Spurning

Hver er samningsafstaða Íslands í kaflanum um frjálsa vöruflutninga?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Samningskaflinn um frjálsa vöruflutninga fellur að öllu leyti undir EES-samninginn. Ísland hefur því innleitt nær alla löggjöf kaflans og ekki að ætla að aðild mundu fylgja teljandi breytingar á þessu sviði. Í samningsafstöðunni samþykkir Ísland regluverk kaflans en fer jafnframt fram á tvær sérlausnir. Sú fyrri snýst um að viðhalda undanþágu, sem á sínum tíma var samið um í sameiginlegu EES-nefndinni, um takmarkanir á kadmíuminnihaldi í fosfóráburði. Seinni sérlausnin snýr að útgáfu og gildi markaðsleyfa fyrir lyf og þeim tungumálakröfum sem gilda um fylgiseðla lyfja, en Ísland stefnir að því að koma á fót sameiginlegum markaði fyrir lyf ásamt nágrannalöndum sínum.

***

Kaflinn um frjálsa vöruflutninga (1. kafli) í aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins var opnaðar á ríkjaráðstefnu þann 18. desember 2012. Uppistaða kaflans er hin samræmda regluskrá Evrópusambandsins um vöruframleiðslu sem gerð er á grundvelli samevrópskra staðla, útgáfu samræmisvottorða sem eru vegabréf vörunnar á innri markaðinum, löggildingu mælitækja og framkvæmd markaðseftirlits svo eitthvað sé nefnt. Undir kaflann heyra tæplega 1000 reglugerðir sem flestar eru tæknilegs eðlis. Sú krafa er gerð af hálfu Evrópusambandsins í aðildarviðræðunum að umsóknarríki geti sýnt fram á að þau búi yfir þeirri stjórnsýslugetu og þeim löggjafar- og stofnanaramma sem geri þeim kleift að viðhalda reglum sambandsins.

Efni kaflans fellur að öllu leyti undir EES-samninginn sem Ísland hefur verið aðili að síðan árið 1994. Ísland hefur því innleitt nær alla löggjöf kaflans og sá hluti hennar sem enn hefur ekki verið innleiddur verður það á næstunni samkvæmt tilgreindu ferli EES-samningsins. Möguleg aðild Íslands að Evrópusambandinu mundi því ekki fela í sér teljandi breytingar á sviði frjálsra vöruflutninga.


Dettifoss á leið til Íslands frá Hamborg.

Í samningsafstöðu Íslands um frjálsa vöruflutninga kemur fram að Ísland samþykki regluverk kaflans að teknu tilliti til niðurstöðu samningaviðræðnanna. Farið er fram á tvær sérlausnir. Sú fyrri snýst um að fá að viðhalda undanþágu, sem á sínum tíma var samið um á grundvelli EES-samningsins (ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 8/2005) um takmarkanir á kadmíuminnihaldi í fosfóráburði hér á landi, í stað þess að hlíta ákvæðum reglugerðar Evrópusambandsins (nr. 2003/2003) í því tilliti.

Rökin sem samninganefnd Íslands hefur fært fyrir viðhaldi undanþágunnar eru þau að íslenskur jarðvegur, sem er eldfjallajarðvegur, sé í eðli sínu ólíkur jarðvegsgerðum í Evrópu og að staðbundnar rannsóknir hafi sýnt að þungmálmar eins og kadmíum í áburði geti haft skaðleg áhrif hérlendis. Notkun fosfóráburðar geti leitt til aukinnar uppsöfnunar kadmíums í efri lögum jarðvegsins sem þar af leiðandi geti leitt til uppsöfnunar kadmíums í vef dýra og að lokum í neytendum. Í samningsafstöðunni segir því að Ísland sækist eftir undanþágu frá reglugerð nr. 2003/2003 með því að viðhalda takmörkunum á kadmíuminnihaldi fosfóráburðar (við 50 mg pr. kg fosfórs) eftir aðild.

Seinni sérlausnin sem óskað er eftir í samningsafstöðu Íslands snýr að útgáfu og gildi markaðsleyfa fyrir lyf og þeim tungumálakröfum sem gilda um fylgiseðla lyfja. Rök samninganefndarinnar eru þau að lyfjamarkaðurinn á Íslandi sé lítill og hann hafi löngum þurft að glíma við torveldara aðgengi að lyfjum og hátt verðlag. Þá hafi erlend lyfjafyrirtæki ekki séð hag í því að markaðsetja lyf á Íslandi þar sem kostnaður við markaðsleyfi og þýðingu á merkingum og fylgiseðlum sé hár í samanburði við hlutfallslegan hagnað sökum smæðar markaðarins. Sökum þessa hafi Ísland löngum stefnt að því að koma á fót sameiginlegum markaði fyrir lyf ásamt nágrannalöndum sínum þannig að markaðsleyfi fyrir lyf í Danmörku gæti til dæmis einnig gilt á Íslandi. Slíkt samstarf mundi felast í sameiginlegri útgáfu markaðsleyfa og hafa í för með sér breiðara úrval lyfja, aukna samkeppni og lækkun lyfjakostnaðar fyrir neytendur. Óformlegar viðræður um þetta mál hafa átt sér stað innan Norðurlandaráðsins.

Í rýniskýrslu samninganefndar segir að fordæmi séu fyrir því meðal aðildarríkja ESB að ríki viðurkenni markaðsleyfi fyrir lyf sem gefið er út í öðru aðildarríki. Þannig viðurkenni Lúxemborg markaðsleyfi sem gefin eru út í Belgíu. Í samningsafstöðunni kemur því fram að Ísland óski eftir sérlausn að því er varðar markaðsleyfi fyrir lyf í III. bálki og tungumálakröfur í V. bálki tilskipunar nr. 2001/83/EB að því er varðar lyf sem seljast í litlu magni. Viðræður í kaflanum voru opnaðar á ríkjaráðstefnu þann 18. desember 2012 en honum hefur ekki verið lokað.

Heimildir og mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela