Spurning
Sameiginleg stefna í öryggis- og varnarmálum
Spyrjandi
Evrópuvefur
Svar
Sameiginleg stefna í öryggis- og varnarmálum (e. Common Security and Defence Policy, CSDP) er óaðskiljanlegur hluti sameiginlegrar stefnu ESB í utanríkis- og öryggismálum. Fyrri stefna, Evrópska stefnan í öryggis- og varnarmálum (e. European Security and Defence Policy, ESDP), var samþykkt á leiðtogafundi í Köln árið 1999. Með Lissabon-sáttmálanum var núverandi heiti á stefnunni tekið upp og markmið hennar nánar skilgreind. Stefnan á að tryggja sambandinu athafnagetu á grundvelli borgaralegra og hernaðarlegra kosta. Aðildarríki ESB geta þannig í sameiningu sent herafla eða lögregluteymi á átakasvæði utan sambandsins til að sinna friðargæslu, fyrirbyggja átök og efla alþjóðaöryggi í samræmi við meginreglur sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Til verkefna, sem heyra undir sameiginlega stefnu í öryggis- og varnarmálum, teljast:sameiginlegar afvopnunaraðgerðir, mannúðar- og björgunaraðgerðir, hernaðarleg ráðgjöf og aðstoð, aðgerðir til að fyrirbyggja átök og friðargæsla, verkefni átakasveita í hættustjórnun, þ.m.t. aðgerðir til að koma á friði og koma á stöðugu ástandi í kjölfar átaka. Öll þessi verkefni geta verið liður í baráttunni gegn hryðjuverkum, s.s. með því að styðja þriðju lönd í baráttu gegn hryðjuverkum á yfirráðasvæðum sínum. (1. mgr. 43. gr. sáttmálans um Evrópusambandið)Í sáttmálanum segir jafnframt að komi til vopnaðra átaka á yfirráðasvæði aðildarríkis ESB sé hinum aðildarríkjunum skylt að bjóða fram hjálp sína og aðstoð eins og þau frekast geti. Virða beri þær skuldbindingar sem aðildarríki hafa gagnvart Norður-Atlantshafsbandalaginu sem verði áfram grundvöllur sameiginlegra varna aðildarríkja þess og vettvangur framkvæmdar á þeim vörnum. Þá þarf stefna ESB að samrýmast stefnu NATO í öryggis- og varnarmálum. Sameiginlega stefnan í öryggis- og varnarmálum gengur aldrei framar stefnu hvers aðildarríkis og ákvarðanir eru teknar einróma af öllum aðildarríkjum ESB á vettvangi leiðtogaráðs sambandsins. Í dag er Evrópusambandið með 15 hersveitir að störfum í 12 ríkjum og á yfirráðasvæði Palestínu. Þar af eru ellefu borgaralegir herflokkar (e. civilian missions), meðal annars í Afganistan, Georgíu, Kongó, Kósóvó, og Palestínu, og fjórir herflokkar (e. military missions), þar af einn í Bosníu og Hersegóvínu, einn í Malí og tveir í Sómalíu. Herflokkarnir samanstanda af rúmlega 6.000 hermönnum, þar af eru um 3.500 í borgaralegum verkefnum og rúmlega 2.500 í hernaðarlegum verkefnum. Sjá yfirlitsmynd á heimasíðu utanríkisþjónustu ESB. Varnarmálastofnun Evrópu skilgreinir þörfina á aðgerðargetu sambandsins hverju sinni.
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur 7.6.2013
Flokkun:
Efnisorð
sameiginleg stefna utanríkis- og öryggismál öryggis- og varnarmál Evrópusambandið Lissabon-sáttmálinn Sameinuðu þjóðirnar NATO friðargæsla leiðtogaráðið Varnarmálastofnun Evrópu
Tilvísun
Evrópuvefur. „Sameiginleg stefna í öryggis- og varnarmálum“. Evrópuvefurinn 7.6.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65413. (Skoðað 23.11.2024).
Höfundur
Prenta
Senda
Frekara lesefni á Evrópuvefnum:
- Hvernig bregst ESB við ef ráðist er á eitt ríki í sambandinu, fara þá öll ríkin í stríð?
- Er Evrópusambandið með einhvers konar Evrópuher og eru aðildarríkin skyldug til að taka þátt í honum?
- Hver er samningsafstaða Íslands í utanríkis, öryggis- og varnarmálum?
- Beitir Evrópusambandið ríki efnahagslegum refsiaðgerðum, í hverju felast þær?
- Hvernig beitir ESB sér í refsiaðgerðum gegn Íran vegna meintra tilrauna þarlendra stjórnvalda til að koma upp kjarnorkuvopnum?
Við þetta svar er engin athugasemd
Fela