Spurning

Getur evruríki yfirgefið evrusamstarfið?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Aðildarríki Evrópusambandsins sem hefur tekið upp evruna sem gjaldmiðil getur ekki yfirgefið evrusamstarfið einhliða nema ganga úr Evrópusambandinu. Ekki er heldur lagalegur grundvöllur fyrir því í sáttmálum sambandsins að tilteknu evruríki sé vísað úr samstarfinu gegn vilja þess. Eina leiðin til að evruríki hverfi frá evrunni og taki upp sjálfstæða mynt án þess að ganga úr Evrópusambandinu er að aðildarríki Evrópusambandsins komist að einróma samkomulagi um slíkt.

***

Ekkert evruríki getur ákveðið upp á eigin spýtur að yfirgefa evrusamstarfið nema ganga jafnframt úr Evrópusambandinu. Ástæðan fyrir því er sú að í sáttmálunum um Evrópusambandið er ekkert ákvæði sem gerir ráð fyrir því sem möguleika að evruríki hætti að nota evruna. Þvert á móti var það yfirlýstur vilji aðildarríkja ESB að innleiðing sameiginlegs gjaldmiðils væri óafturkallanleg (sjá bókun við Maastricht-sáttmálann) og segir í sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins (SSE) að gengi evrunnar sé fest með óafturkræfum hætti gagnvart gengi gjaldmiðils viðkomandi aðildarríkis (140. grein SSE). Að sama skapi er hvergi gert ráð fyrir því í sáttmálum Evrópusambandsins að hægt sé að vísa tilteknu evruríki úr myntbandalaginu, né Evrópusambandinu ef út í það er farið, án samþykkis þess.


Evruríki segja ekki auðveldlega skilið við evrusamstarfið.
Fyrir aðildarríki sem vill yfirgefa evruhópinn og taka upp sjálfstæða peningamálastefnu eru strangt til tekið tveir möguleikar í stöðunni. Annar er sá að viðkomandi ríki gangi úr Evrópusambandinu, en með Lissabon-sáttmálanum gekk í fyrsta sinn í gildi ákvæði sem heimilar aðildarríkjum að segja sig úr sambandinu (50. grein SSE). Eftir að aðildarríki hefur tilkynnt leiðtogum aðildarríkjanna í leiðtogaráðinu að það vilji segja sig úr Evrópusambandinu ber ráðinu, fyrir hönd sambandsins, að gera samning við viðkomandi ríki um hvernig staðið skuli að úrsögn þess og framtíðartengslum við sambandið. Sáttmálar ESB hætta að taka til viðkomandi ríkis á gildistökudegi samnings um úrsögn eða, ef enginn slíkur samningur liggur fyrir, þegar tvö ár eru liðin frá tilkynningu um úrsögn. Ákvæðið kveður þannig bæði á um möguleikann á að semja um úrsögn við ESB og um rétt aðildarríkja til einhliða úrsagnar. Sjá frekari umfjöllun í svari við spurningunni Geta aðildarríki ESB gengið úr sambandinu?

Á það hefur verið bent að einhliða úrsögn evruríkis úr Evrópusambandinu, án samkomulags við hin evruríkin og Seðlabanka Evrópu, sé þó óhugsandi í raun og veru. Aðild að myntbandalaginu hafi svo víðtæk áhrif og flókin að ekkert evruríki geti hlaupið frá skuldbindingum sínum öðruvísi en að ganga frá lausum endum í samvinnu við ráðið og Seðlabanka Evrópu (sjá Athanassiou, 2009).

Hinn möguleikinn er að aðildarríkið semji sérstaklega um úrsögn sína úr myntbandalaginu við hin aðildarríkin í samræmi við svonefnda hefðbundna endurskoðunarmeðferð sem heimilar breytingar á sáttmálum sambandsins (48. grein SSE). Fyrir evruríki sem vill gefa evruna upp á bátinn en ekki yfirgefa Evrópusambandið er þetta eina leiðin. Hún krefst þess þó að öll aðildarríkin 28 komist að samkomulagi um hvernig staðið skuli að því að umrætt ríki gangi úr myntbandalaginu því aðeins er hægt að semja um breytingar á sáttmálum sambandsins með einróma samþykki aðildarríkjanna.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur15.6.2012

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Getur evruríki yfirgefið evrusamstarfið?“. Evrópuvefurinn 15.6.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62776. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela