Spurning

Hvað er átt við með svissnesku leiðinni í samskiptum ríkja við ESB?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Þegar talað er um svissnesku leiðina eða svissnesku lausnina í samskiptum ríkja við Evrópusambandið er verið að vísa til tvíhliða samninga Sviss við ESB um aðgang að innri markaði sambandsins. Fullveldissjónarmið réðu því að Sviss kaus á sínum tíma að taka ekki þátt í EES-samstarfinu og leita heldur eftir tvíhliða samningum við ESB. Samningarnir tryggja að Sviss er ekki gert að taka upp regluverk sambandsins á jafnmörgum sviðum og EFTA/EES-ríkin þurfa að gera. Réttur Sviss til þess að hafna innleiðingu á regluverki ESB er hins vegar skertur með sérstöku ákvæði í samningunum. Enn sem komið er, hefur ekkert ríki gert jafnmarga tvíhliða samninga við ESB og Sviss og hafa allir samningarnir verið lagðir í þjóðaratkvæðagreiðslu þar í landi.

***

Sviss er eina EFTA-ríkið sem er ekki aðili að EES-samningnum. Eftir að Svisslendingar höfnuðu samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1992 hófust viðræður milli Evrópusambandsins og Sviss um gerð tvíhliða samninga um aðgang að innri markaði sambandsins. ESB var tilbúið til slíkra viðræðna enda Sviss mikilvægt samstarfsríki vegna landfræðilegrar legu sinnar, með tilliti til samgangna yfir Alpana, og einn stærsti viðskiptaaðili sambandsins.

Árið 1992 hófst fyrsta lota viðræðna um gerð tvíhliða samninga milli ESB og Sviss og náðist samkomulag á sjö sviðum. Samið var um frjálst flæði fólks, vegaflutninga, flugumferð, sölu á landbúnaðarafurðum, afnám tæknilegra viðskiptahindrana, opinber innkaup og rannsóknir. Það tók hins vegar langan tíma að ganga frá samningunum, en þeir tóku ekki gildi fyrr en árið 2002. Svisslendingar fengu þar með aðgang að innri markaði ESB, tæpum áratug á eftir EFTA/EES-ríkjunum sem höfðu verið hluti hans síðan 1994.

Önnur lota viðræðna um gerð tvíhliða samninga milli Sviss og ESB lauk árið 2004. Þá var samið um þátttöku Sviss í Schengen-samstarfinu en einnig náðist samkomulag um samstarf á vettvangi efnahagssvika og um innleiðingu hluta af regluverki ESB, sem sneri að landbúnaði, umhverfismálefnum, fjölmiðlum, menntun, réttindum aldraðra, tölfræði og þjónustu, í svissneska löggjöf.


Svissneska þinghúsið í Bern.

Eftirlit með framkvæmd samninganna milli ESB og Sviss er í hendi sérstakrar tvíhliða nefndar, en í henni sitja fulltrúar beggja samningsaðila og eru allar ákvarðanir teknar með samhljóma samþykki. Hvor samningsaðilinn um sig er ábyrgur fyrir því að ákvæðum samninganna sé framfylgt á sínu svæði. Samningarnir eru jafnframt háðir svokölluðu fallaxarákvæði (e. Guillotine Clause) sem kveður á um að sé ekki staðið við framkvæmd einhvers af samningunum, samkvæmt þeim forsendum sem tiltekinn samningur er byggður á, þá falli allir samningarnir úr gildi. Ákvæðið á að ýta undir að fundnar séu skjótar lausnir á ágreiningsmálum sem upp geta komið á milli samningsaðila.

Meginástæðan fyrir því að Svisslendingar kusu að taka ekki þátt í EES-samstarfinu var andstaða við afsal fullveldis. Með tvíhliða samningum vonuðust Svisslendingar til þess að komið yrði til móts við þetta sjónarmið. Samningarnir tryggja að Sviss er ekki gert að taka upp regluverk sambandsins að jafnmiklu leyti og EFTA/EES-ríkin þurfa að gera á grundvelli EES-samningsins. Þetta er einkum vegna þess að samningar Sviss og ESB ná ekki yfir jafnmörg málefnasvið og EES-samningurinn gerir. Sviss er hins vegar gert að taka upp löggjöf ESB á þeim sviðum sem samningarnir ná til, á sama hátt og viðgengst í EES-samningnum. Sviss hefur rétt á að hafna lögum frá ESB en þessi réttur er skertur sökum fallaxarákvæðisins.

Svissneska leiðin hefur oft verið nefnd sem valkostur í stað EES-samningsins fyrir Ísland. Hún fæli í sér að Ísland mundi semja við ESB um aðgang að innri markaðinum upp á nýtt. Svo lengi sem EES-samningurinn heldur gildi sínu verður sú leið þó tæpast farin. Hvort svissneska leiðin stæði Íslendingum til boða ef EES-samningurinn félli úr gildi er óvíst. Það færi meðal annars eftir því við hvaða aðstæður sú staða kæmi upp. Þannig væri varla að vænta sterks samningsvilja ESB í garð Íslands ef ríkið segði sig einhliða frá EES-samningnum af einhverjum ástæðum. Einnig væri samningsstaða Íslands varla jafnsterk og hún var á sínum tíma í viðræðunum um EES-samninginn, en þá naut Ísland samflots við hin EFTA-ríkin.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur20.7.2012

Flokkun:

Evrópumál > ýmislegt

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hvað er átt við með svissnesku leiðinni í samskiptum ríkja við ESB?“. Evrópuvefurinn 20.7.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62834. (Skoðað 3.12.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela