar um ólíka nálgun Norðurlandanna gagnvart ESB hafa verið settar fram. Þar á meðal að afstöðu Íslands og Noregs til Evrópusamrunans megi rekja til sterkrar þjóðerniskenndar íbúa landanna sem valdi því að þeir séu ófúsir til að deila fullveldi sínu með öðrum þjóðum. Þjóðernishyggjan er meðal annars talin eiga rætur að rekja til þeirrar baráttu sem þjóðirnar háðu á sínum tíma til að hljóta sjálfstæði sem og reynslu Noregs af hernámi Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni. Sömuleiðis eru til kenningar um að öryggis- og varnarmál hafi átt ríkan þátt í ákvörðunum Norðurlandanna, einkum í tilviki Finnlands sem átti þess ekki kost að sækja um aðild að ESB fyrr en eftir að kalda stríðinu lauk vegna hlutleysisstefnu og náinna tengsla við Rússland.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur28.6.2013

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hvað útskýrir ólíka nálgun Norðurlandanna gagnvart Evrópusambandinu?“. Evrópuvefurinn 28.6.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65504. (Skoðað 3.12.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela