Spurning

Uppfyllir Ísland Maastricht-skilyrðin núna?

Spyrjandi

Þórdís Eva Einarsdóttir

Svar

Maastricht-skilyrðin fyrir upptöku evru eru fimm talsins. Samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands frá árinu 2011 uppfyllir Ísland aðeins eitt af Maastricht-skilyrðunum en það er skilyrðið um langtímavexti. Áætlanir gera ráð fyrir því að á allra næstu árum muni Ísland einnig uppfylla skilyrðin um verðstöðugleika og afkomu hins opinbera. Það mun hins vegar taka Ísland lengri tíma að uppfylla skilyrðið um skuldir hins opinbera og gengisstöðugleika.

***

Áður en aðildarríki Evrópusambandsins geta tekið fullan þátt í Efnahags- og myntbandalagi Evrópu (EMU) þurfa þau að uppfylla ákveðin skilyrði um efnahagslega samleitni sem í daglegu tali eru kölluð Maastricht-skilyrðin. Skilyrðin eru fimm talsins og lúta að vöxtum, verðstöðugleika, ríkisfjármálum (afkomu og heildarskuldum hins opinbera) og stöðugleika í gengismálum.


Hollenska borgin Maastricht.

Í skýrslu Seðlabanka Íslands um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum kemur fram að líklega muni Ísland uppfylla flest skilyrðin fyrir upptöku evru á allra næstu árum. Það sé æskilegt óháð því hvort Ísland verði aðili að ESB eða ekki. Samkvæmt tölum sem teknar eru saman í skýrslunni og eru frá árinu 2011 (sjá töflu hér að neðan) uppfyllir Ísland aðeins eitt af Maastricht-skilyrðunum en það er skilyrðið um langtímavexti. Samkvæmt því skulu nafnvextir langtímaskuldabréfa ekki vera meira en 2 prósentum hærri en langtímavextir í þeim þremur ESB-löndum sem hafa hagstæðustu verðbólguþróunina. Árið 2011 námu vextir á Íslandi 6,8% en viðmiðið var 7,7%.

Vert er að taka fram að í skýrslu Seðlabanka Evrópu fyrir árið 2011 var annað viðmiðunargildið fyrir langtímavexti notað, eða 5,8% en það er lægra en það sem Seðlabanki Íslands reiknaði sem var 7,7%. Það viðmiðunargildi sem Seðlabanki Evrópu notar er lægra þar sem vaxtatölur frá Írlandi eru teknar út úr viðmiðinu en vextir þar voru langt umfram meðaltal í hinum aðildarríkjunum vegna sérstakra aðstæðna landsins á fjármálamarkaði það ár. Samkvæmt viðmiðunargildi Seðlabanka Evrópu uppfyllti Ísland því ekki skilyrðið um langtímavexti árið 2011.

Skilyrðið um verðstöðugleika kveður á um að verðbólga skuli ekki vera meira en 1,5 prósentum hærri en meðaltal verðbólgu í þeim þremur ESB-löndum sem hafa hagstæðustu verðbólguþróunina. Viðmiðunargildið fyrir árið 2011 var 3% en verðbólga á Íslandi var á sama tíma 4,2%. Í skýrslu Seðlabankans er talið líklegt að Ísland muni uppfylla skilyrðið um verðstöðugleika á komandi árum.

Verðbólga (%) Vextir

(%)
Afkoma hins opinbera

(% af VLF)
Heildarskuldir hins opinbera

(% af VLF)
Ísland 4,2 6,8 -4,4 99
Viðmiðunargildi ESB 3,0 7,7 -3,0 60

Á árunum fyrir fjármálakreppuna árið 2008 uppfyllti Ísland Maastricht-skilyrðin um opinber fjármál. Þau eru annars vegar að halli á ríkisrekstri sé ekki meiri en 3% af vergri landsframleiðslu (VLF) og hins vegar að skuldir hins opinbera séu ekki meiri en 60% af VLF, eða að skuldahlutfallið stefni nægilega hratt að því marki ef það er hærra en 60%. Eftir að fjármálakreppan skall á varð mikill halli á rekstri hins opinbera og í kjölfarið hækkuðu skuldir ríkisins verulega. Ísland er því ekki lengur innan viðmiðunarmarka varðandi þessi skilyrði. Árið 2011 nam hallinn á rekstri íslenska ríkisins 4,4% af vergri landsframleiðslu. Samkvæmt spá Seðlabanka Íslands frá nóvember 2012 er gert ráð fyrir því að hallarekstur ríkisins muni minnka á næstu árum þannig að skilyrðið um afkomu hins opinbera verði uppfyllt.

Það sama gildir ekki um skuldir hins opinbera en árið 2011 náðu þær hámarki og voru 99% af vergri landsframleiðslu. Í skýrslu Seðlabankans segir að skuldirnar muni að öllum líkindum lækka jafnt og þétt en þó muni það taka Ísland töluvert langan tíma að uppfylla skilyrðið um skuldir hins opinbera. Skuldir íslenska ríkisins verði því áfram yfir 60% af vergri landsframleiðslu næstu árin.

Fimmta Maastricht-skilyrðið, um stöðugleika í gengismálum, felur í sér að ríki hafi verið aðili að gengissamstarfi Evrópu (ERM II) í að minnsta kosti tvö ár án gengisfellingar eða mikilla gengissveiflna. Forsenda fyrir því að ríki geti tekið þátt í gengissamstarfi Evrópu er að það sé aðili að Evrópusambandinu.

Jafnvel þótt Ísland uppfyllti öll Maastricht-skilyrðin er ekki endilega víst að það mundi duga til að fá samþykki Evrópusambandsins fyrir upptöku evru. Þetta er vegna þess að ríki sem vilja taka upp evru þurfa að sýna fram á að þau geti uppfyllt skilyrðin til langs tíma en ekki einungis tímabundið.

Í skýrslu Seðlabanka Íslands kemur fram að þess séu dæmi að Evrópusambandið hafi veitt aðildarríkjum undanþágur og þau fengið aðild að Efnahags- og myntbandalaginu án þess að uppfylla öll Maastricht-skilyrðin. Þannig var Belgíu og Ítalíu veitt undanþága frá skilyrðunum um skuldir hins opinbera árið 1999, þegar ríkin fengu aðild að myntbandalaginu, og Grikklandi var veitt sama undanþága árið 2001. Í þessum tilvikum taldi Evrópusambandið að opinberar skuldir ríkjanna mundu lækka til lengri tíma litið, þar sem skuldir þeirra höfðu farið lækkandi fram að því. Í ljósi fenginnar reynslu evruríkjanna, og yfirstandandi efnahagsvandræða á evrusvæðinu, verður að teljast ólíklegt að Íslandi, eða öðrum núverandi eða verðandi aðildarríkjum Evrópusambandsins, verði veittar sambærilegar undanþágur í framtíðinni.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur17.5.2013

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Uppfyllir Ísland Maastricht-skilyrðin núna?“. Evrópuvefurinn 17.5.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65199. (Skoðað 21.11.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela