Hvaða lög og reglur gilda um vændi í ríkjum Evrópusambandsins?
Spyrjandi
Ritstjórn
Svar
Í ríkjum Evrópusambandsins gilda ólíkar reglur um vændi enda hefur Evrópusambandið ekki markað sér samræmda stefnu í vændismálum nema hvað varðar þvingað vændi, svo sem mansal. Slíkt er ólöglegt í öllum ríkjum ESB. Aðildarríkjunum er í sjálfsvald sett hvernig þau haga löggjöf sinni um vændi. Sum hafa það að markmiði að uppræta vændi á meðan önnur vilja afnema tengsl vændis við glæpastarfsemi. ESB-ríkin fylgi aðallega þremur leiðum í regluverki sínu um vændi: Í fyrsta lagi eru það ríki þar sem vændi er löglegt og undir eftirliti stjórnvalda. Þeir sem stunda vændi greiða skatta af tekjum sínum og eru hluti af velferðarkerfinu. Þau ríki Evrópusambandsins sem hafa þann háttinn á eru Þýskaland, Austurríki, Holland og Grikkland. Í þessum ríkjum er aðkoma þriðja aðila leyfileg, hann getur til að mynda séð um rekstur vændishúsa. Þessi leið hefur verið gagnrýnd fyrir að vera of frjálsleg og gera vændið óþarflega sýnilegt, til dæmis á götum úti. Flestir hafa til að mynda heyrt um Rauða hverfið í Amsterdam og Þýskaland hefur sums staðar hlotið viðurnefnið vændishús Evrópu. Í öðru lagi eru það ríki þar sem vændi er með öllu ólöglegt sem og starfsemi sem tengist því. Rúmenía, Litháen og Króatía eru einu aðildarríki ESB með slíkt regluverk. Þetta fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt fyrir það að þvinga vændi undir yfirborðið. Þar með sé hætta á því að vændið verði að mun hættulegri starfsemi en ef það rúmaðist innan laga og reglna samfélagsins. Í síðasta lagi eru það svo ríki þar sem vændi er löglegt að hluta til. Þessi aðferð birtist í ýmsum myndum. Þar má til dæmis nefna „sænsku leiðina“ svokölluðu, en hún gengur út á að vændiskaup séu ólögleg en vændið sjálft löglegt þannig að vændissalanum verður ekki gerð refsing heldur kaupandanum. Aðkoma þriðja aðila er bönnuð. Svíþjóð er eina ríki Evrópusambandsins sem hefur farið þessa leið en þess má geta að Ísland og Noregur eru með sambærilegt regluverk. Flest ríki Evrópusambandsins leyfa vændi að hluta til í þeirri mynd að vændi er löglegt en aðkoma þriðja aðila er á hinn bóginn bönnuð. Rekstur vændishúsa er því ólöglegur. Þessi ríki eru lituð með bláum og ljósgrænum lit á myndinni hér fyrir ofan. Heimildir og mynd:- England - document1_en.pdf. (Skoðað 8.8.2013).
- Prostitution in Europe - Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 8.8.2013).
- Prostitution: Europas Sorgenkind - Die Euros. (Skoðað 8.8.2013).
- Why Germany is now 'Europe's biggest brothel' | World News | The Guardian. (Skoðað 8.8.2013).
- File:Prostitution in europe corrected 2.svg - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 8.8.2013).
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur 9.8.2013
Flokkun:
Efnisorð
vændi Evrópusambandið ESB vændishús löggjöf mansal velferðakerfi þriðji aðili vændissala lögleiðing samræmd stefna glæpastarfsemi sænska leiðin lögleiðing
Tilvísun
Lena Mjöll Markusdóttir. „Hvaða lög og reglur gilda um vændi í ríkjum Evrópusambandsins?“. Evrópuvefurinn 9.8.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65668. (Skoðað 28.1.2025).
Höfundur
Lena Mjöll Markusdóttirlaganemi og verkefnastjóri á Evrópuvefnum