Svar
Auk sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, þar sem ófrávíkjanleg grundvallarréttindi allra borgara sambandsins eru skilgreind, hefur ESB samþykkt fjölda tilskipana sem miða að því að koma í veg fyrir mismunun. Þar ber helst að nefna
kynþáttatilskipunina og
atvinnumálatilskipunina sem eru lagalega bindandi og því geta aðildarríki verið dregin fyrir dóm ef löggjöfinni er ekki framfylgt. Samkvæmt Mannréttindaskrifstofu Íslands er talið að innleiðing þessara tilskipana mundi styrkja réttindi tiltekinna minnihlutahópa hérlendis. Helsta gagnrýnin á tilskipanirnar er að þær séu of umfangsmiklar og því opnar fyrir ólíkum túlkunum.
***
Minnihlutahópur er almennt skilgreindur sem hópur fólks sem sker sig frá meirihluta samfélagsins, hvort sem er á grundvelli þjóðernis, kynþáttar, trúar, aldurs, tungumáls eða fötlunar. Í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi (e.
Charter of Fundamental Rights of the European Union), sem samþykktur var árið 2000, eru talin upp ófrávíkjanleg grundvallarréttindi allra borgara sambandsins í sex köflum. Þeir bera yfirskriftirnar virðing, frelsi, jafnrétti, samstaða, borgaraleg réttindi og réttlæti og ná yfir allt frá réttinum til lífs, jafnrétti allra manna fyrir lögum, bann við hvers kyns mismunun, réttinum til menntunar og sanngjarnra vinnuskilyrða svo fátt eitt sé nefnt. Sáttmálinn hlaut lagalegt gildi, til jafns við aðra sáttmála Evrópusambandsins, með Lissabon-sáttmálanum árið 2009. Nánar er fjallað um þróun samstarfs aðildarríkja ESB á sviði mannréttinda í svari við spurningunni
Hvernig komust mannréttindi á dagskrá í ESB?
Aðildarríki Evrópusambandsins hafa samþykkt fjölda tilskipana sem er ætlað að koma í veg fyrir mismunun. Á meðal mikilvægustu núgildandi tilskipana ESB á þessu sviði er tilskipun (nr.
2000/43/EB) um beitingu meginreglunnar um jafnrétti án tillits til kynþáttar eða þjóðernisuppruna (kynþáttatilskipunin) og tilskipun (nr.
2000/78/EB) um meginregluna um jafnrétti á vinnumarkaði og í starfi (atvinnumálatilskipunin). Kynþáttatilskipunin er yfirgripsmikil og felur í sér bann við mismunun á grundvelli kynþáttar og þjóðernis til að mynda á vinnumarkaði og í menntakerfinu. Atvinnumálatilskipunin felur í sér bann við mismunun á grundvelli trúar og lífsskoðana, fötlunar, aldurs og kynhneigðar á vinnumarkaði.
Frímerki frá árinu 2006 sem á að sýna réttindabaráttu minnihlutahópa. |
Kynþáttatilskipunin og atvinnumálatilskipunin byggjast á 19. gr.
sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins. Samkvæmt henni er ráðinu heimilt að grípa til allra viðeigandi ráðstafana til þess að berjast gegn mismunun á grundvelli kynferðis, kynþáttar eða þjóðernisuppruna, trúar eða lífsskoðunar, fötlunar og kynhneigðar. Tilskipanirnar eru lagalega bindandi og því geta aðildarríki verið dregin fyrir dóm ef þau framfylgja þeim ekki. Aðildarríkin bera einnig skaðabótaábyrgð ef tilskipanirnar eru ekki innleiddar eða ef innleiðing þeirra er að einhverju leyti ófullnægjandi.
Tilskipanirnar falla ekki undir EES-samninginn og eru Íslendingar því ekki skyldugir til að innleiða þær í íslenska löggjöf. Samkvæmt
þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi löggjafarþing (2011-2012) stendur þó til að innleiða tilskipanirnar með
lögum um bann við mismunun. Frumvarp til laga þessa efnis á að koma fyrir þingið á vorþingi 2012 en innleiðing tilskipananna stóð raunar einnig til á
vorþingi árið 2010 og
2011.
Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur ályktað að innleiðing tilskipananna mundi styrkja réttindi tiltekinna hópa hérlendis, þar sem ákvæði um jafnrétti og bann við mismunun eru takmörkuð í íslenskri löggjöf. Það er mat Mannréttindaskrifstofunnar að kynþáttatilskipunin mundi styrkja réttarvernd fólks á Íslandi sem tilheyrir kynþáttum eða þjóðerni sem telst til minnihluta á Íslandi. Réttarvernd þessara hópa yrði meiri í tengslum við atvinnu og þjálfun, menntun, almannatryggingar, aðild og þátttöku í stéttarfélögum og samtökum vinnuveitenda sem og aðgengi að vörum, þjónustu og húsnæði.
Innleiðing atvinnumálatilskipurnarinnar mundi, samkvæmt Mannréttindaskrifstofu, bæta umtalsvert réttindi minnihlutahópa þar sem íslensk löggjöf inniheldur engin sérstök ákvæði um bann við mismunum í starfi vegna aldurs, fötlunar, trúar, lífsskoðana eða kynhneigðar. Núgildandi íslensk lög um aldraða og fatlaða taka ekki sérstaklega fyrir mismunun, áreitni né kæruleiðir eða viðurlög.
Fjölmenning. |
Atvinnumálatilskipunin og kynþáttatilskipunin hafa verið gagnrýndar fyrir að vernda ekki nægilega lagaleg réttindi einstaklinga þegar um margþætta mismunun er að ræða. Sömuleiðis hefur komið fram sú gagnrýni að tilskipanirnar séu of umfangsmiklar og því opnar fyrir ólíkum túlkunum. Þannig hafi myndast skarð á milli innihalds tilskipananna og framsetningar þess í landslögum aðildarríkjanna. Mikið umfang tilskipananna þjónar þó þeim tilgangi að auðvelda aðildarríkjunum að aðlaga innihald þeirra að fyrirliggjandi innlendri löggjöf. Það hefur í sumum tilvikum leitt til þess að aðildarríki hafi þurft að bæta inn ákvæðum í landslög til þess að koma í veg fyrir rangtúlkanir og tryggja að lögin geti tekið á tilfellum þar sem margþætt mismunun á sér stað.
Að lokum er vert að nefna starfsemi
Evrópuráðsins (e. Council of Europe) sem gegnir mikilvægu hlutverki á sviði mannréttindaverndar í Evrópu. Öll aðildarríki ESB eru einnig aðilar að Evrópuráðinu en forsenda þess er að þau samþykki að gæta mannréttinda allra einstaklinga sem falla undir dómsvald þeirra. Til stendur að Evrópusambandið gerist aðili að mannréttindasáttmála Evrópu (e.
Convention for the Protection of Human Rights and Fundamental Freedoms, ECHR, ECHR) en hann er mikilvægasti alþjóðasamningurinn á vegum Evrópuráðisins. Evrópuráðið hefur unnið markvisst að verkefnum í þágu mannréttinda og sett á stofn margvíslegar nefndir um einstök málefni til að bæta kjör minnihlutahópa í Evrópu.
Dómstóll Evrópusambandsins (e. Court of Justice of the European Union), sem sker úr um ágreiningsmál á milli aðildarríkja ESB, stofnana ESB og einstaklinga innan ESB, hefur margsinnis vísað í álit og sáttmála Evrópuráðsins í úrskurðum sínum.
Heimildir og myndir: