Spurning

Evrópa 2020

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Evrópa 2020 er 10 ára stefnumörkun Evrópusambandsins sem hefur það markmið að stuðla að sjálfbærum hagvexti innan sambandsins. Áætluninni var komið á fót árið 2010. Hún tók við af Lissabon-áætluninni sem gilti í 10 ár frá árinu 2000 og hafði að markmiði að tryggja samkeppnishæfni Evrópu. Áætlunin Evrópa 2020 var mótuð í kjölfar alþjóðlegu fjármála- og efnahagskreppunnar en sökum hennar hefur halli í ríkisrekstri aðildarríkjanna margfaldast, skuldir aukist og milljónir manna misst vinnu sína.

Forgangsatriði áætlunarinnar eru þrjú:
  • Vöxtur byggður á þekkingu; efling þekkingar og nýsköpunar sem og aukin fjárfesting í rannsóknum.
  • Sjálfbær vöxtur; loftslagsmál, græn orka, betri nýting orku og aukin samkeppnishæfni á markaði.
  • Þátttaka allra; hærra menntunarstig, barátta gegn fátækt, sem og félagsleg samþætting.

Stefnumörkunin Evrópa 2020 og markmið hennar eru höfð til hliðsjónar við gerð og framkvæmd allra stefna sambandsins, einkum á sviði innri markaðarins, fjárlaga ESB, þar sem kostnaðarsamt verður að fjármagna verkefni áætlunarinnar, og viðskiptastefnu ESB við önnur ríki. Fimm mælanleg markmið liggja áætluninni til grundvallar:
  • 75% fólks á aldrinum 20-64, að lágmarki, hafi atvinnu fyrir árið 2020, en núverandi atvinnuhlutfall innan ESB er 69%.
  • 3% af þjóðarframleiðslu aðildarríkjanna verði varið í rannsóknir og þróun, sem leiði til aukinnar nýsköpunar. Núverandi útgjöld ESB-ríkjanna til rannsókna og þróunar nema tæpum 2% af þjóðarframleiðslu. Í Bandaríkjunum er samsvarandi hlutfall 2,6% og í Japan 3,4%.
  • 20/20/20-markmiðin í orku- og loftslagsmálum. Þetta þýðir 20% minni losun gróðurhúsalofttegunda, aukið hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa um 20% og 20% aukning á skilvirkni í orkunotkun.
  • Lækka brottfall nemenda úr skólum í minna en 10% og stuðla að því að minnst 40% yngri kynslóðarinnar ljúki námi á háskólastigi. Innan við þriðjungur einstaklinga á aldrinum 25-34 ára hefur lokið háskólanámi í öllum ESB-ríkjunum samanlagt. Til samanburðar hefur 40% ungs fólks á sama aldri lokið háskólanámi í Bandaríkjunum og 50% í Japan.
  • Fækka þeim sem lifa við fátæktarmörk í Evrópusambandinu um 20 milljónir íbúa, eða um 25% frá því sem nú er.

Markmiðin eru að miklu leyti tengd hvert öðru, til dæmis stuðlar aukin menntun að auknum atvinnutækifærum sem dregur jafnframt úr fátækt. Með auknum framlögum til rannsókna og þróunar eykst samkeppnishæfni evrópskra fyrirtækja og ný störf verða til. Aukin áhersla á endurnýjanlega orku stuðlar enn fremur að nýjum tækifærum í atvinnurekstri og atvinnumöguleikum og auðveldar aðildarríkjum ESB að ná markmiðum sínum í loftslagsmálum.

Stefnumörkuninni Evrópa 2020 er ætlað að bæta stöðuna í aðildarríkjunum frá því sem nú er í samvinnu við stofnanir Evrópusambandsins. Aðildarríkin móta eigin landsáætlanir og verkefni, sem byggja á grundvallarmarkmiðum Evrópu 2020, en þau eru útfærð sérstaklega út frá hagsmunum hvers ríkis fyrir sig. Aðildarríkjunum er gert að skila inn tveimur skýrslum á ári um hvernig þeim miðar að ná settum markmiðum.

Ísland er ekki þátttakandi í Evrópa 2020 áætluninni. Ofangreind forgangsverkefni áætlunarinnar heyra þó að hluta til undir EES-samninginn og því fylgjast EFTA/EES-ríkin náið með framvindu mála. Samkvæmt bráðabirgðaathugunum EFTA-skrifstofunnar er um að ræða í kringum 300 tillögur að nýrri löggjöf sem auðvelda á framkvæmd stefnunnar. Meira en helmingur þessara tillagna er á gildissviði EES-samningsins.

Nánari upplýsingar um Evrópu 2020 má finna á heimasíðu framkvæmdastjórnarinnar.
Við þetta svar er engin athugasemd Fela