Spurning

Hvaða ESB-ríki utan evrusvæðisins uppfylla Maastricht-skilyrðin?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Danmörk var eina ríkið, af þeim tíu ESB-ríkjum sem standa utan evrusvæðisins, sem uppfyllti öll Maastricht-skilyrðin árið 2011, þetta kemur fram í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn á Alþingi í febrúar 2013. Einungis þrjú ríki uppfylltu skilyrðið um verðstöðugleika og fimm ríki uppfylltu skilyrðið um vexti. Þrjú aðildarríki uppfylltu skilyrðið um afkomu hins opinbera en átta ríki skilyrðið um heildarskuldir hins opinbera. Loks uppfylltu 3 ríki skilyrðið um tveggja ára þátttöku í ERM II gengissamstarfinu. Ungverjaland var eina ríkið sem uppfyllti ekkert skilyrðanna.

***

Tíu aðildarríki Evrópusambandsins eru ekki fullir þátttakendur í Efnahags- og myntbandalagi Evrópu (EMU). Þau þurfa að uppfylla svonefnd Maastricht-skilyrði um efnahagslega samleitni áður en þau geta tekið upp evru. Skilyrðin eru fimm talsins og lúta að vöxtum, verðstöðugleika, ríkisfjármálum (afkomu og heildarskuldum hins opinbera) og stöðugleika í gengismálum.


Evruseðlar.

Í skriflegu svari Össurar Skarphéðinssonar, þáverandi utanríkisráðherra, við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar á Alþingi þann 11. febrúar 2013, er staða þeirra ESB-ríkja sem standa utan evrusvæðisins gagnvart Maastricht-skilyrðunum tekin saman fyrir árið 2011 (sjá töflu hér að neðan). Skilyrðið um verðstöðugleika kveður á um að verðbólga skuli ekki vera meira en 1,5 prósentum hærri en meðaltal verðbólgu í þeim þremur ESB-ríkjum sem hafa hagstæðustu verðbólguþróunina. Árið 2011 voru það Írland, Svíþjóð og Tékkland og var viðmiðunargildið 3,1%. Þau ESB-ríki utan evrusvæðisins sem uppfylltu þetta skilyrði voru Danmörk, Svíþjóð og Tékkland.

Samkvæmt skilyrðinu um vexti skulu nafnvextir langtímaskuldabréfa ekki vera meira en 2% hærri en langtímavextir í þeim þremur ESB-ríkjum sem hafa hagstæðustu verðbólguþróunina. Árið 2011 var verðbólga lægst í Svíþjóð, Tékklandi og Írlandi en að þessu sinni var þó ekki stuðst við vaxtatölur frá Írlandi þar sem vextir þar voru langt umfram meðaltal í hinum aðildarríkjunum. Í staðinn var aðeins tekið mið af vaxtaprósentunum í Svíþjóð og Tékklandi. Viðmiðunargildið fyrir vexti var því 5,2%. Þau ríki sem uppfylltu vaxtaskilyrðið voru Bretland, Danmörk, Litháen, Svíþjóð og Tékkland.

ESB-ríki utan evrusvæðisins Verðbólga (%) Vextir

(%)
Afkoma hins opinbera

(% af VLF)
Heildarskuldir hins opinbera

(% af VLF)
Bretland 4,5 2,9 -7,8 85,0
Búlgaría 3,4 5,4 -2,0 16,3
Danmörk 2,7 2,7 -1,8 46,6
Lettland 4,2 5,9 -3,4 42,2
Litháen 4,1 5,2 -5,5 38,5
Pólland 3,9 6,0 -5,0 56,4
Rúmenía 5,8 7,3 -5,5 33,4
Svíþjóð 1,4 2,6 0,4 38,4
Tékkland 2,1 3,7 -3,3 40,8
Ungverjaland 3,9 7,6 4,3 81,4
--- --- --- --- ---
Viðmiðunargildi 3,1 5,2 -3,0 60,0

Maastricht-skilyrðin um opinber fjármál eru tvenns konar. Annars vegar að halli á ríkisrekstri sé ekki meiri en 3% af vergri landsframleiðslu (VLF) og hins vegar að skuldir hins opinbera séu ekki meiri en 60% af VLF, eða að skuldahlutfallið stefni nægilega hratt að því marki ef það er hærra en 60%. Þrjú aðildarríki uppfylltu skilyrðið um afkomu hins opinbera en það voru Búlgaría, Danmörk og Svíþjóð. Lettland var rétt yfir viðmiðunargildinu en þar í landi hefur fjárlagahalli ríkisins lækkað umtalsvert á undanförnum árum og litlu munar að landið uppfylli þetta skilyrði. Átta ríki uppfylltu skilyrðið um heildarskuldir hins opinbera; Búlgaría, Danmörk, Lettland, Litháen, Pólland, Rúmenía, Svíþjóð og Tékkland. Ríkin tvö sem ekki uppfylltu skilyrðið, Bretland og Ungverjaland, skulduðu rúm 80% af VLF.

Maastricht-skilyrðið um stöðugleika í gengismálum mælir fyrir um að minnsta kosti tveggja ára þátttöku í ERM II gengissamstarfinu án gengisfellingar eða mikilla gengissveiflna. Danmörk, Lettland og Litháen voru einu ríkin sem uppfylltu þetta skilyrði. Stjórnvöld í Lettlandi stefna að upptöku evru í ársbyrjun 2014 og nýlega lýstu stjórnvöld í Litháen því yfir að þau stefni að upptöku evru árið 2015.

Danmörk er eina ESB-ríkið utan evrusvæðisins sem uppfyllti öll Maastricht-skilyrðin árið 2011. Svíþjóð kemur næst á eftir en landið uppfyllti öll skilyrðin að undanskildri tveggja ára þátttöku í ERM II. Þá var Ungverjaland eina ríkið sem uppfyllti ekkert Maastricht-skilyrðanna. Hvorki Danmörk né Svíþjóð eru þó líkleg til þess að taka upp evru á næstunni. Danmörk, ásamt Bretlandi, samdi á sínum tíma um varanlega undanþágu frá upptöku evru en gengi dönsku krónunnar er haldið föstu gagnvart gengi evru í gegnum þátttöku Danmerkur í ERM II og á grundvelli tvíhliða samkomulags danska og evrópska seðlabankans. Svíþjóð er formlega séð skuldbundið af ákvæðum sáttmála Evrópusambandsins um upptöku evru en hefur ekki óskað eftir þátttöku í ERM II. Sænsk stjórnvöld hafa ekki áform um að taka upp evru á næstunni en því var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2003. Afstaða Svía til evrunnar hefur til þessa verið látin óátalin af Evrópusambandinu. Nánar má lesa um stöðu Danmerkur og Svíþjóðar gagnvart evrusamstarfinu í svari við spurningunni Hvaða Norðurlönd hafa evru sem gjaldmiðil?

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur31.5.2013

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hvaða ESB-ríki utan evrusvæðisins uppfylla Maastricht-skilyrðin?“. Evrópuvefurinn 31.5.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65361. (Skoðað 3.12.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela