Spurning

Mun Ísland þurfa að borga til baka IPA-styrkina eftir að hafa gert hlé á aðildarviðræðunum við Evrópusambandið?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Eftir því sem Evrópuvefurinn kemst næst hafa umsóknarríki aldrei þurft að endurgreiða svonefnda IPA-styrki og hið sama gildir um kostnað Evrópusambandsins af aðildarviðræðunum sjálfum. Nú þegar íslensk stjórnvöld hafa formlega gert hlé á aðildarviðræðum landsins við Evrópusambandið ríkir óvissa um stöðu áætlaðra verkefna sem og þeirra sem hafin eru.

***

Samkvæmt því sem Evrópuvefurinn kemst næst kveða lög Evrópusambandsins ekki á um að umsóknarríki endurgreiði þá IPA-styrki sem það hefur nýtt sér þótt ekki komi til aðildar. Hið sama gildir um kostnað ESB af aðildarviðræðunum sjálfum. Þá eru engar kvaðir um mögulega endurgreiðslu að finna í rammasamingnum milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Það er því ekkert sem bendir til þess að ESB muni krefjast endurgreiðslu á veittum IPA-styrkjum, jafnvel þótt hætt verði alfarið við aðildarumsóknina.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ásamt José Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

IPA-áætlunin (e. Instrument for Pre-Accession Assistance) er samheiti yfir fjölþætta aðstoð sem Evrópusambandið veitir umsóknarríkjum til að undirbúa stjórnsýslu þeirra fyrir hugsanlega aðild. IPA-styrkir eru veittir á grundvelli sérstakra styrksamninga um einstök verkefni. Áætlað var að samanlagður IPA-stuðningur við Ísland samkvæmt landsáætlunum 2011, 2012 og 2013 næmi 6,5 milljörðum íslenskra króna en stuðningurinn gerði einnig ráð fyrir mótframlagi af Íslands hálfu. Ítarlegri umfjöllun um IPA-styrkina er að finna í svörum við spurningunum Hvað eru IPA-styrkir og hverjir geta sótt um þá? og Við höfum sótt um aðstoð við umsóknarríki, þurfum við þá ekki að fullnægja skilyrðum um aðlögun að regluverki ESB? Hvernig yrði það gert?

Óvissa ríkir nú um stöðu IPA-verkefnanna í kjölfar þess að íslensk stjórnvöld ákváðu að gera formlegt hlé á aðildarviðræðunum við Evrópusambandið. Framkvæmdastjórnin hefur tilkynnt íslenskum stjórnvöldum að fleiri samningar um IPA-verkefni verði ekki undirritaðir að svo stöddu. Tilgangur IPA-aðstoðarinnar er að undirbúa umsóknarríki fyrir aðild að ESB og í raun er það skilyrði fyrir að aðstoðin sé veitt að viðtökulandið stefni að inngöngu í sambandið.

Verkefni ársins 2011, sem búið var að undirrita styrksamninga um og vinna var hafin við, munu að öllum líkindum hljóta áætlaða styrki svo hægt verði að ljúka þeim. Áætlunin fyrir árið 2011 nam 1,8 milljörðum króna. Viðræður hafa þó verið boðaðar milli íslenskra stjórnvalda og framkvæmdastjórnarinnar í byrjun hausts til þess að ákveða endanlega hvernig áætlunin verður framkvæmd.

Styrksamningar milli Íslands og ESB fyrir verkefni sem áætluð voru í landsáætlunum fyrir árin 2012 og 2013 voru ekki tilbúnir. Þau verkefni munu því ekki fá IPA-styrki að svo stöddu. Sem dæmi um verkefni sem hljóta ekki styrk má nefna tilraunaverkefni á sviði atvinnu- og byggðaþróunar, uppsetning á rafrænu tollakerfi hjá embætti tollstjóra, verkefni um áhættumiðaða aðferðafræði við fjármálaeftirlit hjá Fjármálaeftirlitinu og verkefni um samræmdar tölfræðilegar upplýsingar fyrir fyrirtæki hjá Hagstofu Íslands, svo eitthvað sé nefnt. Stjórnvöld munu nú meta hvort fjárhagslegur grundvöllur sé fyrir hendi á áframhaldi þeirra. Yfirlit um verkefni í landsáætlun IPA 2011-2013 má nálgast á heimasíðu utanríkisráðuneytisins.

Heimildir og mynd:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela