Spurning

Njóta fátækustu ríki heims sérstakra tollfríðinda hjá Evrópusambandinu?

Spyrjandi

Elvar Örn Arason

Svar

Í stuttu máli er svarið já, fátækustu ríki heims njóta sérstakra tollfríðinda hjá Evrópusambandinu. Allt frá árinu 1971 hefur Evrópusambandið veitt þróunarríkjum aukinn markaðsaðgang að sambandinu, meðal annars með því að veita þeim tollfríðindi við innflutning á vörum á grundvelli almenns tollaívilnanakerfis (e. Generalized System of Tariff Preferences, GSP). GSP-kerfið veitir þróunarríkjum betri möguleika á að flytja út framleiðsluvörur sínar til þeirra ríkja sem efnaðri eru og á að ýta undir viðskipti og stuðla að auknum hagvexti í þróunarríkjum með það að markmiði að gera þau samkeppnishæf á alþjóðavísu. Árið 2001 kom ESB á fót svokölluðu EBA-samkomulagi (e. Everything But Arms Agreement, EBA) þar sem felldir voru niður tollar á öllum vörum, fyrir utan vopn og skotfæri, til fátækustu þróunarríkjanna. EBA-samkomulagið er ein áætlun GSP-kerfis Evrópusambandsins.

***

Hugmyndin að GSP-kerfinu kviknaði á fyrstu ráðstefnum Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og þróun (e. United Nations Conference on Trade and Development, UNCTAD) sem haldnar voru árin 1964 og 1968. Markmið slíks ívilnanakerfis var að veita fátækum þróunarríkjum betri aðgang að alþjóðamörkuðum með einhliða tollalækkunum og flýta þannig fyrir þróun og hagvexti. Árið 1971 samþykktu aðildarríkin að hinum almenna samningi um tolla og viðskipti (e. General Agreement on Tariffs and Trade, GATT) að þróunarríkjum skyldi veitt undanþága frá 1. gr. samningsins sem kveður á um að „[…] sérhvert hagræði, fyrirgreiðsla, forréttindi eða undanþága, sem samningsaðili veitir vegna vöru, sem kemur frá eða fer til hvaða annars lands sem er, skal þá þegar og skilyrðislaust veitt samsvarandi vöru, sem kemur frá eða fer til landssvæða allra annarra samningsaðila“. Nokkrum árum síðar, árið 1979, var svonefnt stuðningsákvæði (e. enabling clause) formlega tekið upp í GATT-samkomulagið sem veitir þróuðum aðildarríkjum heimild til að veita þróunarríkjum hagstæðari meðferð og betri viðskiptakjör án þess að gerast brotleg við 1. gr. samningsins.


Túnfiskur er mikilvæg útflutningsvara í Ekvador sem nýtur sérstakra tollaívilnana hjá Evrópusambandinu. Myndin sýnir túnfiskvinnslu í Ekvador

Evrópubandalagið (forveri Evrópusambandsins) var fyrst allra til að koma GSP-kerfi í framkvæmd og hefur kerfið verið hluti af sameiginlegri viðskiptastefnu sambandsins (e. common trade policy) allt frá árinu 1971. GSP-kerfi Evrópusambandsins er útfært með reglugerð sem gildir til þriggja ára í senn.

Núverandi GSP-kerfi ESB inniheldur þrjár áætlanir:
  • Hefðbundið GSP-kerfi sem 176 þróunarríki og -svæði hafa aðgang að. Undir hefðbundna GSP-kerfi ESB falla 6,4 þúsund vörur sem skipt er niður í viðkvæmar og óviðkvæmar vörur. Af þessum 6,4 þúsund vörum eru 2,5 þúsund skilgreindar sem óviðkvæmar og 3,9 þúsund sem viðkvæmar. Á viðkvæmar vörur eru lagðir 3,5% lægri tollar en skilgreindir bestukjaratollar (e. most favoured nation tariff, MFN) GATT-samkomulagsins. Óviðkvæmar vörur eru tollfrjálsar.
  • GSP+-kerfi sem veitir viðkvæmum þróunarríkjum aukin fríðindi ef þau skuldbinda sig til að uppfylla alþjóðasamninga um mann- og verkalýðsréttindi, samninga sem tengjast umhverfismálum og meginreglum um góða stjórnsýsluhætti. Viðkvæm þróunarríki sem sækja um GSP+ og uppfylla ofangreind skilyrði fá tolla niðurfellda á öllum þeim 6,4 þúsund vörum sem skilgreind eru í hefðbundna GSP-kerfinu. Þróunarríki sem talin eru viðkvæm þurfa að uppfylla eftirfarandi:
    1. ekki vera á skrá Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar yfir efnahagslega vel sett ríki;
    2. fimm stærstu vöruflokkar ríkisins mega ekki fara yfir 75% af heildarútflutningi til ESB;
    3. og útflutningur tiltekins ríkis má ekki vera yfir 1% af heildarinnflutningi allra GSP-ríkjanna til ESB.
    16 þróunarríki hafa verið skilgreind sem viðkvæm og eru aðstoðarþegar GSP+-kerfisins, þau eru Armenía, Aserbaídsjan, Bólivía, Ekvador, El Salvador, Georgía, Gvatemala, Hondúras, Kólumbía, Kostaríka, Mongólía, Níkaragva, Paragvæ, Perú, Srí Lanka og Venesúela.
  • EBA-samkomulagið sem veitir fátækustu þróunarríkjum heims niðurfellingu allra tolla af öllum vörum, nema á vopnum og skotfærum. Viðkvæmu vörurnar bananar, hrísgrjón og sykur eru ekki alveg tollfrjálsar en á tímabilinu frá 1. október 2009 til 30. september 2012 skuldbindur innflytjandi í ESB sig til að kaupa slíkar vörur á lágmarksverði sem má þó ekki vera lægra en 90% af viðmiðunarverði. Í dag eru 48 ríki skilgreind af Sameinuðu þjóðunum sem fátækustu ríki heims og hafa þau öll aðgang að EBA-samkomulaginu (sjá töflu).
    Afganistan Gínea Malaví Samóa
    Angóla Gínea-Bissá Maldíveyjar Saó Tóme og Prinsípe
    Austur-Tímor Haítí Malí Senegal
    Bangladess Jemen Máritanía Síerra Leóne
    Benín Kambódía Mið-Afríkulýðveldið Sómalía
    Búrkína Fasó Kíribatí Miðbaugs-Gínea Súdan
    Búrúndí Kongó Mósambík Tansanía
    Bútan Kómoreyjar Nepal Tógó
    Djíbútí Laos Níger Tsjad
    Erítrea Lesótó Rúanda Túvalú
    Eþíópía Líbería Salómonseyjar Úganda
    Gambía Madagaskar Sambía Vanúatú

Þegar þróunarríki hefur náð svipuðu stigi þróunar og þróuð ríki, eru ekki lengur forsendur fyrir því að veita því frekari tollfríðindi. GSP-kerfið veitir því framkvæmdastjórn ESB heimild til að útskrifa frá kerfinu þau ríki sem eru talin nægilega þróuð og sem uppfylla tiltekin efnahagsleg skilyrði þrjú ár í röð. Ríki sem er útskrifað getur þó aftur gerst aðili að kerfinu ef þróun þess er undir viðmiðunarmörkum þrjú ár í röð.

Hinn 10. maí 2011 lagði framkvæmdastjórnin fram tillögu að umbótum á GSP-kerfinu en ný reglugerð átti að taka gildi 1. janúar 2012. Lagasetningarmeðferð nýju reglugerðarinnar stendur yfir en Evrópuþingið samþykkti ályktun um tillögu framkvæmdastjórnarinnar um endurbætt GSP-kerfi 13. júní síðastliðinn og þarf hún nú að fara fyrir ráð ESB. Ekki er hægt að sjá fyrir hvenær ný reglugerð verður endanlega samþykkt en frestur hefur verið veittur til 31. desember 2013. Þangað til gildir reglugerð (nr. 732/2008) um almenna tollaívilnanakerfið með síðari breytingum.

Ísland hefur GSP-kerfi þar sem tollar eru felldir niður af vörum sem upprunnar eru í fátækustu ríkjum heims (sbr. 7. gr. tollalaga (nr. 88/2005)). Ísland veitir niðurfellingu tolla af iðnaðarvörum, unnum landbúnaðarafurðum og sjávarafurðum. Í áliti framkvæmdastjórnar ESB, frá febrúar 2010, var bent á að umfang fríðindanna og fjöldi aðstoðarþega væri takmarkaður á Íslandi í samanburði við sambærilegt regluverk ESB. Ef til aðildar kæmi þyrfti Ísland að beita því GSP-kerfi sem ESB býður þróunarríkjum í dag í gegnum tollskrá sambandsins.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 7.9.2012

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Njóta fátækustu ríki heims sérstakra tollfríðinda hjá Evrópusambandinu?“. Evrópuvefurinn 7.9.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63144. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela