Spurning

Hvernig hefur sjávarútvegsstefna ESB þróast í tímans rás?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Fyrstu tillögurnar að sameiginlegri stefnu í sjávarútvegsmálum voru settar fram árið 1968 og mótaðar að fyrirmynd sameiginlegu landbúnaðarstefnunar. Miklar deilur ríktu um mótun stefnunnar á árunum 1976-1983 en lausn deilnanna fólst að hluta til í innleiðingu reglunnar um hlutfallslegan stöðugleika. Árin 1992 og 2002 var sjávarútvegsstefnan endurskoðuð til næstu tíu ára og í kjölfar breytinganna 2002 var lögð ný áhersla á sjálfbærni í sjávarútvegi. Þriðja endurskoðun sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar stendur nú yfir en áætlað er að henni ljúki seinni hluta árs 2012.

***

Sjávarútvegsmál hafa lengi verið á dagskrá Evrópusambandsins en upphaflega voru þau hluti af sameiginlegu landbúnaðarstefnunni. Fyrstu tillögurnar að sameiginlegri stefnu á sviði sjávarútvegs voru mótaðar árið 1968 en hvatinn að þeim var meðal annars þrýstingur frá aðildarríkjunum um innleiðingu lágmarksverðs og veitingu styrkja í anda landbúnaðarstefnunnar. Aðildarríkin sáu sér enn fremur hag í því að samþykkja sameiginlegar reglur um sjávarútveg áður en aðildarviðræður við Bretland, Danmörku og Noreg, sem öll áttu auðug fiskimið, hæfust. Tillögurnar tóku gildi árið 1970 en aðildarríkin höfðu þá komið sér saman um sameiginlegt markaðsskipulag fyrir sjávarafurðir á innri markaði sambandsins sem og reglur um aðgengi að fiskimiðum og verndun fiskistofna.

Sjávarútvegsstefnan þróaðist enn frekar í framhaldinu af útfærslu fiskveiðilögsögu aðildarríkjanna úr 12 sjómílum í 200 mílur árið 1976 en þessi stækkun var í samræmi við alþjóðlega þróun. Á næstu árum ríktu þó miklar deilur um mótun stefnunnar. Það sem aðildarríkin greindi helst á um var hve mikið hvert aðildarríki mætti veiða og hvernig fiskveiðum skyldi stjórnað innan sambandsins. Að undanskildu Bretlandi og Írlandi voru aðildarríkin samþykk því að öll ríkin hefðu jafnan aðgang að sameiginlegum sjávarauðlindum sambandsins. Ríkin tvö voru ósátt við hlutdeild sína í leyfilegum hámarksafla sem og úrræðaskort við verndun fiskistofna og óskuðu eftir því að fiskveiðilögsaga þeirra yrði utan sameiginlegrar lögsögu sambandsins. Danmörk var sömuleiðis ekki ánægð með sína hlutdeild en mikil þensla hafði verið í sjávarútvegi í Danmörku á þessum tíma og vildu Danir meiri sveigjanleika hvað varðaði úthlutun veiðiheimilda ef svo færi að þessi þensla héldi áfram.


Maria Damanaki framkvæmdastjóri sjávarútvegsmála og Johannes Hahn framkvæmdastjóri svæðis- og byggðamála hjá Evrópusambandinu.

Deilurnar leystust ekki fyrr en árið 1983 þegar framkvæmdastjórn ESB bauð Bretlandi og Danmörku hærri árlegar aflaheimildir og Írlandi styrki til þess að endurnýja fiskveiðiflota sinn. Framkvæmdastjórnin hafði lagt mikla áherslu á að deilurnar yrðu leystar áður en Spánn og Portúgal yrðu aðilar að sambandinu til að forða því að sjávarútvegur þessara ríkja yrði hluti af vandanum. Lausn deilnanna fólst fyrst og fremst í samkomulagi aðildarríkjanna um að skipta aflaheimildum úr helstu fiskistofnum sín á milli samkvæmt reglunni um hlutfallslegan stöðugleika. Með innleiðingu reglunnar tókst að draga mjög úr viðvarandi deilum um veiðar úr sameiginlegum fiskistofnum. Þegar fiskveiðiþjóðirnar í suðri, Spánn og Portúgal, gengu loks í sambandið árið 1986 gengu þær að orðnum hlut hvað varðaði reglur um skiptingu veiðiheimilda í sameiginlegri fiskveiðilögsögu sambandsins.

Árið 1992 var sjávarútvegsstefnan endurskoðuð og mótuð til næstu 10 ára. Við þessa endurskoðun var lögð áhersla á að draga úr veiðigetu aðildarríkjanna í þeim tilgangi að sporna við ofveiði. Mikið fé var lagt til þess að minnka veiðiflota aðildarríkjanna og auka hagkvæmni í veiðum en umdeilt er hversu vel þessar aðgerðir tókust. Önnur endurskoðun á stefnunni fór fram tíu árum síðar. Í kjölfar breytinganna sem gerðar voru árið 2002 voru tekin upp ný markmið með sjávarútvegsstefnunni sem lögðu áherslu á sjálfbærni sjávarútvegsins, bæði efnahagslega, umhverfislega og félagslega, sem og á verndun fiskistofna og lífríkis sjávar. Þá var sjávarútvegssjóði Evrópu (e. European Fisheries Fund, EFF) komið á fót en markmið hans er að stuðla að þróun og endurbótum í sjávarútvegi, stuðla að jafnvægi og auka samkeppnishæfni, bæta umhverfið og styðja við sjávarbyggðir.

Þriðja endurskoðun sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar stendur nú yfir en áætlað er að henni ljúki seinni hluta árs 2012. Fjallað er nánar um hana í svari við spurningunni Um hvað snýst endurskoðunin á sjávarútvegsstefnu ESB sem nú stendur yfir?

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 7.9.2012

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hvernig hefur sjávarútvegsstefna ESB þróast í tímans rás?“. Evrópuvefurinn 7.9.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63203. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela