Spurning

Hver er munurinn á varanlegum undanþágum og sérlausnum í samningaviðræðum við ESB, í lagalegum skilningi?

Spyrjandi

Jón Baldur Lorange

Svar

Undanþágur og sérlausnir eru ekki lagaleg hugtök í sjálfu sér og á þeim er enginn sérstakur munur í lagalegum skilningi. Í reynd má segja að sérlausnir séu ein tegund undanþága.

***

Til grundvallar viðræðum um aðild að Evrópusambandinu liggja réttarreglur sambandsins (fr. acquis communautaire). Meginreglan er að sérhvert ríki, sem vill verða aðili að ESB, þarf að innleiða sameiginlegt regluverk ESB í heild sinni í eigin löggjöf. Samkvæmt 49. gr. Lissabon-sáttmálans skulu skilmálar aðildar og sú aðlögun að sáttmálum ESB sem fylgir aðild, byggjast á samningi milli aðildarríkjanna og umsóknarríkisins. Aðildarsamningar fela iðulega í sér tímabundnar undanþágur (e. transitional arrangements og fleiri orð), til dæmis til að innleiða innan ákveðins tíma tiltekna löggjöf ESB eða afnema reglur sem brjóta í bága við stofnsáttmála eða löggjöf ESB, og miða þær oftast að því að létta efnahagslífi og stjórnsýslu nýs aðildarríkis aðlögunina.

Orðin varanlegar undanþágur (e. derogations o.fl.) og sérlausnir (e. special arrangements o.fl.) eru notuð um það þegar samið er um undantekningar frá skyldu umsóknarríkis til að fara að réttarreglum ESB á ákveðnu sviði, í þeim tilgangi að koma til móts við þarfir verðandi aðildarríkja. Munurinn á varanlegri undanþágu annars vegar og sérlausn hins vegar er ekki alltaf skýr og eru orðin stundum notuð sem samheiti. Í reynd má segja að sérlausnir séu ein tegund varanlegra undanþága:
  1. Varanleg undanþága: Þegar eitt eða fleiri nafngreind ríki eru undanþegin ákveðnum reglum sem eru að öðru leyti almennar.
  2. Sérlausn: Þegar sérstakar aðstæður ríkja verða til þess að samið er um sérstakar reglur sem gilda fyrir viðkomandi ríki.

Sem dæmi um varanlega undanþágu má nefna að Svíar eru undanþegnir almennu banni í regluverki ESB við viðskiptum með munntóbak (sæ. snus). Undanþágan kemur fram í viðauka við aðildarsamninginn þar sem vísað er í viðkomandi tilskipun (viðauki XV).

Af hálfu ESB er lögð áhersla á að veita helst ekki undanþágur í aðildarsamningum til að sem mest lagalegt samræmi ríki innan sambandsins. Flestar varanlegar undanþágur hafa enda ekki verið veittar umsóknarríkjum í aðildarviðræðum heldur aðildarríkjum við breytingar á stofnsáttmálum ESB. Undanþágur Breta og Dana frá upptöku evrunnar og Breta og Íra frá aðild að Schengen eru dæmi um slíkt. Þessi tegund undanþága er oft kölluð „opt-out“ á ensku.



Íshótelið í Jukkasjärvi í Lapplandi að sumri til.

Sem dæmi um sérlausn, sem er sniðin að sérstökum aðstæðum í umsóknarríki, má nefna ákvæðið um heimskautalandbúnað eða norðurslóðalandbúnað í aðildarsamningi Finna og Svía frá 1994 (142. gr.). Sérlausnin felst í því að Finnum og Svíum er heimilt að veita sérstaka styrki vegna landbúnaðar á norðurslóðum, það er norðan við 62. breiddargráðu, sem nemur 35% umfram það sem öðrum aðildarríkjum er heimilt. Markmiðið er að tryggja áframhaldandi landbúnaðarframleiðslu á norðlægum svæðum en um það má lesa nánar í svari við spurningunni Hvað er átt við með heimskautalandbúnaði í umræðunni um ESB?

Varanlegar undanþágur og sérlausnir eru ekki lagaleg hugtök í sjálfu sér og á þeim er enginn sérstakur munur í lagalegum skilningi. Lagagildi ákvæðanna ræðst eingöngu af því hvar þau er að finna í regluverkinu. Aðildarsamningar eru til dæmis hluti af frumrétti (e. primary legislation) ESB og því jafnréttháir sáttmálunum um ESB og bókunum við þá. Það þýðir að ekki er hægt að breyta ákvæðum þeirra, þar á meðal ákvæðum um undanþágur og sérlausnir, nema með samþykki allra aðildarríkja. Ákvæði í afleiddri löggjöf (tilskipunum, reglugerðum eða þess háttar) eru hins vegar ekki jafnrétthá sáttmálunum og því auðveldara að breyta þeim.

Upphafleg spurning var sem hér segir:

Í umræðunni um aðildarsamning hefur annars vegar verið rætt um varanlegar undanþágur frá lögum og reglum ESB og hins vegar um sérlausnir fyrir Ísland. Hver er munurinn á þessu tvennu í lagalegum skilningi?

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur12.7.2011

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Hver er munurinn á varanlegum undanþágum og sérlausnum í samningaviðræðum við ESB, í lagalegum skilningi?“. Evrópuvefurinn 12.7.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60208. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela