Spurning
Eystrasaltsráðið
Spyrjandi
Evrópuvefur
Svar
Eystrasaltsráðið (e. Council of the Baltic Sea States, CBSS) er samstarfsvettvangur ríkja sem eiga strönd að Eystrasalti, það er Danmerkur, Svíþjóðar, Finnlands, Eistlands, Lettlands, Litháens, Rússlands, Þýskalands og Póllands. Ísland, Noregur og Evrópusambandið eiga þó einnig aðild að ráðinu. Ráðið heldur árlegar ráðstefnur þar sem utanríkisráðherrar aðildarríkjanna hittast en aðalskrifstofa er rekin í Stokkhólmi. Stofnun ráðsins kom til við lok kalda stríðsins árið 1992 en þá vöknuðu ríkin við Eystrasalt til nýrrar vitundar um sameiginlega arfleifð á sviði stjórnmála, viðskipta, mennta og menningar. Meginhlutverk ráðsins er að stuðla að stjórnmálalegum og efnahagslegum stöðugleika í norðausturhluta Evrópu. Í því felst að leitast er við að treysta mannréttindi og aðstoða við þróun og uppbyggingu lýðræðis og réttarríkis í þeim aðildarríkjum er áður bjuggu við kommúnisma og efla samkennd með nýfrjálsum íbúum þessara ríkja. Markmið samstarfsins á sviði efnahags- og viðskiptamála er að bæta viðskiptaumhverfi til eflingar frjálsum viðskiptum. Fyrirmynd að skipulagi og starfsemi ráðsins var að verulegu leyti sótt til hefðbundins samstarfs Norðurlandanna á vettvangi Norðurlandaráðsins. Stofnsáttmáli Sameinuðu þjóðanna, Helsinkisáttmálinn, Parísarsáttmálinn og samþykktir Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu voru lögð til grundvallar. Þau ríki sem eiga áheyrnarfulltrúa hjá Eystrasaltsráðinu eru Frakkland, Ítalía, Holland, Slóvakía, Úkraína, Bretland og Bandaríkin.Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur28.6.2013
Flokkun:
Efnisorð
Eystrasaltsráðið Danmörk Svíþjóð Finnland Eistland Lettland Litháen Rússland Þýskaland Pólland Ísland ESB Eystrasaltsríkin Norðurlandaráð
Tilvísun
Evrópuvefur. „Eystrasaltsráðið“. Evrópuvefurinn 28.6.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65506. (Skoðað 23.11.2024).
Höfundur
Prenta
Senda
Við þetta svar er engin athugasemd
Fela