Spurning

Mundu sameiginleg ríkisskuldabréf evruríkjanna hafa í för með sér að íslenska ríkið gæti tekið lán á hagstæðari vöxtum, ef Ísland væri aðili að myntbandalaginu?

Spyrjandi

Elvar Örn Arason

Svar

Hugmyndin um sameiginleg ríkisskuldabréf evruríkjanna hefur verið mikið í umræðunni á síðastliðnum tveimur árum. Hún er rædd sem hugsanleg lausn við ríkisfjármálakreppunni á evrusvæðinu. Hugmyndin er þó mjög umdeild og sem stendur er í fyrsta lagi óljóst hvort hún verði að veruleika og í öðru lagi hvernig fyrirkomulagi sameiginlegrar skuldabréfaútgáfu yrði háttað ef til hennar kæmi. Spurningunni um hvort íslenska ríkið, sem evruríki, fengi aðgang að lánum á hagstæðari vöxtum við tilkomu svokallaðra evruskuldabréfa er því ótímabært að svara.

***

Evruskuldabréf (e. Eurobonds, European Bonds eða Stability Bonds) eru skuldabréf sem gefin yrðu út af þjóðríki með evru sem lögeyri en með bakábyrgð allra evruríkjanna.

Hugmyndin um útgáfu evruskuldabréfa var sett fram í grein eftir tvo hagfræðinga, Jakob von Weizsäcker og Jacques Delpla, í maí árið 2010. Svipaðar hugmyndir höfðu raunar verið ræddar áður en að þessu sinni var tilefnið efnahagsvandræðin í Grikklandi sem í maí á því ári hafði fengið 110 milljarða evra lán, svokallaðan björgunarpakka, frá öðrum evruríkjum (sjá umfjöllun í svari við spurningunni Ef við værum fullgildur aðili að ESB og með evru, hver hefði hlutur okkar orðið í þeim „björgunarpökkum“ sem ESB-löndin hafa þurft að leggja saman í?).


Hugmyndin um evruskuldabréf er rædd sem hugsanleg lausn við ríkisfjármálakreppunni á evrusvæðinu.

Weizsäcker og Delpla lögðu til að evruríkin 17 sameinuðu ríkisskuldir sínar, upp að 60% af landsframleiðslu, og settu í pott það sem þeir kölluðu blá skuldabréf. Evruríkin skyldu ábyrgjast þennan hluta skuldanna sameiginlega. Einnig áttu ríkin að geta gefið út rauð skuldabréf sem væru síðri (e. junior) en bláu bréfin að því leyti að ekki væri tekin sameiginleg ábyrgð á þeim heldur væru þau eingöngu á ábyrgð þess ríkis sem gæfi þau út. Þá ættu rauðu bréfin einnig að vera síðri að því leyti að ef ríki lenti í greiðslufalli mundu eigendur bláu bréfanna standa framar í röð kröfuhafa.

Vegna þessarar áhættu mundi markaðurinn heimta hærri vexti af rauðu bréfunum en þeim bláu. Þar með væri kominn hvati fyrir ríkin til þess að halda skuldum sínum undir 60% af landsframleiðslu en það er eitt svonefndra Maastricht-skilyrða fyrir upptöku evru. Samhliða þessum aðgerðum skyldu evruríkin stofna sjálfstætt stöðugleikaráð (e. Independent Stability Council) þar sem evruríkin mundu meðal annars taka afstöðu til fjárlaga hvers annars.

Framkvæmdastjórn ESB tók tillöguna um sameiginleg ríkisskuldabréf til skoðunar og í nóvember 2011 gaf hún út grænbók um efnið (sjá tilkynningu framkvæmdastjórnarinnar). Þar gerir framkvæmdastjórnin í stuttu máli grein fyrir því hvernig sameiginleg skuldabréfaútgáfa evruríkjanna gæti hugsanlega litið út. Hún leggur ennfremur til að skuldabréfin yrðu kölluð stöðugleika skuldabréf (e. stability bonds) til að leggja áherslu á að bréfin mundu auka stöðugleika í myntsamstarfinu.

Í grænbókinni kemur fram að áhrifin af sameiginlegum ríkisskuldabréfum færu eftir því að hve miklu leyti þau kæmu í staðinn fyrir hefðbundin ríkisskuldabréf og hve stór hluti þeirra yrði með samábyrgð. Lögð var áhersla á þrjá kosti:
  • Algjöra samþættingu á útgáfu ríkisskuldabréfa, þ.e. öll ríkisskuldabréf evrulandanna yrðu gefin út sameiginlega og með sameiginlegri ábyrgð.
  • Samþættingu á útgáfu ríkisskuldabréfa að hluta, þ.e. aðeins hluti ríkisskuldabréfa evrulandanna yrði gefinn út sameiginlega og með sameiginlegri ábyrgð. Samanber tillögu Weizsäcker og Delpla um samþættingu ríkisskulda upp að 60% af landsframleiðslu í hverju landi.
  • Samþættingu á útgáfu ríkisskuldabréfa að hluta, þ.e. aðeins hluti ríkisskuldabréfa evrulandanna yrði gefinn út sameiginlega. Evruríkin mundu hins vegar ekki ábyrgjast skuldabréfin sameiginlega heldur yrðu margar sérstakar ábyrgðir til staðar (e. several but not joint guarantees). Þessi kostur krefðist þess líklega ekki að breytingar yrðu á sáttmálum ESB.

Fyrsti kosturinn hefði mest áhrif á markaði og mundi kalla eftir því að evruríkin hefðu strangt eftirlit með ríkisfjármálum hvers annars. Þessi tegund samþættingar ríkisfjármála evruríkjanna væri í raun aðeins einu skrefi frá sameiginlegum fjárlögum, eins og tíðkast í alríkjum (e. federal government). Fyrsti kosturinn mundi, að áliti framkvæmdastjórnarinnar, kalla eftir verulegum breytingum á sáttmálum ESB. Þriðji kosturinn hefði minnst áhrif á markaði en honum væri hægt að koma í framkvæmd með minnstri fyrirhöfn á stystum tíma.

Áhrifin af innleiðingu sameiginlegra skuldabréfa yrðu mismikil eftir því hve mikil samþættingin yrði, það er hver af kostunum þremur hér að ofan yrði valinn. Áhrifin, burt séð frá styrk þeirra, yrðu þó í stuttu máli þessi:
  • Sameiginleg ábyrgð evruríkjanna á skuldum hvers annars mundi hvetja til minni vaxtamunar milli landanna. Hvort vextir yrðu almennt lægri í öllum löndunum er óvíst og raunar ólíklegt því lágvaxtalönd mundu taka ábyrgð á ríkisskuldum hávaxtalanda.
  • Lægri vextir í núverandi hávaxtaríkjum gæfu þeim betri möguleika á að endurfjármagna skuldir sínar, að því gefnu að hin evruríkin samþykktu fjárlög þeirra án þess að það varpaði skugga á trúverðugleika ríkisfjármálastefnu viðkomandi ríkis.

Pólitískt séð eru sameiginleg ríkisskuldabréf varasöm. Þau hefðu í för með sér að stjórn ríkisfjármála evruríkjanna yrði færð úr höndum innlendra stjórnvalda yfir í hendur allra evruríkjanna. Slíkt fyrirkomulag getur valdið misklíð milli landa og alvarlegum töfum á afgreiðslu fjárlaga með hugsanlegum neikvæðum áhrifum á markaði. Ennfremur má halda því fram að fyrirkomulagið væri ólýðræðislegt frá sjónarhóli kjósenda þeirra landa sem fengju fjárlög sín ekki afgreidd án athugasemda frá öðrum evruríkjum þrátt fyrir að þau hafi verið samþykkt af viðkomandi þjóðþingi. Nauðsyn sameiginlegrar yfirstjórnar ríkisfjármála evruríkjanna til að tryggja stöðugleika á evrusvæðinu hefur einnig verið rædd óháð innleiðingu sameiginlegra skuldabréfa. Um það má lesa í svari við spurningunni Hvernig hefur samningnum um stöðugleika og vöxt verið breytt í kjölfar ríkisfjármálakreppunnar á evrusvæðinu? Í öllu falli mundi slíkt fyrirkomulag krefjast breytinga á sáttmálum Evrópusambandsins.

Sem stendur er innleiðing sameiginlegra ríkisskuldabréfa ólíkleg. Margir (meðal annars fjárfestirinn George Soros, Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og viðskiptablaðamaðurinn Wolfgang Münchau) hafa haldið því fram að sameiginleg ríkisskuldabréf séu nauðsynlegt meðal við kreppunni á evrusvæðinu. Þungavigtarstjórnmálamenn í ESB eins og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, og Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, eru hins vegar þeirrar skoðunar að bréfin séu ekki rétta lausnin við vanda evrusvæðisins. Málið hefur því til þessa strandað á Þýskalandi og Frakklandi. Rétt er þó að geta þess að forsetaframbjóðandi sósíalista í Frakklandi, François Hollande, styður hugmyndina um sameiginleg ríkisskuldabéf.

Hvort Ísland, sem aðili að efnahags- og myntbandalaginu, gæti tekið lán á hagstæðari vöxtum ef sameiginleg skuldabréf evruríkjanna yrðu innleidd veltur á því með hvaða hætti það yrði gert. Eins og fram hefur komið er enn algerlega óvíst hvort evruskuldabréfin muni líta dagsins ljós og, ef af því yrði, hvernig þau yrðu útfærð.

Heimildir og mynd:

Upphafleg spurning:

Myndi sameiginlegt ríkisskuldabréf evrusvæðsins (euro bonds) hafa í för með sér að íslenska ríkið gæti tekið lán á hagstæðari vöxtum, þ.e.a.s ef að Ísland væri aðili að myntbandalaginu?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur30.3.2012

Tilvísun

Ólafur Margeirsson. „Mundu sameiginleg ríkisskuldabréf evruríkjanna hafa í för með sér að íslenska ríkið gæti tekið lán á hagstæðari vöxtum, ef Ísland væri aðili að myntbandalaginu?“. Evrópuvefurinn 30.3.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60450. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Ólafur Margeirssondoktorsnemi í hagfræði við háskólann í Exeter, Bretlandi

Við þetta svar er engin athugasemd Fela