Spurning

Um hvað snýst endurskoðunin á sjávarútvegsstefnu ESB sem nú stendur yfir?

Spyrjandi

Hrafn Arnarson

Svar

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur nýlega sett fram tillögur um endurskoðun á sjávarútvegsstefnu sambandsins. Í stuttu máli snúast þessar umbótahugmyndir um vistkerfishugsun, sjálfbærni, bann við brottkasti, kvótakerfi sem miðist við veiddan fisk en ekki landaðan eins og nú er, framseljanlegan kvóta innan aðildarríkis, stuðning við minni skip og strandveiðar, eflingu fiskeldis, aukna öflun og nýtingu gagna, svæðavæðingu, gagnsæjan og stöðugan markað með meiri samkeppni, gæðastöðlun og rekjanleika, betra styrkjakerfi og aukna ábyrgð í samningum við önnur ríki.

***

Í Evrópusambandinu er nú unnið að endurskoðun á sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins. Stefnan hefur verið gagnrýnd harðlega bæði af aðildarríkjum og þriðju ríki, sem og sérfræðingum, samsteypuþrýstihópum og frjálsum félagasamtökum. Skammsýni í stefnumörkun, alvarleg ofnýting á auðlindum sjávar, brottkast, óhagkvæmni, skortur á sérfræðiþekkingu, miðstýring, gallar í markaðsskipulagi og í styrkjakerfi sambandsins eru þau atriði sem helst hafa verið gagnrýnd.

Breytingatillögur framkvæmdastjórnarinnar við núverandi sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins voru lagðar fyrir Evrópuþingið og ráðherraráðið. Ráðgert er að nýja stefnan taki gildi 1. janúar 2013 og gildi til ársins 2020. Meginatriði tillagnanna eru þessi:
  • Langtímastefnumörkun í stjórn á vistkerfum sjávar með áherslu á vistkerfishugsun og sjálfbærni.
  • Bann við brottkasti, kvótakerfi miðist við veiddan fisk en ekki löndunarmagn eins og nú er, og þetta leiði meðal annars til betri gagna um veiði.
  • Arðbærari fiskveiðar, kvóti verði framseljanlegur innan aðildarríkis.
  • Stuðningur við minni skip, minni útgerðir, og strandveiðar.
  • Þróun á sjálfbærri fiskeldisframleiðslu.
  • Bætt sérfræðiþekking í greininni, aukin gagnaöflun og rannsóknir, betri nýting á gögnum í samvinnu milli stjórnvalda og atvinnugreinarinnar.
  • Dreifing valds frá Brussel til þeirra aðildarríkja eða aðila sem hafa hag af greininni, með öðrum orðum svæðavæðing (e. regionalisation).
  • Nýtt markaðsskipulag með meiri samkeppni, gagnsæi markaða, jafnari aðstöðu framleiðenda og afurða, stöðugri mörkuðum, betri merkingum, gæðastöðlum og rekjanleika.
  • Endurbætur á styrkjakerfinu með auknu tilliti til sjálfbærni og hegðunar styrkþega, og með nýjum fiskveiðisjóði.
  • Ábyrgð tekin á ofveiðum í samningum við þriðjulönd um viðskipti með sjávarafurðir.

Þegar árið 2009 gaf framkvæmdastjórn ESB út grænbók um endurskoðun sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar sem var ætlað að stuðla að umræðum og vera leiðbeinandi við mótun nýrrar stefnu. Í athugasemdum sem íslenska ríkisstjórnin gerði við grænbókina, í janúar 2010, er meðal annars tekið undir nauðsyn þess að stunda sjálfbærar veiðar eftir leiðbeiningum frá vísindamönnum. Þar að auki er ítrekuð nauðsyn þess að banna brottkast en samkvæmt núverandi reglum ESB er brottkast ekki aðeins leyfilegt heldur skylda.



ESB endurskoðar sem stendur sameiginlega sjávarútvegsstefnu sína.

Íslendingar hafa enn fremur lagt áherslu á að ESB þurfi að tryggja arðbærni greinarinnar en í breytingatillögunum við sjávarútvegsstefnu ESB kemur fram að taka megi Íslendinga, Dani og Norðmenn til fyrirmyndar hvað það varðar. Er mælst til þess að innan sambandsins verði tekið upp kvótakerfi eftir þeim fyrirmyndum sem til eru og hafa borið sýnilegan árangur við að tryggja arðbærni.

Íslensk stjórnvöld taka einnig undir það sem fram kemur í grænbókinni um aukna svæðavæðingu í fiskveiðistjórnun sambandsins. Í því felist að ríki sambandsins hafi fullt forræði í ákvarðanatöku um nýtingu staðbundinna fiskistofna í sínum efnahagslögsögum. Framkvæmdastjóri sjávarútvegsmála telur aukna svæðavæðingu nauðsynlega og leggur áherslu á að ESB setji meginviðmið sem aðilar skuli fylgja. Svæðum, aðildarríkjum og þeim atvinnugreinum sem ríkastra hagsmuna eiga að gæta í greininni verði á hinn bóginn veitt aukið áhrifa- og framkvæmdavald.

Miðað við fyrirliggjandi breytingatillögur er útlit fyrir að sjávarútvegsstefna ESB muni verða líkari sjávarútvegsstefnu Íslands í framtíðinni. Ekki er þó hægt að segja fyrir um það endanlega þar sem endurskoðunin stendur enn yfir. Sjá umfjöllun um áherslur Íslands í samningaviðræðum við ESB í svari við spurningunni: Hver eru markmið Íslands á sviði sjávarútvegsmála í aðildarviðræðum við ESB?

Heimildir og mynd:

Upphafleg spurning var: Hvaða áhrif mun aðild að ESB (líklega) hafa á fiskveiðistjórnun Íslands? Henni var svarað í þremur hlutum, sjá tengd svör hér að ofan til hægri.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur29.7.2011

Tilvísun

Jóna Sólveig Elínardóttir. „Um hvað snýst endurskoðunin á sjávarútvegsstefnu ESB sem nú stendur yfir?“. Evrópuvefurinn 29.7.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60369. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Jóna Sólveig Elínardóttiralþjóðastjórnmálafræðingur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela