Einfölduð endurskoðunarmeðferð
Spyrjandi
Evrópuvefur
Svar
Stofnsáttmálum Evrópusambandsins er hægt að breyta eftir tveimur leiðum. Annars vegar í samræmi við hefðbundna endurskoðunarmeðferð og hins vegar með einfaldaðri endurskoðunarmeðferð (48. grein sáttmálans um Evrópusambandið, SESB). Ákvæðið um einfaldaða endurskoðunarmeðferð (e. simplified revision procedure) var innleitt í stofnsáttmála ESB með Lissabon-sáttmálanum árið 2009. Meðferðinni er hægt að beita í tvennum tilgangi. Annars vegar til að gera efnislegar breytingar á ákvæðum þriðja hluta sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins, sem varða innri stefnur sambandsins og aðgerðir á vettvangi þess (samtals um það bil 170 ákvæði). Það er gert með eftirfarandi hætti (6. mgr. 48. gr. SESB):- Ríkisstjórn hvaða aðildarríkis sem er, Evrópuþingið og framkvæmdastjórnin geta lagt fyrir leiðtogaráðið tillögur að endurskoðun á sumum eða öllum ákvæðum þriðja hluta sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins.
- Leiðtogaráðið getur samþykkt ákvörðun um að breyta öllum eða sumum ákvæðum þriðja hluta sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins.
- Leiðtogaráðið skal taka ákvörðun einróma, það er með samþykki leiðtoga allra aðildarríkjanna, að höfðu samráði við Evrópuþingið og framkvæmdastjórnina svo og Seðlabanka Evrópu, ef um er að ræða breytingar er varða stofnanir sem starfa á sviði peningamála.
- Ákvörðunin má ekki auka við þær valdheimildir sem sambandinu eru veittar í sáttmálunum.
- Ákvörðunin öðlast ekki gildi fyrr en aðildarríkin hafa samþykkt hana í samræmi við stjórnskipunarreglur sínar, það er ýmist með samþykki þjóðþinga, með einum eða öðrum hætti, eða þjóðaratkvæðagreiðslu.
- Kveði sáttmálinn um starfshætti Evrópusambandsins eða V. bálkur sáttmálans um Evrópusambandið (um aðgerðir sambandsins gagnvart ríkjum utan þess og sértæk ákvæði um sameiginlega stefnu í utanríkis- og öryggismálum), á um að ráðið skuli taka einróma ákvörðun á tilteknu sviði eða í ákveðnu tilviki getur leiðtogaráðið samþykkt ákvörðun um að heimila ráðinu að taka ákvörðun með auknum meirihluta á því sviði eða í því tilviki. Þetta ákvæði gildir ekki um ákvarðanir sem tengjast hernaðarstarfi eða eru á sviði varnarmála sem þýðir að ekki er hægt að afnema neitunarvald aðildarríkjanna á þessum sviðum með einfaldaðri endurskoðunarmeðferð.
- Kveði sáttmálinn um starfshætti Evrópusambandsins á um að ráðið skuli samþykkja lagagerðir í samræmi við sérstaka lagasetningarmeðferð getur leiðtogaráðið samþykkt ákvörðun um að heimila að slíkar lagagerðir séu samþykktar í samræmi við almenna lagasetningarmeðferð.
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur 5.10.2012
Flokkun:
Efnisorð
sáttmálar stofnsáttmálar hefðbundin endurskoðunarmeðferð einfölduð endurskoðunarmeðferð Lissabon-sáttmálinn endurskoðun valdheimildir stjórnskipunarreglur þjóðþing þjóðaratkvæðagreiðsla formkröfur ákvarðanatöku lagasetningarmeðferð
Tilvísun
Evrópuvefur. „Einfölduð endurskoðunarmeðferð“. Evrópuvefurinn 5.10.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63348. (Skoðað 21.11.2024).
Höfundur
Prenta
Senda
Frekara lesefni á Evrópuvefnum:
- Hvaða leiðir eru hentugastar fyrir Evrópusambandið til að ná fram málum í andstöðu við einstök smáríki innan sambandsins?
- Í hvaða málaflokkum skerti Lissabon-sáttmálinn neitunarvald aðildarríkja ESB?
- Hverju breytir Lissabon-sáttmálinn í vægi aðildarríkja innan Evrópuþings og framkvæmdastjórnar?
- Nákvæmlega hverju breytir Lissabon-sáttmálinn um áhrif smáríkja innan ráðs ESB á næstu árum?