Hver er afstaða ESB til lögleiðingar marijúana og/eða annarra kannabisefna?
Spyrjandi
Runólfur Grétar Guðmundsson
Svar
Evrópusambandið hefur ekki laga- eða reglusetningarvald á sviði fíkniefnamála heldur fara aðildarríkin sjálf með slíkar valdheimildir. Samkvæmt alþjóðasamningum á vegum Sameinuðu þjóðanna er kannabis (hass, marijúana (stundum kallað gras) og hassolía) skilgreint sem fíkniefni. Ríki sem aðild eiga að samningunum hafa skuldbundið sig til að taka upp í landslög refsiákvæði við framleiðslu, smygli, afhendingu og dreifingu slíkra efna. Hins vegar eru engir alþjóðasamningar til sem kveða á um refsingar við notkun og vörslu kannabis og er það því í höndum sérhvers ríkis að skilgreina það í landsrétti sínum. Kannabis er ólöglegt í öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins en ríkjunum er þó frjálst að afnema eða milda refsingar við notkun og vörslu slíkra efna.Mismunandi hlutar kannabisplöntunnar.
- Í fimm ESB-ríkjum varðar neysla kannabis við hegningarlög; í Finnlandi, Frakklandi, Grikklandi, Kýpur og Svíþjóð.
- Í sjö ESB-ríkjum varðar neysla kannabis stjórnsýsluviðurlögum; í Búlgaríu, Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Lúxemborg, Portúgal og á Spáni.
- Í fimmtán ESB-ríkjum er neysla kannabis ekki bönnuð í lögum en varsla þess í litlu magni til einkanota varðar annað hvort við hegningarlög eða stjórnsýsluviðurlögum. Þannig er það í Austurríki, Belgíu, Bretlandi, Danmörku, Hollandi, Írlandi, á Ítalíu, Möltu, í Póllandi, Rúmeníu, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklandi, Ungverjalandi og Þýskalandi.
- Í sjö ESB-ríkjum varðar varsla lítils magns kannabis til einkanota stjórnsýsluviðurlögum; í Eistlandi (tvö fyrstu skiptin), á Ítalíu, í Lettlandi, Portúgal, Slóveníu, á Spáni og í Tékklandi. Viðurlögin eru mismunandi eftir ríkjum en sem dæmi má nefna viðvaranir, fésektir, tímabundna eða ótímabundna sviptingu ökuskírteinis og/eða vegabréfs.
- Í sjö af þeim tuttugu ESB-ríkjum þar sem varsla kannabisefna til einkanota varðar við hegningarlög eru engin viðurlög skilgreind í landslögum og því ekki refsað fyrir slík brot. Þannig er löggjöfin í Belgíu, Bretlandi, Danmörku, Hollandi, Lúxemborg, Póllandi og Þýskalandi. Magn kannabis sem einstaklingar mega hafa í fórum sínum er breytilegt eftir ríkjum og er til að mynda takmarkað við 3 g í Belgíu, 5 g í Portúgal og Tékklandi, 6-15 g í Þýskalandi, 25 g á Spáni.
- Hver er munurinn á kannabis, hassi, grasi og marijúana? frá Fræðslumiðstöð í fíknivörnum (FRÆ).
- Valda kannabisefni varanlegum skemmdum á neytanda (ekki lungum)? eftir Jakob Kristinsson.
- Hvenær og af hverju var kannabis bannað á Íslandi? Eða eru engin lög sem banna það? eftir Halldór Gunnar Haraldsson.
- EMCDDA | Publication search result. (Skoðað 15.01.2013).
- EMCDDA | 2012 Annual report on the state of the drugs problem in Europe. (Skoðað 15.01.2013).
- EMCDDA | 2011 Annual report on the state of the drugs problem in Europe. (Skoðað 15.01.2013).
- EMCDDA | Overviews of legal topics: possession of cannabis for personal use. (Skoðað 15.01.2013).
- Fyrri mynd: Image:Koeh-026.jpg. Wikimedia Commons. Hún er upphaflega úr bókinni Koehler's Medicinal-Plants 1887. (Sótt 18.01.2013).
- Seinni mynd: Légalisation du cannabis: L´argumentaire des pro et des anti - 20minutes.fr. (Sótt 18.01.2013).
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur18.1.2013
Efnisorð
ESB fíkniefni kannabisefni marijúana Sameinuðu þjóðirnar lögleiðing afnám refsingar alþjóðasamningar Evrópuþingið ráð ESB ESB-ríki
Tilvísun
Brynhildur Ingimarsdóttir. „Hver er afstaða ESB til lögleiðingar marijúana og/eða annarra kannabisefna?“. Evrópuvefurinn 18.1.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63660. (Skoðað 21.11.2024).
Höfundur
Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum