Hverjar yrðu helstu breytingar fyrir Íslendinga, ef landið segði sig úr Schengen-samstarfinu?
Spyrjandi
Gunnar Ársælsson
Svar
Ef Ísland segði sig úr Schengen-samstarfinu þyrfti meðal annars að auka landamæraeftirlit til muna og aðgengi að evrópskri lögreglusamvinnu mundi skerðast verulega. Árlegur kostnaður við samstarfið mundi falla niður, en á móti kæmi annar kostnaður svo sem viðamiklar breytingar á innviðum Keflavíkurflugstöðvarinnar. Réttindi EES-borgara til búsetu og dvalar hér á landi mundu ekki breytast þótt Ísland segði sig úr Schengen-samstarfinu.- Setja þyrfti upp landamæraeftirlit vegna alls flugs til og frá Keflavíkurflugvelli, og væntanlega ráða fleiri lögregluþjóna til að sinna landamæraeftirlitinu.
- Íslensk löggæsla hefði ekki lengur aðgang að Schengen-upplýsingakerfinu (Schengen Information System, SIS), en hægt er að lýsa eftir einstaklingi í SIS-upplýsingakerfinu og þannig má finna hann í öðrum löndum á Schengen-svæðinu og framselja hann eða afhenda á grundvelli samstarfssamninga þar um. Ekki væri lengur mögulegt að fletta tilteknum einstaklingi upp í SIS-kerfinu til að sjá hvort hann hafi brotið af sér og sé eftirlýstur á Schengen-svæðinu. Lögreglan gæti einungis stuðst við gagnabanka Interpol, á vegum Alþjóðasambands sakamálalögreglu, sem er mun takmarkaðri.
- Aðgengi Íslands að evrópskri lögreglusamvinnu mundi eflaust skerðast, upplýsingaflæði milli íslenskra og evrópskra lögregluyfirvalda mundi dragast saman og verða óskilvirkara því ólíklegt er að ríki Evrópusambandsins kæmu upp sérstöku samvinnukerfi við Ísland ef ríkið stæði utan Schengen.
- Úrsögn úr Schengen mundi þýða upptöku landamæraeftirlits gagnvart Norðurlöndum og þar með væntanlega úrsögn úr Norræna vegabréfasamningnum; en vegabréfasamstarfið við Norðurlöndin var eitt meginsjónarmiðið sem réði ákvörðun íslenskra stjórnvalda um aðild að Schengen-samstarfinu á sínum tíma.
- Árlegur kostnaður við Schengen-aðild Íslands mundi falla niður en á móti kæmi kostnaður við að standa utan Schengen þar sem ráða þyrfti fleiri lögregluþjóna og ráðast yrði í viðamiklar breytingar á innviðum Keflavíkurflugstöðvarinnar. Upplýsingar um slíkan kostnað liggja ekki fyrir. Árlegur kostnaður Íslands vegna Schengen-samstarfsins er hins vegar grundvallaður á tilteknum fjárlagalið í fjárlögum (sjá töflu).
Ár Upphæð í millj. kr. 2012 112,1 2011 108,9 2010 122,3 2009 106,1 2008 94,5 2007 133,5 2006 100,4 2005 56,3 2004 54,4 2003 53,6
- Skýrsla innanríkisráðherra um Schengen-samstarfið - innanríkisráðuneytið. (Skoðað 28.08.2012).
- Mynd: EC, ready to back up any measure necessary for a positive decision on Schengen by JHA Council in September | ACTMedia. (Sótt 31.08.2012).
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur31.8.2012
Flokkun:
Efnisorð
Schengen ESB úrsögn Schengen-upplýsingakerfið innanríkisráðherra EES-samningurinn fjórfrelsi landamæraeftirlit lögreglusamvinna kostnaður
Tilvísun
Brynhildur Ingimarsdóttir. „Hverjar yrðu helstu breytingar fyrir Íslendinga, ef landið segði sig úr Schengen-samstarfinu?“. Evrópuvefurinn 31.8.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62934. (Skoðað 21.11.2024).
Höfundur
Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum