Spurning

Evrópuvefurinn: Vettvangur fróðleiks og umræðu

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Evrópuvefurinn var stofnaður með þjónustusamningi milli Alþingis og Vísindavefs Háskóla Íslands og hóf störf í júní 2011. Evrópuvefurinn er upplýsingaveita um Evrópusambandið og Evrópumál og tilgangur hans er að veita hlutlægar upplýsingar meðal annars um stofnanir og stefnumál ESB, aðildarríki sambandsins og aðildarumsókn Íslands. Fjármagn til Evrópuvefsins kemur frá Alþingi en hann starfar í nánum tengslum við Vísindavefinn og byggir á sömu einföldu hugmynd: að svara spurningum lesenda á skýran og skilmerkilegan hátt. Umfjöllunarefni vefsins stjórnast fyrst og fremst af hugðarefnum spyrjenda.

Auk þess að leggja inn nýjar spurningar geta gestir Evrópuvefsins lesið svör við spurningum annarra. Á Evrópuvefnum er nú að finna svör við rúmlega 200 spurningum. Sem dæmi má nefna Hver yrði árlegur kostnaður Íslands við aðild að ESB? Glata Íslendingar fullveldinu við inngöngu í ESB? Hvað felst í landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins, CAP? Hvað tekur okkur langan tíma að fá evru ef aðild að ESB væri samþykkt? Gestir eru eindregið hvattir til að taka þátt í umræðum um svör með því að gera við þau málefnalegar athugasemdir á vefnum.

Á Evrópuvefnum er einnig aðgengilegt ítarefni svo sem tímaás um Evrópusambandið, aðdraganda þess og umhverfi, yfirlit yfir aðildarsögu sambandsins sem og helstu stofnanir og sáttmála. Hluti svaranna á Evrópuvefnum myndar handbók um Evrópumál. Í henni eru stuttar útskýringar á hugtökum og fleiru og eru þar nú um 70 flettiorð. Einnig er á vefnum safn tengla í efni sem snertir ESB. Með hjálp leitarvélar vefsins geta gestir leitað eftir efnisorðum sem tengjast því sem þá fýsir að vita og fengið ábendingar um svör og annað tengt efni sem þegar er komið á vefinn.

Ríkisstjórn Íslands sótti um aðild að Evrópusambandinu í júlí árið 2009 og á nú í viðræðum við fulltrúa sambandsins um skilmála aðildarsamnings. Takist að ljúka samningi verður hann lagður fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu og þá bíður það Íslendinga að taka persónulega afstöðu til þess hvort landið skuli verða aðili að Evrópusambandinu eða ekki. Ýmsir kunna að hafa gert upp hug sinn til aðildar nú þegar en fleiri bíða líklega eftir niðurstöðum viðræðnanna. Hvað sem þessu líður verður Evrópusambandið áfram mikilvægur þáttur í umhverfi okkar, meðal annars vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES).

Fyrir alla sem vilja afla sér upplýsinga um aðdraganda og sögu Evrópusambandsins; löggjöf, réttarframkvæmd og stjórnsýslu í ESB; stefnu og áætlanir ESB; aðildarríkin og afstöðu þeirra eða aðildarumsókn Íslands og hugsanleg áhrif hennar er Evrópuvefurinn rétti staðurinn. Það er hlutverk vefsins að veita hlutlægar og trúverðugar upplýsingar með það að markmiði að efla málefnalegar umræður um Evrópusambandið og tryggja að þjóðin taki upplýsta ákvörðun um aðild þegar þar að kemur. Evrópuvefurinn hefur engra annarra hagsmuna að gæta en að þessum markmiðum verði náð og umræðan um aðild fari þannig fram að menn komi heilir frá leik.

Höfundar: Þórhildur Hagalín og Vilborg Ása Guðjónsdóttir, verkefnastjórar Evrópuvefsins

Greinin birtist í Fréttablaðinu 2. desember 2012.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 2.12.2011

Flokkun:

Fréttir

Efnisorð

Tilvísun

Evrópuvefur. „Evrópuvefurinn: Vettvangur fróðleiks og umræðu“. Evrópuvefurinn 2.12.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=70899. (Skoðað 28.1.2025).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela